0824 Internet 2000 I

0824

Fjölmiðlasaga
Internet 2000 I

Vísir var kominn að tölvum nútímans í spunavélum fyrir tveimur öldum. Fyrir einni öld var morse-stafróf ritsímans annað skref í átt til tölva. Fyrsta tölvan var svo smíðuð 1939 í tengslum við hernaðarþarfir heimsstyrjaldarinnar síðari.

Univac var fyrsta borgaralega tölvan 1951. Altair var fyrsta einkatölvan. Apple var fyrsta einkatölvan, sem líktist tölvum nútímans, árið 1977. Microsoft gerði tölvuna að almenningseign. Þessi skref voru undanfari veraldarvefsins.

Internetið byrjaði 1969 sem Arpanet og notaði TCP/IP forskrift til að senda skilaboð milli rannsóknastofnana í varnarmálum í Bandaríkjunum. Smám saman fóru aðrar vísindastofnanir að taka þátt í þessu kerfi, sem var opnað almenningi 1991.

Aðrir þættir, sem síðar tóku þátt í að mynda internetið, voru WAN, net um langan veg, og LAN, net um skamman veg. Fyrsta WAN-netið var SABRE-pöntunarkerfi flugfarseðla. Xerox fann upp háhraða á LAN-neti 1972-1974.

Árið 1984 kynnti Macintosh hágæða grafík og fjölmiðlun á heimilistölvum. 1987 kom Apple með Hypercard forritið, sem var forveri HTML. CD-ROM diskar komu til sögunnar 1988. Þannig gerðust hlutirnir hratt, stig af stigi.

Veraldarvefurinn byrjaði 1991, þegar Tim Berners-Lee og fleiri starfsmenn evrópsku kjarnorkurannsóknastöðvarinnar CERN í Genf fundu upp HTML sem eins konar samræmt tungumál, sem gerði alls konar tölvum kleift að tala saman á internetinu.

Með HTML er hægt að setja texta, myndir og hljóð í sameiginlegt form á heimasíðum og senda það í tölvupósti. Með vöfrum á borð við fyrst Mosaic, síðan Netscape og loks Explorer, Firefox, Safari og Opera er hægt að valsa um vefinn á samræmdri tungu.

Mörgum fyrirtækjum hefur gengið vel á netinu. Amazon hefur náð 10% af bóksölu í Bandaríkjunum, eBay er markaðstorg með tilboðum og braski, Google er leitarvél, sem flestir nota til að finna hvað sem er á vefnum. Ýmsum öðrum hefur gengið miður.

Um miðjan fyrsta áratug nýrrar aldar eru hefðbundnir fjölmiðlar að ná mikilli fyrirferð á veraldarvefnum. Dagblöð og aðrir fjölmiðlar flytja fréttir í máli, hljóði og myndum. Eitt nýjasta æðið er í tónlist, iTunes og iPod og iPhone frá Apple.

Svo er nú komið, að veraldarvefurinn er farinn að taka áhorf frá sjónvarpi. Í tsunami-sjávarflóðinu í Suðaustur-Asíu árið 2004 var hann fljótari með fréttir heldur en þunglamalegt sjónvarpið. Stríðið um athygli fólks er enn á fullu.

Tölva byggist á miðlægri reiknivél. Hún hefur skammtímaminni, sem felur í sér hugbúnað, sem er í gangi á hverjum tíma og vistar til bráðabirgða niðurstöður útreikninga. Harðir diskar gera kleift að vista forrit og gögn til langs tíma.

Með notendabúnaði á borð við skjá, lyklaborð og mús er notandinn í sambandi við tölvuna og hugbúnað hennar. Mótald er tæknibúnaður, sem gerir kleift að senda hugbúnað og gögn milli tölva um venjulegar símalínur. Nú tengjast menn einnig þráðlaust.

Flestar tölvur koma með margvíslegum tengingum við prentara, hátalara, myndavélar, vídeó, harða diska, CD-diska, DVD-diska. Flestar tölvur geta skráð inn á CD-diska. Fartölvur hafa komið til sögunnar og verða sífellt léttari.

Náin framtíð í tölvum er, að þær verði vaxandi hluti af hefðbundnum tækjum, gegni þar sérhæfðu hlutverki. Tölvur eru í sjónvarps- og heimilistækjum, í bílum og íþróttatækjum. Slíkar tölvur eru aðeins hægt að nota í þeirra sérhæfða hlutverki.

Önnur framtíð í tölvum er, að þær nái heildarsýn yfir margvíslega tækni, til dæmis á heimilum fólks, stýri síma og sjónvarpi, tölvum og tónlist. Búist er við, að veraldarvefurinn verði sameiginlegt flutningstæki allrar þessarar tækni.

Skref í þessa átt eru ný forrit á borð við XHTML og Java, meira framboð af ódýrum háhraðatengingum fyrir almenning og þráðlaust samband. Öll þessi þróun er mjög virk um þessar mundir.

Flest stýrikerfi og forrit eru skrifuð á tungumáli, sem heitir C++. Á því máli eru stýrikerfin Windows og Macintosh og Linux, svo og þekktur hugbúnaður á borð við Microsoft Office, sem sameinar textavinnslu, töflureikni og grafík.

Vélbúnaður er búinn til af iðnfyrirtækjum á borð við Dell. Hugbúnaður er búinn til af hugbúnaðarfyrirtækjum á borð við Microsoft. Innihald er framleitt af margvíslegum aðilum, svo sem dagblöðum og öðrum fjölmiðlum.

Þjónustuaðilar veita aðgang að veraldarvefnum. Enginn einn aðili stjórnar veraldarvefnum. Fjölþjóðleg stofnun, ICANN, veitir netföng og heimasíður. Að miklu leyti keyrir internetið sjálfvirkt á tölvum þeirra, sem það nota.

Sérstakir prótókollar, samskiptareglur gilda um hin ýmsu versvið internetsins, prótókollar um póst, fundi, fréttir, skjalaflutning, aðgengi, skjalabirtingu. Veraldarvefurinn er dæmi um slíkan prótókoll. Vefsíðum er raðað eftir löndum, svo sem .is.

Hrygglengjan í internetinu felst í langlínum símafyrirtækja og innanhéraðslínum þeirra. Símstöðvar þessa kerfis eru stöðvar þjónustuaðilanna, sem veita fólki netföng og heimasíður. Ýmis samtök aðstoða svo við framþróun netsins.

Netþjónusta býður upp á breiðband og þráðleysi. Bluetooth er hugbúnaður, sem sér um þráðleysi innan heimilis og milli síma og tölvu, og WiFi sér um þráðlaust samband við internetið. “Streaming”, streymi, gerir kleift að spila hljóð og kvikmynd.

Sjá nánar:
Joseph Straubhaar & Robert LaRose,
Media Now
Understanding Media, Culture and Technology,
2006