0819 Tímarit og bækur 2000

0819

Fjölmiðlasaga
Tímarit og bækur 2000

Ekki er til það áhugamál, að ekki sé gefið út um það tímarit. Hér á landi hafa lengi verið gefin út tvö mánaðarrit um hesta. Á tímabili voru gefin út tvö tímarit hér á landi um skák. Gefið er út í Ameríku sérstakt tímarit um Oprah Winfrey.

Almennum tímaritum hefur hnignað og sérhæfð tímarit koma til skjalanna. Úr sögunni eru almenn blöð á borð við Saturday Evening Post, sem var gefið út í 3 milljónum eintaka. Einnig Fálkinn. Í staðinn koma sérhæfð blöð á borð við The New Yorker.

Nú á tímum eru tímarit yfirleitt sérhæfð, skrifuð fyrir markhópa með auglýsingum fyrir markhópa. Ódýr póstur var dreifingartækni tímarita frá upphafi, en eftir 1990 varð veraldarvefurinn að nýjum kosti í dreifingu tímarita.

Skrifborðsútgáfa tímarita hófst með hugbúnaði, sem gerði almenningi kleift að setja upp og brjóta um síður og arkir í tölvum. PageMaker og QuarkXpress komu til sögunnar, einnig leysiprentarar og myndskannar. Tímaritum fjölgaði gífurlega.

Bækur eru gefnar út og keyptar í meira mæli en nokkru sinni fyrr. Vinsældabækur sem almenn söluvara safnast fyrir í risastórum útgáfufyrirtækjum og stórmörkuðum, en smáútgefendur blómstra í fjölbreyttri útgáfu á þrengri markaði, núna mest á netinu.

Ýmsar nýjungar hafa eflt prentun. Rúlluprentvélar komu til sögunnar 1846 og gerðu kleif milljónaupplög á dagblöðum. Setningarvélar komu 1890. Litógrafía mynda kom 1860. Offsetprentun kom eftir seinna stríð. Tölvusetning kom eftir 1970.

Nú eru flest tímarit unnin í tölvum alla leið á prentplötu, sem síðan er fest í prentvél. Forvinnsla bóka og tímarita fyrir prentun er því orðin miklu ódýari en áður og á færi fleiri aðila. Sumar bækur eru hreinlega prentaðar eftir pöntun.

Hafin er skönnun gamalla bóka yfir í stafrænt form. Google hefur samið við heil bókasöfn um að verkin verði aðgengileg á veraldarvefnum. Gallinn er, að enn er ekki eins auðvelt að lesa af skjá og að lesa af síðu, en það mun skána á allra næstu árum.

Menn taka ekki tveggja kílóa fartölvu í rúmið eins og bók eða tímarit. Fáar bækur eru seldar í stafrænu formi. Enn hafa ekki komið til sögunnar vinsælar aðferðir aðrar en fartölvan til að lesa texta. Enn er ekkert eins notendavænt og pappírinn.

Ida Tarbell skrifaði frægan greinaflokk í McClure’s um starfshætti Standard Oil. Upton Sinclair skrifaði um sláturhúsin í Chicago. Samuel Adams skrifaði um lyfjaðiðnaðinn í Collier’s. Enn í dag eru til tímarit, sérhæfð í hneyksli.

Öll útgáfa National Geographic Magazine með frægum litmyndum er fáanleg á tölvudiskum fyrir 200 dollara, allt safnið frá 1888. New Yorker líka á diskum. Fréttablaðið er fáanlegt á vefnum á hverjum degi. Okkur vantar bara rétta tölvu til að skoða þetta allt.

Lestur tímarita er svipaður og bóka, en notendahópur tímarita er yngri en bókanna. Lestur hefur minnkað í heildina, fleiri eiga erfitt með að nota sér læsi. Notkun tímarita náði hámarki 1940-1960. Síðan hafa þau stóru dalað.

Að meðaltali kemur helmingur tekna tímarita frá auglýsingum, þriðjungur frá áskrifendum og einn sjötti frá lausakaupafólki. Sum tímarit eru eingöngu seld í áskrift, enda er oft þröng á þingi á lausasölustöðum, erfitt að komast þar að með vöru.

Prentfrelsi er sæmilega sett, en sumir hópar hafa lýst andstöðu við kynferðislegt innihald. Nýir miðlar hafa lent í því sama. Keðjuverslanir á borð við Wal-Mart og Nóatún hafa neitað að hafa í sölu blöð og tímarit, sem þær telja ekki henta sínu fólki.

Óraunverulegar bókabúðir á borð við Amazon, þar sem er engin steypa og enginn múr, hafa um 10% (50% núna ) af bóksölu í Bandaríkjunum. Amazon er líka milliliður, sem útvegar bækur frá fjölmörgum aðilum, er eiga birgðir af nýjum og gömlum bókum.

Tilkoma Amazon hefur leitt til meiri dreifingar á sérhæfðum bókum, sem áður fengu ekki pláss fyrir metsölubókum í venjulegum bókabúðum og alls ekki í stórmörkuðum. Þannig hefur stafrænn söluaðili leitt til mikillar dreifingar í bókaútgáfu.

Tímarit hafa náð í sérstöðu, sem felst í að birta hágæða glansmyndir, sem bera af myndum á skjá. Þetta skiptir miklu máli á sumum sviðum, svo sem í tískublöðum, bílablöðum, hönnunarblöðum. Slík tímarit eru ekki á undanhaldi fyrir internetinu.

Með stafrænni miðlun hefur aukist stuldur á vernduðu efni. Menn taka óhikað texta og myndir upp af veraldarvefnum og líma inn í eigin verk, ritgerðir, verkefni og greinar, án þess að geta rétthafa eða ræða við þá. Erfitt er að elta allt þetta.

((((Um aldamótin og upp úr þeim varð til hefðbundinn fréttastíll öfuga píramídans, þar sem það mikilvægasta var haft efst og svarað spurningunum öllum: “Hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo?”))))

Margir blaðamenn blogga í frístundum. Sumir hafa gagnrýnt sína eigin miðla og sætt brottrekstri fyrir vikið. Sumir segja, að bloggið sé framtíðin í fréttum, en ekki hefur enn fundist leið til að láta fréttir á netinu standa undir sér.

Í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2004 urðu sumir bloggarar landsfrægir. Umræða þeirra skipti máli í vali á frambjóðanda demókrata. Ana Marie Cox í wonkette.com fékk nærri milljón heimsóknir í september. Dan Rather féll á bloggi.

Deilt er um nám í blaðamennsku og gæði þess. Flest hinna stærri blaða í Ameríku taka alltaf einhverja nýliða úr blaðamennskunámi. Sumir stjórnendur á blöðum telja þó nám í blaðamennsku vera félagsfræði, sem komi blaðamennsku lítið við.

Sjá nánar:
Joseph Straubhaar & Robert LaRose,
Media Now
Understanding Media, Culture and Technology,
2006