0806 Ritaðar fréttir

0806

Fjölmiðlasaga
Ritaðar fréttir

Acta Diurna voru daglegar fréttir hins opinbera, krítaðar eða hengdar upp á Forum. Fyrir framan þær stóðu atvinnuskrifarar og skrifuðu upp úr þeim kafla í sendibréf. Sumir skrifuðu fyrst og lásu síðan afritið upp fyrir marga skrifara.

Við vitum, að Acta var enn til árið 222 og hafði þá verið útgefið í að minnsta kosti 280 ár. Stöðug dreifing frétta úr blaðinu var einn af lyklum langlífis rómverska keisaradæmisins. Í öllum kimum þess höfðu menn sameiginlegar fréttir.

Á 15. öld fóru handskrifuð fréttabréf að berast um Evrópu, til dæmis frá Feneyjum. Þau voru ein mynd þess, að endurreisnartímabilið var í aðsigi. Póstsamgöngur fóru batnandi og viðskiptalíf efldist. Hvort tveggja stuðlaði að meiri fréttum.

Feneyjar voru fréttamiðstöð. Þaðan bárust handskrifaðar fréttir, sem hafa fundist víða um Evrópu í nokkrum eintökum. Einkum voru það kaupsýslumenn, sem þurftu fréttir, einkum fréttir af uppskeru og vörulagerum, til dæmis Fugger-fyrirtækið.

Á 16. öld voru gefin út handskrifuð fréttablöð í nokkrum borgum Þýzkalands, fyrst hjá Christoph Scheurl í Mainz árið 1536, síðan hjá Jeremias Crasser og Jeremias Schiffle í Augsburg. Þetta voru fyrstu nafngreindu blaðamenn heimsins.

Fréttir í Feneyjablöðunum og fréttablöðunum, sem komu út í kaupsýsluborgunum, voru yfirleitt alvarlegar, fjölluðu um hernað og stjórnmál, skipaferðir og uppskeru. Þær voru ætlaðar þeim, sem lifðu á kaupsýslu og siglingum.

Þessi fréttaflutningur á endurreisnartímanum var ætlaður sameiginlegu þjóðfélagi kaupsýslumanna um alla Evrópu. Það voru menn, sem voru háðir viðskiptum við fjarlæg lönd og þurftu að frétta sem fyrst af ástandi mála á fjarlægum stöðum.

Saman þurftu að tala hveitisalar í Feneyjum, silfursalar í Antwerpen, kaupmenn í Nürnberg, bankamenn í Augsburg, umboðsmenn þeirra um allar trissur. Saman mynduðu þessir menn þjóðfélag, sem var haldið saman af handskrifuðum fréttum.

Þessir aðilar þurftu að vita, hvað varð um skipið, sem fór til Indlands frá Lissabon, kom það aftur eða er það týnt. Þeir þurftu að vita um stríðshorfur á Kýpur til að meta verð á hveiti í Feneyjum. Þeir lifðu á að frétta allt strax.

Handskrifuðu fréttablöðin voru miklu dýrari en þau, sem síðar voru prentuð. Handskrifuðu blöðin voru fyrst og fremst ætluð viðskiptafólki. Þegar prentuð fréttablöð komu til sögunnar, voru þau líka ætluð almenningi og voru því oft full af tröllasögum.

Handskrifuðu blöðin frá Feneyjum og þýskum borgum voru undanfari kaupspýslublaða nútímans, Financial Times, Wall Street Journal, Börsen, Norsk Handels- og Sjöfartstidende. Þetta voru blöð heimsveldis kaupsýslunnar á endurreisnartíma.

Íslenskir annálar voru ein tegund af handskrifuðu fréttabréfi, sem venjulega var gefið út einu sinni á ári. Þeir voru, eins og fréttir í Evrópu þess tíma, blanda af staðreyndum og tröllasögum.

Vínland sást 986. Rúmlega 80 árum síðar, 1070, fékk Adam frá Brimum að heyra um það hjá danska kónginum. Lengra komst fréttin ekki og fjaraði út. Þegar Kólumbus fór til Ameríku var lítið eða ekkert vitað á meginlandi Evrópu um Vínlandsferðir.

Kólumbus prentaði fréttabréf um ferð sína til Ameríku. Það barst víðs vegar um Evrópu á örfáum mánuðum eftir heimkomuna. Fyrst voru einkum prentaðar biblíur, latnesk málfræði og dagatöl, en síðan komu prentaðar fréttir, sennilega um 1470.

Með þreföldum kostnaði ritaðs máls var hægt að búa til og senda prentað mál í þúsund eintökum í stað eins. Öll þessi þúsund eintök voru nákvæmlega eins, engin ný villa var búin til óvart eða af ásettu ráði eftir að frumritið varð til.

Prentun leiddi til þess, að stjórnvöld höfðu vaxandi áhyggjur af, að fréttir mundu hafa áhrif á fólk. Það mundi vanmeta vísdóm, réttsýni og nauðsyn stjórnvalda og hrapa niður í fen af hræðilegum sögum og tilbúningi.

Stjórnvöld í Evrópu lögðu hald á prentunina. Þau eignuðust prentvélar og komu í veg fyrir, að aðrir eignuðust slíkar. Þau veittu rétt til að nota prentvélar og skráðu þau réttindi. Brot á reglum um prentvélar vörðuðu hörðum refsingum.

Jakob I. Englandskonungur kvartaði um að þurfa að prenta þá ákvörðun sína að leysa upp enska þingið. Með því væri hann að stíga margar gráður niður úr virðingu sinni. Hann neyddist að vísu til að gera slíkt aftur og aftur í pólitíkinni.

Flestar fréttabækur þessa tíma röktu gerðir og skoðanir stjórnvalda. Á Spáni þurfti að skrá allt prentverk hjá stjórnvöldum og kirkjulegum yfirvöldum. Á Englandi hófst skráning prentverks 1538, í Frakklandi árið 1561.

Tímabilið 1600-1756 var átta hundruð höfundum, prenturum og bóksölum stungið í Bastilluna í París fyrir að valda stjórnvöldum óþægindum. Á þessum tíma dró úr ritskoðun í Englandi, einkum vegna óvissu um landstjórnina á tíma borgarastríðs.

Prentaðar fréttir, sem voru ódýrar, gefnar út í stóru upplagi, voru forsenda pólitískrar meðvitundar almennings. Þær leiddu til efasemda um stjórnvöld, til byltinga austan og vestan hafs. Þau voru forsenda lýðræðis eins og við þekkjum það nú á tímum.

Mikið af fréttum þessa tíma snerist um gengi okkar manna í stríðum við hina. Það var partur af samstöðu þjóðar um stríð ríkis, að fyrstu fjölmiðlarnir fylgdu landsdrottni sínum í hvívetna. Svo varð áfram fram eftir allri 20. öld og inn á þá 21.

Sjá nánar:
David Crowley & Paul Heyer, Communication in History, 2003
Mitchell Stephens, A History of News, 1988