0810 Fréttaþróun

0810

Fjölmiðlasaga
Fréttaþróun

Frönsk blöð áttu ekki mikinn þátt í frönsku byltinguni á sama tíma. Þau hafa án efa átt þátt í að undirbúa jarðveginn, en þar skorti róttæk blöð fyrir byltinguna. Fréttablöð sættu skráningu og viðurlög voru dauðarefsing.

Neðanjarðarblöð komu upp í Frakklandi og voru mjög andvíg ríkjandi þjóðskipulagi. Þau réðust heiftarlega á akademíurnar, aðalinn, kirkjuna, hirðina og kónginn. Allt var það sagt ólæknandi af illsku og spillingu. Engin bönd héldu þeim.

Fólkið í París hafði meiri ástæðu til að trúa ofsafengnu blöðunum en hinum rólegu, sem voru gefin út með vilja og velvild stjórnvalda. Eitt hinna síðarnefndu sá ekki einu sinni frétt í árásinni á Bastilluna 1789.

Vegna skorts á fréttablöðum fór byltingin af stað í andrúmslofti sögusagna og ótta. Sagt var, að prinsinn væri baðaður úr blóði ungra alþýðudrengja og annað í þeim dúr. En blöð voru gefin frjáls 1789 og voru orðin 335 titlar árið 1790.

Tilgangur flestra þessara blaða var að halda fram stefnu ákveðinna flokka eða flokksbrota. Þegar Napóleon kom svo á ræðismannaveldi 1799 urðu aðeins fjögur dagblöð eftir í París, öll stranglega ritskoðuð af mönnum keisarans.

Eftir það voru frjáls blöð nánast eingöngu til á Englandi og í Bandaríkjunum. Árið 1825 var svo komið, að fleiri blöð voru gefin út í Bandaríkjunum en annars staðar í heiminum. Flest þeirra voru flokkspólitísk eins og íslensku blöðin.

Fyrsta blaðið á Íslandi var Islandske Maanedstidender frá 1775, síðan Minnisverð tíðindi 1798 og Klausturpósturinn 1818, öll gefin út af Magnúsi Stephensen. Ármann á Alþingi kom út 1829, Fjölnir 1835 og Ný félagsrit 1841.

Eftir óeirðirnar í Evrópu 1848 losnaði um höft og út fóru að koma blöð eins og Þjóðólfur, sem ekki var á mála hjá landsstjórninni. Sveinbjörn Hallgrímsson var fyrsti ritstjóri Þjóðólfs, sem var fyrsta frétta- og landsmálablað á Íslandi.

Dagblöðin í Bandaríkjunum voru dýr, kostuðu sex penní, og upplög voru lág. Upp úr 1830 komu penníblöðin til skjalanna, kollvörpuðu pólitísku blöðunum og innleiddu fjörlega blaðamennsku fyrir almenning, einkum æsifréttir, en líka málefnalegar.

The Times of London var nú orðið stærsta blað í heimi, kom út í meira en 10.000 eintökum árið 1830. En London var þá orðin tveggja milljóna manna borg, svo að dreifing blaðsins var hlutfallslega takmörkuð við yfirstéttina.

Penníblöð komu til sögunnar í París 1836 og sama ár voru þau gefin frjáls á Englandi með því að lækka stimpilgjaldið niður í eitt penní. Það var svo alveg afnumið árið 1855, en þá var The Times of London komið upp í 60.000 eintök.

Til sögunnar komu blaðakóngar, Joseph Pulitzer, Edward W. Scripps og William R. Hearst í Bandaríkjunum, svo og Northcliffe lávarður á Englandi. Árið 1887 var upplag New York World komið upp í 190.000 eintök virka daga og 250.000 um helgar.

Blaðakóngar sættu gagnrýni. “Prentfrelsi er fyrir þá, sem eiga prentvél.” Þegar hlutabréf í fjölmiðlum liggja við hlið hlutabréfa í gasi og síma, er ekki hægt að gera ráð fyrir róttækum skrifum í þeim sömu fjölmiðlum, sagði E. A. Ross.

Nám í blaðamennsku var á boðstólum fyrir aldamótin 1900 í Bandaríkjunum. Siðareglur fyrir blaðamenn urðu til í Bandaríkjunum árið 1923. Umboðsmenn lesenda urðu til upp úr síðari heimsstyrjöldinni, fyrst í Bandaríkjunum.

Á 20. öldinni hefur hlutlægni verið helsta boðorð blaðamanna. Að vísu er ókleift að vera fullkomlega hlutlægur. Fréttir gerast í skurðpunkti atburða og texta. Þótt atburðirnir móti textann, mótar textinn líka atburðina.

Sumt er ekki leysanlegt. Hryðjuverkamaður eins er frelsishetja annars. Sértrúarsöfnuður eins er kirkjusöfnuður annars. Stjórnmálamaður eins er pólitíkus annars. Margir blaðamenn fela sig því að baki tilvitnana í heimildamenn: “Hann sagði …”

Þegar Joseph McCarthy veifaði fölsuðum listum, var ekki nóg fyrir fjölmiðla að birta listana með formerkjunum: “Hann sagði …” Blaðamenn eru ábyrgir fyrir fölsunum heimildamanna sinna. Það tók langan tíma að koma upp um McCarthy.

Fyrsta útvarpsstöðin byrjaði 1920. Fimm árum síðar var komin hálf milljón úvarpstækja í Bandaríkjunum. Útvarpsmenn komu frá dagblöðunum og fluttu með sér vinnureglur þeirra. Áherslan á stuttaralega texta varð enn harðari en áður.

1950 kom sjónvarpið. Útvarpsmenn fluttu hefðina áfram þangað. Af nútímamiðlum kemst sjónvarpið næst fortíðinni, þar sjá fréttanotendur þann, sem segir fréttina. En núna er samhengið ekki lengur beggja átta, það er einnar áttar.

Eins og penníblöðin upp úr 1830, eins og gula pressan upp úr 1880 og eins og smábrotsblöðin upp úr 1920 hefur sjónvarpinu tekist að ná til almennings. Miðað við það er merkilegt, að sjónvarpsfréttir skuli ekki vera æsilegri en þær eru.

Ný tækni hefur þvingað dagblöðin til að fara aftur út í lengri texta, meiri fréttaskýringar og bakgrunn. Texti blaðanna er sumpart orðinn lengri og hægari en hann varð stystur. Hinn aldagamli fréttaskortur hefur breyst í offlæði frétta.

CNN og sólarhringsfréttir komu til sögunnar 1980. Tilraun til slíkra fréttastofu var gerð á Íslandi 2005. Nú eru komnar fréttir á veraldarvefinn. Google er orðin fréttastofa margra. Flest heimsblöðin eru aðgengileg á vefnum.

Sjá nánar:
David Crowley & Paul Heyer, Communication in History, 2003
Mitchell Stephens, A History of News, 1988