0822 Kvikmyndir 2000

0822

Fjölmiðlasaga
Kvikmyndir 2000

Kvikmyndir voru fundnar upp 1888, en fyrstu kvikmyndasýningarnar voru 1896 á vegum Thomas A. Edison annars vegar og Lumière-bræðra í Frakklandi hins vegar. Griffith kom með stóra tjaldið, sem sló í gegn árið 1915.

Tal hófst í myndum 1927. Leikur varð minna ýktur og minna klisjukenndur. Rödd leikara, undirspil og hljóð skiptu nú máli. Til sögunnar komu nýir listamenn, til dæmis frá leikhúsunum á Broadway. 1933 voru allar kvikmyndir með tali.

Kvikmyndastjörnur komu fljótt til sögunnar, Rudolph Valentino, Lillian Gish og Charlie Chaplin. Nöfn þeirra voru birt ofan við nafn kvikmyndarinnar. Verin risu á grundvelli stjarna og notuðu vinsældir þeirra til að selja kvikmyndirnar.

Með hljóðinu komu músíköl með dansi og söng. Aðrir stórir flokkar fyrir seinna stríð voru gamanleikir, glæpasögur, spennusögur, ráðgátur, söguverk, svartmyndir og leynilögreglusögur. Kvikmyndir tóku fólk með trompi, tómstundir fóru í bíó.

Helstu kvikmyndaverin í Hollywood voru United Artists, Paramount, Metro Goldwin Mayer, Fox, Warner Brothers, Universal, Columbia og RKO. Þöglu myndirnar voru vestrar, stríðsmyndir, vísindaskáldsögur, sögulegar skáldsögur og gamanleikir.

Kvikmyndaver voru framleiðslufyrirtæki, sem höfðu allan pakka starfsfólks og tæknibúnaðar til að búa til kvikmyndir og dreifa þeim. Þau höfðu leikara, höfunda og leikstjóra í fastri vinnu um árabil. Sjálfsritskoðun hófst upp úr 1920.

Kvikmyndir eru opinberlega flokkaðar eftir innihaldi til að auðvelda fólki að átta sig á eðli þeirra. Takmarkanir eru oft ekki virtar, af því að hliðverðir í bíóhúsum vita ekki um aldur gesta. Hliðstæð flokkun er í gildi á Íslandi.

Bíóferðir minnkuðu í Bandaríkjunum eftir 1946, þegar sjónvarp var komið til skjalanna. Kvikmyndaverin áttu bíókeðjur og höfðu skaða af sjónvarpi. Þegar verin áttuðu sig á, að sjónvarp var komið til að vera, beindu þau kröftum að sjónvarpi.

Kvikmyndaver glötuðu áhrifum á 7. áratugnum, þegar óháðir aðilar sóttu fram. Verin einbeittu sér að framleiðslu framhaldsþátta fyrir sjónvarp. Fljótt fór kapalsjónvarp einnig að skipta máli. Allt var komið í lit upp úr 1960.

Nú eru heimasýningar á myndböndum og CD-diskum helsta tekjulind kvikmynda, gefa tvöfalt meira af sér en bíó. Sumar kvikmyndir fara beint á myndbönd og diska, af því að ekki tekur að auglýsa þær fyrir bíóhús. Óháðir aðilar eru með helming mynda.

Filmur hafa batnað með fjölgun á römmum eða myndum á sekúndu. Myndin er orðin breiðari en áður og felur í sér liti. Tækni og brellur hafa aukist, einkum við notkun á tölvum. Sumar kvikmyndir byggjast hreinlega á tölvuteikningu.

CinemaScope fyrst og síðan Panavision og Technicolor bæta litinn. Forgrunnar og bakgrunnar eru oft aðrir en leikni hlutinn. Ritstjórn mynda er orðin auðveld, þegar allt er gert stafrænt í tölvum. Farið er að dreifa bíómyndum á internetinu.

Helstu framleiðendur nú eru Columbia, Fox, Metro Goldwin Mayer, Paramount, Universal, Warner Brothers, Buena Vista, Miramax og TriStar. Hver þeirra gerir 15-25 kvikmyndir á ári. Óháðir framleiðendur gera færri myndir fyrir minna fé.

Helstu dreifingarleiðir kvikmynda: Kvikmyndahús, erlend kvikmyndahús, kvikmyndir á netinu gegn greiðslu (pay-per-view), lokað kapalsjónvarp, myndbönd og CD-diskar, netsýningar, opið kapalsjónvarp og loks umboðsmennska.

Rétthafar kvikmynda leggja mikla áherslu á að hindra hugverkaþjófnað. Ný tækni á borð við DVD-diska og skráadreifing á netinu er talin geta leitt til minnkandi tekna rétthafa. Stafrænar kvikmyndir gera þjófnað auðveldari en áður.

Hágæðasjónvarp með flatskjám, sem eru að lögun eins og breiðtjald, hafa lagt grundvöll að flutningi áhorfs úr bíóhúsum yfir í heimahús. Breiðu skjáirnir voru mjög dýrir fyrst, en eru farnir að lækka í verði með stækkandi markaði.

Frétta- og skoðanamyndir hafa náð mikilli útbreiðslu. Mynd Michael Moore um hagsmunaaðila í byssum árið 2002 halaði inn 22 milljónir dollara og mynd hans um árásina á tvíburaturnana 11. september náði 119 milljónum árið 2004.

Disney neitaði að dreifa þessari síðari mynd Moore og Warner Brothers neitaði að dreifa mynd um Íraksstríðið. Hvort tveggja vakti mikið umtal. Í báðum tilvikum tóku önnur bíóhús myndirnar og fengu mikla aðsókn.

Margir komu að uppfinningu sjónvarps. Tilraunir með sjónvarpssendingar hófust í Bretlandi og Bandaríkjunum 1925. Dagskrá var hafin í Bretlandi 1936 hjá BBC og í Bandaríkjunum 1936. Frekari útþensla sjónvarps stöðvaðist síðan fram yfir stríð.

Stóru útvarpskeðjurnar í Bandaríkjunum, CBS, NBC og ABC, fluttu fólk sitt og stjörnur, viðskiptavini og auglýsendur yfir í VHF-sjónvarp. UHF-stöðvar voru of fáar og veikar til að mynda keðju. Aðeins tólf rásir voru í VHF-kerfinu.

Litasjónvarp kom 1953 og myndband 1956. Þessi ár voru frægðartími sjónvarps, þegar Edward Murrow, fréttamaður hjá CBS kom upp um McCarthy með því að beita hans eigin orðum gegn honum. Síðan hafa skúbb verið sjaldgæf í sjónvarpi.

Frá 1950 hafa Nielsen-tölur verið notaðar til að meta áhorf. Þær byggjast á úrtaki áhorfenda, sem meta áhorf sitt. Úr því kemur CPM, sem þýðir auglýsingakostnaður á hverja þúsund áhorfendur. Mælt er í nóvember, febrúar, maí og júlí.

Sjá nánar:
Joseph Straubhaar & Robert LaRose,
Media Now
Understanding Media, Culture and Technology,
2006