0803 Talmál

0803

Fjölmiðlasaga
Talmál

Í samfélagi án ritunar er ekki hægt að fletta upp á neinu. Hljóð heyrist um leið og það gerist. Það hættir svo, það er hverfult. Það er ekki hægt að stöðva hljóð og halda því eins og hægt er að stöðva kvikmynd og halda mynd. Hljóð er eina hverfula skynjunin.

Í ritunarlausu talmáli þarf að muna mikið. Það gera menn með mikilli notkun spakmæla, með ryþma, með sífelldum endurtekningum og mótsögnum og öðrum klisjum, sem eru fastur þáttur í hugmyndaheimi allra. Þessar klisjur eru hugsunin sjálf.

Þú getur vafið þig hljóðum og fyllt þig hljóðum, en þú getur ekki vafið þig eða fyllt þig myndum. Hljóð er innræn skynjun, sjón er útræn skynjun. Hljóð sameinar þig umheiminum og sjón einangrar þig frá umheiminum. Sjón er einstaklingshyggja.

Þannig er hljóðið miðlægt í ritunarlausu samfélagi. Það sameinar, lætur menn meðtaka samfélagið, það harmónerar og er heildrænt, það er íhaldssamt, það er fullt af klisjum. Það er miðaldasamfélag
ið, ekki forngríska samfélagið eða lestrarsamfélag nútímans.

Með síma, útvarpi, sjónvarpi og annarri stafrænni tækni höfum við aftur komið upp eins konar ritunarlausu talmáli. Samfélagið er bara stærra en áður. Í gamla daga var það þorpið, nú er það alheimsþorpið. En þetta er ekki gamla ritunarleysið óbreytt.

Þingkosningar í sjónvarpi alheimsþorpsins eru ólíkar vali öldungs í þorpi gamla tímans. Þá var ágreiningur og skilaboð voru tvíátta. Nú mundi frambjóðandi tapa, ef hann væri æstur. Áhorf
endur eru þöglir, fjarlægir og hlutlausir við sjónvarpið heima.

Miðaldabúinn lifði ekki í heimi staðreynda. Hann hefði ekki skilið nútímahugtakið: Staðreynd. Allt líf hans var staðbundið. Allt, sem ekki var persónulegt, var slúður. Það, sem hann hefði kallað Staðreynd, mundum við kalla Skoðun.

Mállýska hvers þorps var óskiljanleg í þorpi í 75 kílómetra fjarlægð. Kaupmenn frá London, sem urðu skipreika í norðanverðu Englandi voru handteknir fyrir að tala útlensku, grunaðir um að vera útlendir njósnarar.

Lífið var einfalt á miðöldum, bóndinn vann fyrir alla, aðalsmaðurinn barðist fyrir alla, presturinn bað fyrir alla. Fréttir komu með köllurum. Enginn gerningur var gildur á bók einni saman, hann varð að vera í vitna viðurvist.

Skjöl voru oft fölsuð á miðöldum, eitt af hverjum þremur. Þau voru ekki dagsett og áttu að þjóna hagsmunum. Ferðamenn vissu ekki, hvar ákvörðunarstaður þeirra var, þeir höfðu ekki kort og lítið var um vegi. Þeir fóru í hópum til öryggis.

Á fimmtándu öld voru komnar póstsamgöngur milli hirða páfans í Róm, konunga Englands og Ara
gón, lýðveldis Feneyja og háskól
ans í París. Bréf bárust 150 km á dag með hestaskiptum. Í Ulm, Regensburg og Augsburg var komin staðbundin póstþjónusta.

Þegar fáir gátu lesið og skrifað, urðu menn að hafa gott minni. Flest var skráð í ljóðum til að festa í minni. Menn notuðu tækni minnisleikhúss til að ímynda sér texta eins og stóra höll með ýmiss konar afkimum. Dómkirkjur voru eins konar minnisleikhús.

Meðalskrifari meðal munka endurritaði eina bók á ári. Mikið kom inn af villum í endurritunum. Stundum týndust heilu bækurnar, af því að ekki var til neitt index til að finna þær eftir. Þær lágu bara í hillum án neinna vegvísa.

Nafn Rósarinnar eftir Umberto Eco segir frá komu Vilhjálms frá Baskerville í bókasafn klausturs, þar sem sagan gerist. Þar er sagt frá, hvernig bækur voru skráðar án flokkunarkerfis og hvernig var hægt eða var ekki hægt að nálgast þær bækur, sem maður vildi fá.

Krafan um skynsemi og staðreyndir, réttar fréttir, kom frá kaupsýslumönnum, sem þurftu að taka áhættu. Hún kom frá háskólum, sem bjuggu menn undir kaupsýslu. Hún kom frá stjórnarskrifstofum, þar sem skriffinnar þurftu að axla ríkisvaldið.

Mikilvægastur af þessu öllu var þó pappírinn, sem var ódýr og leysti skinn af hólmi. Upp komu skrifstofur, þar sem menn rituðu upp pappíra fyrir leika og lærða, fyrir stjórnvöld og menntamenn, fyrir lögmenn og þinglýsingamenn.

Bisticci í Flórens hafði 50 skrifara í vinnu. Menn voru farnir að nota gleraugu. Í þessar aðstæður kom prentun lausra bókstafa á pappír eins og bylting. Hún leiddi nútímann inn í heiminn. Hún var mesta bylting menningarsögunnar.

Demosþenes sagði, að Aþeningar væru uppteknir af fréttum. Í samfélögum án ritunar hafa fréttir mikilvægt hlutverk. Alls staðar, þar sem mannfræðingar hafa komið, berast munnlegar fréttir milli manna, milli þorpa, oft með ótrúlega miklum hraða.

Í stríðum hvítra og svartra manna í Suður-Afríku kom það hvítum mönnum á óvart, að Zulu-menn vissu meira um atburði. Þeir höfðu hlaupara, sem fóru langan veg til að segja fréttir og koma á framfæri skilaboðum frá Shaka, konungi Zulu-manna.

Margt af siðum og venjum ólæsra þjóðfélaga snýst um fréttir. Markaðstorgið er öðrum þræði fréttatorg. Dreifing á vörum og dreifing á fréttum fylgjast að. En fyrst vilja menn heyra fréttirnar, síðan skoða menn vörurnar.

Förukonur hafa ferðast um alls staðar á öllum tímum, hér á landi strax frá landnámi. Þær fluttu fréttir og slúður milli bæja. Njálssaga snýst um atburði, sem urðu í kjölfar rangra frásagna förukvenna í Rangárvallasýslu.

Förumenn og förukonur sögðu fréttir. Sendiboðar og hlauparar sögðu fréttir. Kallarar sögðu fréttir. Ljóðalesarar og söngvarar sögðu fréttir. Frá upphafi hafa valdhafar reynt að virkja þetta ferli og gera það undirgefið valdi sínu.

Talmál
Hljóðið er miðlægt í ritunarlausu samfélagi. Það sameinar, lætur menn meðtaka samfélagið, það er fullt af klisjum.