0804 Fréttir

0804

Fjölmiðlasaga
Fréttir

Demosþenes sagði, að Aþeningar væru uppteknir af fréttum. Í samfélögum án ritunar hafa fréttir mikilvægt hlutverk. Alls staðar, þar sem mannfræðingar hafa komið, berast munnlegar fréttir milli manna, milli þorpa, oft með ótrúlega miklum hraða.

Í stríðum hvítra og svartra manna í Suður-Afríku kom það hvítum mönnum á óvart, að Zulu-menn vissu meira um atburði. Þeir höfðu hlaupara, sem fóru langan veg til að segja fréttir og koma á framfæri skilaboðum frá Shaka, konungi Zulu-manna.

Margt af siðum og venjum ólæsra þjóðfélaga snýst um fréttir. Markaðstorgið er öðrum þræði fréttatorg. Dreifing á vörum og dreifing á fréttum fylgjast að. En fyrst vilja menn heyra fréttirnar, síðan skoða menn vörurnar.

Förukonur hafa ferðast um alls staðar á öllum tímum, hér á landi strax frá landnámi. Þær fluttu fréttir og slúður milli bæja. Njálssaga snýst um atburði, sem urðu í kjölfar rangra frásagna förukvenna í Rangárvallasýslu.

Förumenn og förukonur sögðu fréttir. Sendiboðar og hlauparar sögðu fréttir. Kallarar sögðu fréttir. Ljóðalesarar og söngvarar sögðu fréttir. Frá upphafi hafa valdhafar reynt að virkja þetta ferli og gera það undirgefið valdi sínu.

Eðli mannsins hefur alltaf verið þannig, að sóst er eftir æsingi, ágreiningi, spennu, nýstárleika, óvæntu, afþreyingu, hliðarsporum. Alltaf hafa menn viljað fá fréttir af einhverju öðru en fábreytilegum og óbærilegum hversdagsleika tilverunnar.

Blanda fréttanna hefur verið óbreytt um aldir, hver sem fréttamiðillinn er og hver sem menningarheimurinn er. Rannsóknir þjóðfræðinga og sagnfræðinga sýna, að því meira sem heimurinn breytist, þeim mun meira er hann eins í fréttaflutningi.

Munnlegar fréttir eru meira en aðrar fréttir háðar tilhneigingu sölumanna til að ýkja. Munnlegar fréttir henta fámennum samfélögum, ekki stórum þjóðfélögum og allra síst heimsveldum. Munnlegar fréttir dreifast ekki nógu vel í fjölmenni.

Frásögn af mannlegum harmleik er ein elsta tegund blaðamennsku, frá 17.öld. Fyrstu vísar að fréttablöðum í Evrópu voru fullir af sögum um vanskapninga og skrímsli. Fyrir tæpum 20 öldum voru morð og skilnaðir í daglega veggblaðinu í Róm.

Æsifréttir eru hluti af eðli frétta. Í eðli sínu er markmið frétta að æsa eða erta, fá fólk til að staldra við og hlusta á sögumann, lesa eða horfa. Gula pressan er ekki nýjung í blaðamennsku, heldur snar þáttur í sögu hennar frá upphafi. Frétt er “story” á ensku.

Stjórnarandstaða er hins vegar ekki einkenni blaðamennsku. Um aldirnar hefur fjölmiðlun fremur einkennst af stuðningi við stjórnvöld. Þau hafa löngum viljað koma ákvörðunum sínum og skoðunum á framfæri og reynt að einoka þá stöðu.

Þjóðfélög hafa lengi nærst á fréttum. Þær eru gluggi okkar að umheiminum, veita okkur sýn eða loka okkur sýn eftir atvikum. Fréttir hafa borist á ýmsan hátt, með köllurum, á kaffihúsum, í rímuðum ballöðum, í dagblöðum, í útvarpi og sjónvarpi.

Fólk notar fréttir sér til gagns; sér til afþreyingar og dægrastyttingar; til að fylgjast með fólki, sem það veit um; til að geta tekið þátt í samræðum. Fólk vill ekki bara upplýsingar, heldur líka aukaatriði, drama, tilfinningar.

Í blaðaverkfallinu í New York 1945: “Ég er eins og fiskur á þurru landi.” “Það er eins og ég sé í fangelsi.” “Ég er að fara á taugum.” “Ég þjáist, ég get ekki sofið.” “Eg er yfirgefinn, ég vil vera í sambandi við umheiminn.”

Fréttir eru meira en tegund af upplýsingum og tegund af skemmtun. Fréttir eru meðvitund, veita okkur öryggi í ótryggum heimi. Án frétta verðum við minni. Okkur hungrar í meðvitund. Það er orsök þess, að við erum fréttafíklar.

Vestræn menning tengdist fréttum frá upphafi. Í agórunni í Aþenu fengu menn munnlegar fréttir. Fyrsta maraþonhlaupið var hlaup sendiboða með frétt af sigri aþenska flotans á Persum við Maraþon. Í Róm fengu menn fréttir á torginu Forum.

Smám saman varð fréttaflutningur fjölbreyttari. Kaffihús komu til sögunnar og urðu miðstöðvar fréttaflutnings. Árið 1661 var kvartað í Oxford um, að námsmenn sinntu ekki náminu, heldur slæptust á kaffihúsum við að ræða fréttir.

Í London varð fréttaflutningur sérhæfður eftir kaffihúsum. Menn fóru á Lloyd’s til að fá fréttir af skipakomum, á Will’s til að hlusta á hæðnispúka, á Mile’s til að heyra pólitískar fréttir. Jonathan´s varð að kauphöllinni í London.

Í París voru sérhæfðir fréttamenn á kaffihúsum. Þeir höfðu fasta vinnuaðstöðu og nýttu sér fréttalindir í sendiráðum, ráðuneytum, eldhúsum aðalsmanna. Einn af þessum munnlegu blaðamönnum vissi svo mikið, að Lúðvík 15. forvitnaðist um hann.

Þegar prentuð dagblöð komu til sögunnar, héldu kaffihúsin áfram að vera miðstöðvar frétta. Þar lágu blöðin frammi og þar sátu skrifarar, sem skrifuðu fréttir upp úr blöðunum til að senda gegn gjaldi upp í kaffihúsalausar sveitir.

Árið 1607 var prentað vikublað komið í Amsterdam. 1609 voru vikuleg fréttablöð komin til sögunnar í nokkrum bæjum í Þýskalandi. Fyrstu blöð á ensku voru gefin út í Amsterdam árið 1620 og ári síðar hófst prentun dagblaða á Englandi.

Munnlegar fréttir eru enn mikilvægar á afskekktum stöðum og verða alltaf mikilvægar, hvar sem stjórnvöld reyna að setja hömlur á aðrar fréttir. Þegar aðrir miðlar ná ekki yfir svæðisfréttir, koma munnlegir miðlar þar til skjalanna.

Fréttir
Alltaf hafa menn viljað fá fréttir af einhverju öðru en fábreytilegum og óbærilegum hversdagsleika tilverunnar.