0805 Ritmál

0805

Fjölmiðlasaga
Ritmál

Í ritunarlausu talmáli hafa orðin æðri merkingu. Heiti hafa vald. Ritunarlaust fólk lítur ekki á orð sem merkimiða, af því að það sér ekki orðin. Það er aðeins ritun, sem gerir okkur kleift að finna fyrir orðum eins þau séu merkimiðar.

Á miðöldum var engin saga, bara stakir bardagar og ástarævintýri. Það var engin landafræði og engin náttúrufræði og engin vísindi. Þetta voru aldir minnis, slúðurs og ímyndunar. Menn lifðu í guðsótta og þurftu ekki á staðreyndum að halda.

Rituð tungumál opna nýjar víddir, þar á meðal til flokkunar og rannsókna. Ritun kallar á vísindi og auknar fréttir. Að festa fréttir á blað er fyrsta skrefið í átt til óhlutlægrar fréttamennsku, sem flestir hafa nú að markmiði.

Ritun án prentunar er þó takmarkaður fréttamiðill. Bréf berast frá einum manni til annars, ekki frá einum til margra í senn. Fyrstu minjar um tungumál fjalla um vörulagera og vörusamninga, síðan um trúarbrögð, ekki um fréttir.

Á fimmtándu öld fyrir Krist höfum við fyrstu dæmi um skrifaðar fréttir, meira að segja ádeilur á spillingu valdhafa. Fréttir jukust með alfabetinu, fyrst hinu sérhljóðalausu alfabeti Kanaansmanna, síðan stafrófi Grikkja og Rómverja.

Alfabet Kanaansmanna var til um 1500 fyrir Krist, gríska alfabetið um 750 fyrir Krist. Grikkir birtu lög og reglugerðir, höggnar í stein á veggi opinberra bygginga. Gildi þessara skrifuðu frétta fór eftir því, hve margir voru læsir.

Skrifaðar fréttir þessa tíma gátu ekki keppt við munnlegar fréttir. Skrifaðar fréttir voru vettvangur hinnar læsu yfirstéttar. Það var ekki fyrr en prentunin kom til sögunnar, að almenningur varð læs og gat notað ritaðar fréttir.

Samfélag er sameiginlegt félag. Þeir, sem hugsa hugsanir samfélagsins, tilheyra því samfélagi. Fréttir eru mikilvægar í því samhengi, eins og saga, trú og list. Samfélag á erfitt með að verða stærra en sameiginlegt fréttasvæði þess.

Fréttir voru lengi að berast í heimsveldi Alexanders mikla, enda hrökk það í marga parta eftir lát hans. Því austar sem hann fór, þeim mun daufara varð samband hans við vestrið. Heimveldi hans gat ekki hangið saman á fréttum.

Samgöngur Rómverja voru betri. Þeir lögðu góða vegi. Allar leiðir lágu til Rómar. Fréttir bárust með ógnarhraða með ríðandi sendiboðum. Þeir fluttu tilskipanir og bréf. Menn fréttu snemma af erfiðleikum og ófriði í skattlöndum á útjaðrinum.

Acta Diurna voru daglegar fréttir hins opinbera, krítaðar eða hengdar upp á Forum. Fyrir framan þær stóðu atvinnuskrifarar og skrifuðu upp úr þeim kafla í sendibréf. Sumir skrifuðu fyrst og lásu síðan afritið upp fyrir marga skrifara.

Engin vissa er fyrir tækni þessara fyrstu dagblaða. Þau kunna að hafa verið krítuð beint á veggi í Forum og þau kunna að hafa verið fyrst skrifuð á papýrus og síðan hengd upp á veggina. Við vitum hins vegar, að þau voru skrifuð upp á papýrus og send.

Fréttablöð Rómar voru Acta Diurna populi Romani, Acta urbana og Acta senatus. Fundargerð öldungaráðsins var til 449 árum fyrir Krist, en ekki birt almenningi fyrstu aldirnar. Acta Diurna var til 59 árum f.K og birt almenningi.

Það var fyrsta verk Júlíusar Caesar sem ræðismanns í Róm að fundir öldungaráðsins og þjóðarinnar skyldu birtir almenningi á hverjum degi. Þannig varð til dagblað í Róm, dagblað, sem lifði öldum saman. Caesar stofnaði fyrsta dagblað heimsins.

Acta var ritskoðað dagblað, enda gefið út af valdhöfunum. Samt er litið svo á, að það hafi náð sæmilega yfir helstu fréttir hvers tíma, til dæmis fréttir af mikilvægum atburðum í stríði og stjórnmálum heimsveldisins.

Fleira var í blaðinu. Þar var sagt frá tilkynningum hins opinbera, úrskurðum dómstóla, sagt frá fæðingum, andlátum, giftingum, skilnuðum. Þar var sagt frá hátíðum og verklegum framkvæmdum. Þar var líka sagt frá hversdagslegum atburðum.

Við vitum, að Acta var enn til árið 222 og hafði þá verið útgefið í að minnsta kosti 280 ár. Stöðug dreifing frétta úr blaðinu var einn af lyklum langlífis rómverska keisaradæmisins. Í öllum kimum þess höfðu menn sameiginlegar fréttir.

Annað heimsveldi fyrri tíma var kínverska heimsveldi Han-ættarinnar. Þar var líka til fréttablað, en það var ekki opið almenningi. Það var fyrir embættismenn hins opinbera, gefið út af fréttastofu keisarans. Aðrar fréttir voru bannaðar.

Á óróaskeiði milli keisaraætta fóru aðilar utan kerfisins að gefa út bréf til dreifingar. Þetta olli hugarangri embættismanna, sem fengu nýjan keisara Sung-ættar til að banna slík bréf. Forusta í fréttum féll því ekki í hlut Kínaveldis.

Á 15. öld fóru handskrifuð fréttabréf að berast um Evrópu, til dæmis frá Feneyjum. Þau voru ein mynd þess, að endurreisnartímabilið var í aðsigi. Póstsamgöngur fóru batnandi og viðskiptalíf efldist. Hvort tveggja stuðlaði að meiri fréttum.

Feneyjar voru fréttamiðstöð. Þaðan bárust handskrifaðar fréttir, sem hafa fundist víða um Evrópu í nokkrum eintökum. Einkum voru það kaupsýslumenn, sem þurftu fréttir, einkum fréttir af uppskeru og vörulagerum, til dæmis Fugger-fyrirtækið.

Fréttir í Feneyjablöðunum og fréttablöðunum, sem komu út í kaupsýsluborgunum, voru yfirleitt alvarlegar, fjölluðu um hernað og stjórnmál, skipaferðir og uppskeru. Þær voru ætlaðar þeim, sem lifðu á kaupsýslu og siglingum.

Sjá nánar:
David Crowley & Paul Heyer, Communication in History, 2003
Mitchell Stephens, A History of News, 1988