0817 Deiglan 2000

0817

Fjölmiðlasaga
Deiglan 2000

Áður voru fjölmiðlar analog, notuðu samfelldar bylgjur, þar sem hver punktur rann inn í annan, svo sem í hljóði eða birtu. Nú eru fjölmiðlar digital, stafrænir, hoppa milli 0 og 1, eru ekki samfelldir.

Analog uppsprettu er breytt í digital flæði eða miðlun og síðan breytt til baka í analog viðtöku. Tölvan skilur bara digital, stafrænu, en maðurinn skilur bara analog, samfellu. Áður var ýmis miðlun analog, en nú er hún öll að verða stafræn.

Fjölmiðlar, símkerfi, internet og hugbúnaðargerð eru allt hlutar fjölmiðlunargeira efnahagslífsins. Þessir þættir eru að fléttast saman. Allt er að breytast, lög og opinber stefna, starfstækifæri, fjölmiðlanotkun og kenningar um fjölmiðlun.

Apple bauð tónlistinni iPod. Google keypti YouTube. Murdoch keypti MySpace, Microsoft kom sér fyrir í sjónvarpsleikjum, útvarpi, kapli, bókaútgáfu, kvikmyndum og keypti svo Facebook. Dagsbrún var í fjölmiðlum og síma um skeið.

Í flestum tegundum miðlunar er reiknað með svari móttakanda við boðum. Ferlin í þessu samhengi eru innan ramma menningar, þar sem uppspretta og viðtakandi eru bæði talin taka þátt í að búa til inntak. Hliðverðir eru þar áhrifamestir.

Hefðbundið er að telja fjölmiðlun fela í sér fjölmennar stofnanir með hundruðum eða þúsundum manna og litlu svari frá viðtakanda til uppsprettu. Dagblöð, tímarit, útvarp, sjónvarp og kvikmyndir eru dæmi um hefðbundna fjölmiðla.

Þegar vélrænir eða rafrænir hlutir eru notaðir við miðlun, svo sem útvarpsstöð eða sýningarvél, er talað um milligöngumiðlun. Hún getur verið frá einum aðila til annars, frá einum til margra eða frá mörgum til margra.

Hægt er að flokka aðra miðlun en milligöngumiðlun eftir fjölda málsaðila. Innri miðlun er eintal eins manns, miðlun er venjulega tveggja manna tal, hópmiðlun hefur hóp málsaðila með samtímasvörun. Miðlun má líka flokka eftir stað.

Fjölmiðlar eiga sér rætur í þjóðfélögum landbúnaðar og fyrirrennara landbúnaðar, en eru að öðru leyti afkvæmi iðnaðaraldar. Fjöldaframleiðsla og borgamyndun iðnbyltingarinnar leiddu til prentmiðla og síðan til annarra fjölmiðla.

Víxlverkun er, þar sem viðtakandi miðlunar getur svarað henni í samtíma. Dæmi um það er, þegar tugþúsundir manna greiða símaatkvæði um fulltrúa og síðan sigurvegara í evrópsku söngvasamkeppninni eða um ídol ársins.

Þróunin er í átt til samþættingar sérhæfðra brauta í alhliða stafræn kerfi, sem bjóða aðgang, þegar notandinn vill. Þekktir fjölmiðlar, svo sem dagblöð, útvarp og sjónvarp eru að breytast í, eða að læra að lifa við, ný stafræn form.

Meðal þessara nýju forma eru hágæðasjónvarp og veraldarvefur. Þau fela í sér hæfni til víxlverkunar, þar sem notendur geta ákveðið, hvar og hvenær þeir nota fjölmiðlana og einnig haft áhrif á innihald þeirra. Bloggið er líka orðið fjölmiðill.

Fjölmiðlun hefur víðtækari uppsprettur, sumpart minna áreiðanlegar og minna faglegar. Fréttir á netinu hafa stundum falið í sér skúbb, sem hefðbundnir fjölmiðlar hafa síðan tekið upp, en algengara er þó, að þær séu á villigötum.

Boð eru löguð að smærri og smærri hópum notenda. Boðum er þröngvarpað til þeirra í stað þess að útvarpa þeim til allra. Hópar notenda eru smærri og persónulegri en áður og hafa meiri burði til svörunar og aðildar að innihaldinu.

Um leið erum við að færast úr fjölmiðlun yfir í víxlmiðlun. Sumir sjá fyrir sér meira val fólks, meira frelsi, lægra verð, betra líf. Aðrir sjá mannleg samskipti víkja fyrir tölvum og að slúður á netinu leysi faglega blaðamennsku af hólmi.

Flestir munu framvegis horfa fram á fjórar eða fimm starfsbrautir á ævinni, ekki bara fjóra eða fimm vinnustaði, heldur mismunandi brautir. Þess vegna þurfa þeir, sem læra blaðamennsku, að kunna kvikmyndir, sjónvarp, internet, síma o.s.frv.

Í Bandaríkjunum er reiknað með 20% vexti í miðlunargeiranum næstu tíu ár, svipað og í atvinnulífinu almennt. Mestur vöxtur verður í hugbúnaði og interneti. Enginn vöxtur verður í hefðbundnum greinum, svo sem blaðamennsku og sjónvarpi.

Mikið af vinnu í hugbúnaði og interneti mun þó flytjast frá auðugu ríkjunum til fátækra ríkja með góðri menntun. Til dæmis hefur mikið af störfum á sviði síma og hugbúnaðar flust til Indlands. Störf í mannlegum samskiptum haldast betur.

Kostnaður við fyrsta eintak er meginkostnaður við kvikmynd, prentplötu. Hagur stærðarinnar kemur fram í að lækka kostnað við fyrsta eintakið og nýta fleiri eintök en fyrsta eintakið. Almenn lögmál markaðsfræðinnar stjórna fjölmiðlunum.

Sjónvarpsþáttur hefur lítinn jaðarkostnað umfram kostnað við fyrsta notanda. Dagblað hefur meiri jaðarkostnað af meiri pappír og einkum þó af flutningi hvers eintaks til hvers viðskiptavinar. Síminn er milli sjónvarps og prentunar í þætti jaðarkostnaðar.

Miðlar geta af ýmsum ástæðum búið við einokun eða fáokun eða samkeppni. Reynslan sýnir, að því meiri sem einokunin er og því minni sem samkeppnin er, þeim mun fábreyttari og dýrari er fjölmiðlunin. Þetta er líka lögmál úr markaðsfræðinni.

Mestar tekjur miðlunar koma frá endanlegum notanda, annað hvort með sölu eða leigu. Hefðbundin dagblöð og sjónvarp hafa tekjur af áskrift, selt er inn í bíó og símtöl eru mæld. Auglýsendum er seldur aðgangur að notendum. Sú aðferð er allsráðandi á interneti.

Sjá nánar:
Joseph Straubhaar & Robert LaRose,
Media Now
Understanding Media, Culture and Technology,
2006