0808 Upphaf fréttablaða

0808

Fjölmiðlasaga
Upphaf fréttablaða

Árið 1607 var prentað vikublað komið í Amsterdam. 1609 voru vikuleg fréttablöð komin til sögunnar í nokkrum bæjum í Þýskalandi. Fyrstu blöð á ensku voru gefin út í Amsterdam árið 1620 og ári síðar hófst prentun dagblaða á Englandi.

1610 var prentað fréttablað í Basel, 1615 í Frankfurt og Vínarborg, 1616 í Hamborg, 1617 í Berlín, 1618 í Amsterdam og 1620 í Antwerpen, 1621 í London, 1631 í París, 1639 á Ítalíu og 1641 á Spáni.

Áður höfðu verið gefin út í Feneyjum handskrifuð fréttablöð, “gazette” í nokkru upplagi, að minnsta kosti frá 1550. Þá voru Feneyjar eitt mesta siglingaveldi heims og eitt öflugasta ríki Evrópu. Prentuðu blöðin líktu eftir Feneyjablöðunum.

Fréttir í Feneyjablöðunum og fréttablöðunum, sem komu út í kaupsýsluborgunum, voru yfirleitt alvarlegar, fjölluðu um hernað og stjórnmál, skipaferðir og uppskeru. Þær voru ætlaðar þeim, sem lifðu á kaupsýslu og siglingum.

Í blöðunum voru fréttir flokkaðar á feneyskan hátt eftir borgum, sem þær fjölluðu um. Fréttir frá Róm voru á einum stað undir einni fyrirsögn, o.s.frv. Sum blöðin höfðu sérstaka forsíðu, en önnur byrjuðu fréttirnar strax á fremstu síðu.

Amsterdam varð stærsta miðstöð kaupsýslu á þessum tíma. Árið 1645 voru átta fréttablöð til sölu þar í borg. Þau komu flest út vikulega, sum aðra hverja viku. Í Amsterdam voru líka prentuð blöð á ensku, sem voru flutt til London.

Þessi blöð voru alveg laus við persónulegan þátt. Þau voru stuttaraleg: “Franski sendiherrann hefur látið grafa jarlinn af Dampier í Presburg. Behlem Gabor prins hefur kallað ungversku ríkin saman í Presburg til að ræða um krýninguna.”

Það voru fyrst og fremst ensku blöðin, sem létu gamminn geisa með mannlegum fréttum af morðum og öðru óvenjulegu. Fyrsti nafngreindi ritstjórinn í London var Thomas Gainsford, víðförull maður, sem stjórnaði nokkrum blöðum í borginni.

Prentun hafði áhrif á stjórnmál með því að breiða út fréttir. Hún hafði áhrif á efnahag með því að auka þekkingu og hæfni fólks. Bókasöfn urðu til, árið 1602 í Oxford. Tvær milljónir titla komu út á 18. öld. Sum upplög skiptu tugþúsundum.

Árið 1750 voru fimm rótgróin dagblöð í London, seld af götusölum og sjoppum. Útgáfan var heft af stimpilgjaldi frá 1712 til 1860. Í Hollandi voru blöð nokkuð frjáls á þessum tíma, en í Frakklandi urðu þau ekki frjáls fyrr en í byltingunni.

Smám saman urðu prentaðar fréttir að fréttaritum. Mikið var um æsifréttir, af því að þær kölluðu síður á eftirlit ríkisvaldsins en fréttir af stórmálum í pólitík, hernaði og trúmálum, sem voru mesta áhyggjuefni stjórnvalda.

Samband Kleópötru við Antóníus var fréttaefni fyrir rúmum 20 öldum. Persónulegt líf fyrirmenna varð ekki síður fréttaefni, þegar prentuð blöð komu til sögunnar. Enda hefði líf fólks orðið fábrotnara við að vita ekki um Kleópötrur hvers tíma.

Fréttir af glæpum voru fyrirferðarmiklar. Fyrsta morðfréttin birtist 1557. Eftir 1575 fóru engin morð framhjá fréttamiðlum. Fyrirsagnir voru eins og þessi: “Grátandi móðir. Frétt um grimmilegt og hræðilegt morð á herra Trat.”

Má ekki segja æsifrétt af slíkum atburði? Er það fréttaefnið, sem er óviðeigandi? Er óviðeigandi, að blaðamenn sinni öðru en þingfundum? Er það meðferð málsins, sem er óviðeigandi? Er ekki viðeigandi að upplýsa, að herra Trat var skorinn í parta?

Vinsældir frétta af ofbeldi og kynlífi stafa af krafti þeirra, tengslum þeirra við líf og dauða, við frumþarfir fólks. Er hægt að skamma blaðamenn fyrir að flytja fólki fréttir, sem falla að dýpstu hvötum þess og hugðarefnum?

Gagnrýnendur æsifrétta hafna oft myndrænum lýsingum á hræðilegum atburðum. Slíkar fréttir urðu algengari eftir því sem á leið sextándu og sautjándu aldirnar. Enda kom í ljós, að þörf fólks fyrir æsifréttir var mikil og raunar náttúruleg.

Þótt prentuðum fréttum hafi fylgt meira traust en á munnlegum fréttum, áttu blaðamenn þessa tíma við skort á trúverðugleika að glíma. Það er ekki óvenjulegt, fréttir hafa alltaf átt í flókinni sambúð við sannleikann.

Sem dæmi um það má nefna New York Times, sem fyrstu árin eftir byltingu kommúnista í Rússlandi, birti hvað eftir annað fréttir um mikla ósigra þeirra í borgarastríðinu, en varð svo að lokum að segja frá sigri þeirra.

Ef lítið var um hræðilega atburði í fréttum, var dagsetningum eldri frétta breytt. Frétt um líflát stúlkunnar Riviere var fyrst birt árið 1596, síðan 1607, 1616 og loks 1623. Þá var búið að lífláta stúlkuna fjórum sinnum.

Oft voru sjónarvottar að skelfilegum atburðum. Fréttirnar vitnuðu í þessa heimildamenn, ef frásagnir þeirra virtust trúverðugar. Enn í dag er vitnað í heimildamenn, jafnvel nafnlausa, sem við getum ekki vitað, hvort fari með rétt mál eða skakkt.

Fátækt lágstéttarfólk á minni hlut í þjóðfélaginu en miðstéttir og yfirstéttin. Fátæklingar hafa minni áhuga á fréttum af pólitík og meiri áhuga á skemmtilegum fréttum, sem nú eru birtar á aðgengilegan hátt í National Enquirer og Sun.

Tilraunir til að búa til skilrúm milli vinsælla og alvarlegra frétta taka ekki tillit til eðlis frétta. Glæpir, undarlegheit og furðuverk eru hluti af lífinu eins og umræður á þingi. Mildaðar fréttir fyrir stássstofur eru slappar.

Frá árinu 1616, þegar Shakespeare dó, eru 25 ensk fréttabréf. Sjö þeirra fjalla um morð, þrjú um sinnaskipti í trúmálum, sjö um persónur. Ekki er hægt að sjá, að neitt þeirra fjalli um hversdagslegt líf og amstur fólks.