0809 Fréttablöð

0809

Fjölmiðlasaga
Fréttablöð

Fréttirnar segja okkur, hvað var í huga fólks á þessum tíma. Þær segja okkur ekki, hvernig fólk lifði á þessum tíma. Mannleg áhugamál eru ekki sama og mannlegur og hversdagslegur veruleiki. Það eitt var fréttnæmt, sem var alveg einstakt í sinni röð.

Marshall McLuhan taldi, að lestur breyti hugsun, hafi framkallað leturmann, sem hugsi línulega, frá orsök til afleiðingar, það er vísindalega. Áður var lífið hringlaga eins og árið. Þjóðrækni fór vaxandi. En nú þarf fólk ekki að lesa.

((( Fréttirnar segja okkur, hvað var í huga fólks á þessum tíma. Þær segja okkur ekki, hvernig fólk lifði á þessum tíma. Mannleg áhugamál eru ekki sama og mannlegur og hversdagslegur veruleiki. Það eitt var fréttnæmt, sem var alveg einstakt í sinni röð. )))

Enskir notendur frétta höfðu mestan áhuga á morðum. Franskir notendur frétta höfðu mestan áhuga á handtöku saklauss fólks, sem ekki tókst að taka af lífi, af því að Guð tók í taumana. Báðar þjóðir höfðu áhuga á játningum á höggstokknum.

Fréttir reyna að komast undan taumhaldi. Hin villta hlið þeirra var svipuð í ballöðum sautjándu aldar og í sjónvarpi 21. aldar. Þar á milli var reynt að hemja þær á síðum dagblaða, en í raun er aldrei hægt að temja fréttir.

Fréttablöð eru sérstök tegund fréttabréfa, gefin út reglulega, að minnsta kosti einu sinni í viku; með svo mörgum síðum, að hafa þarf margar fréttir í hverju blaði; og með föstum og auðkennanlegum blaðhaus. Þau hafa verið til síðan 1609.

Þegar komið var fram um aldamótin 1700 var farið að tala um tíma fréttablaðanna. En það hefði eins verið hægt að tala um tíma kaffihúsanna, fréttalesaranna, því að eldri tegundir fréttamennsku héldu áfram að blómstra fram eftir 18. öld.

Þegar borgarastríðið hófst á Englandi, losnaði um bönd á fréttablöðum. 1641 var sagt frá því, að Karl I hafi verið hálshöggvinn. Þá hafði tiltölulega mikið prentfrelsi ríkt í Amsterdam í heilan áratug, en þar voru fréttir þó virðulegar.

Í nýja frelsinu í Bretlandi voru fréttablöð seld á götum úti í fyrsta skipti í heiminum. Þau komu eins og áður út vikulega og fluttu snaggaralegar fréttir af því, sem fréttnæmast þótti. Þetta stóð í blaðinu A Perfect Diurnal:

“Þá sagði kóngurinn við böðulinn: Ég fer með stutta bæn og teygi svo út hendur. Síðan sagði hann: Er hárið á mér í lagi. Þá fór kóngurinn úr skikkjunni, horfði á höggstokkinn og sagði við böðulinn. Þú verður að festa hann. Hann er fastur …

… herra minn, sagði böðullinn. Hann gæti verið hærri, sagði kóngurinn. Hærra kemst hann ekki herra minn, sagði böðullinn. Kóngurinn lagði hálsinn á stokkinn og teygði út hendur. Böðulinn hjó hausinn af í einu höggi, lyfti því upp og sýndi áhorfendum.”

Áfram fjölluðu fréttablöðin einkum um það óvenjulega, en nú voru margar fréttir í hverju tölublaði. Fleiri glæpir komust að en morðin eingöngu. Og nú var ekki lengur sagt frá bardaga við eldspúandi dreka.

Prentfrelsið á Englandi var ekki meðvitað eða skipulagt. Það kom bara fyrir sögulega tilviljun, tímabundið valdaleysi konungsins. Á þessum viðsjárverðu tímum má segja, að fréttablöðin hafi verið furðanlega tempruð og virðuleg.

(Þegar þingið hafði betur 1949, var aftur farið að þrengja að prentfrelsi. Aftur var komið á fót skráningu blaðanna og setja ritstjóra í fangelsi. Árið 1955 eru ekki eftir nema tvö fréttablöð, báðum stýrt af sama manni, Marchamont Nedham.
)

Á þessum tíma fóru að koma út tímarit um vísindi. Helstu fræðimenn samtímans voru ekki lengur einangraðir, heldur fengu greinar sínar birtar í tímaritum, sem fóru um alla Evrópu til kollega þeirra. Philosophical Tansactions kom út árið 1665.

Tímabilið 1665-1730 komu út þrjátíu mismunandi vísindarit um náttúrufræðileg efni. Einnig komu út sérhæfð fréttablöð fyrir kaupsýslumenn með alls konar listum og töflum um skipakomur og markaðsverð. Í þeim fóru líka að birtast auglýsingar.

Elsta prentaða dagblaðið var Einkommende Zeitung í Leipzig, sem kom út 1650. Eftir að skráningarskylda var aftur afnumin á Englandi fóru þar að koma út fréttablöð annan hvern dag. Fyrsta dagblað í London, Daily Courant, kom út 1702.

Fyrsta nútímablaðið var Daily Advertiser 1730, sem snerist mest um auglýsingar, einnig um skráningar í kauphöll, verðbréfamarkaðinn, nöfn gjaldþrota fólks og lýsingar á því, svo og um vörutegundir og vörumagn, sem kom til hafnar í London.

Fyrsta fréttablaðið í Bandaríkjunum kom út árið 1690, bara í einn dag, því að landstjórinn í Boston lokaði því snarlega. Boston News-Letter kom svo út 1704 og lifði í 72 ár. Bandaríska byltingin kallaði svo á blaðaútgáfu næstu árin.

Í Bandaríkjunum voru gefin út fréttablöð og skoðanablöð, svipað og gerðist á Íslandi síðar í sjálfstæðisbaráttunni. Blöð urðu málgögn sjónarmiða og héldu áfram að rífast innbyrðis, þegar Bretinn var farinn. Svo var einnig á Íslandi.

Stimplunargjald var sett á ensk og amerísk dagblöð 1765. Mikil andstaða í Bandaríkjunum gerði gjaldtökuna óframkvæmanlega. Hún var fyrst lækkuð og síðan afnumin 1766. 1773 varð svo formlegt stríð milli Englands og Bandaríkjanna.

Bandarísk dagblöð söfnuðu fólki saman um málstað sjálfstæðisbaráttunnar gegn enska kónginum. Í þeim birtu menn lagaútskýringar á málstað þjóðarinnar, rétt eins og Jón Sigurðsson og íslenskir lögmenn gerðu síðar í íslenskum blöðum.

Sjá nánar:
David Crowley & Paul Heyer, Communication in History, 2003
Mitchell Stephens, A History of News, 1988