0820 Dagblöð 2000

0820

Fjölmiðlasaga
Dagblöð 2000

Veldi dagblaða náði hámarki 1890-1920, áður en kvikmyndir og útvarp komu til sögunnar. Á síðari árum hefur samanlagt upplag staðið í stað og stundum minnkað. Sumir kaupa ekki lengur dagblöð, heldur lesa úr efni þeirra á veraldarvefnum.

Heilu dagblöðin eru fáanleg ókeypis á veraldarvefnum, sum í sama formi og þau fást prentuð, önnur í textaformi. Sumar heimasíður dagblaða eru feiknarmikið notaðar, til dæmis hjá New York Times í Bandaríkjunum og Guardian á Englandi.

Þótt mikið hafi verið um blaðadauða, hafa stærstu og útbreiddustu blöðin haldið velli. Wall Street Journal, New York Times, Washington Post og US Today eru í vaxandi upplagi, sömuleiðis flest hliðstæð blöð í Evrópu, líka sum æsifréttablöð.

Mikill meirihluti fólks notar enn dagblöð, en heldur hefur dregið úr lestri yngri kynslóða. Eignarhald á blöðum hefur safnast á fárra hendur. Víða er aðeins eitt dagblað á borgarmarkaði. Eign á blöðum fer oft saman við eign annarra fjölmiðla.

Dagblöð sanda enn föstum fótum, þótt nýir fjölmiðlar hafi komið til sögunnar. Enn taka dagblöð til sín stærstan hluta auglýsingatekna í Bandaríkjunum, ef frá eru skildar auglýsingar í pósti. Frá Watergate hafa blaðaauglýsingar fimmfaldast.

Rannsóknablaðamennska hefur alltaf verið hluti blaðamennsku. Hún náði hámarki frægðar, þegar New York Times birti Pentagon-skjölin og Washington Post kom upp um Watergate-hneykslið. Blaðamennirnir Bernstein og Woodward urðu heimsfrægir.

Almenningur reyndist hins vegar hafa efasemdir um vinnubrögð í rannsóknum, einkum um notkun á nafnlausum heimildum og um blaðamennsku í dulargerfi. Þótt hvort tveggja hafi leitt til frægra uppljóstrana, er margt fólk ekki fyllilega sátt við það.

Í kjölfar þess hefur um fjórðungur bandarískra dagblaða tekið upp borgaralega blaðamennsku, sem felst í stuðningi við stjórnsýslu og samtök almennings á markaðssvæðum þeirra, fundum með fólki, herferðir og fræðslu til að afla sér jákvæðari ímyndar.

Almenningur notar meira fréttir í sjónvarpi, en hinir betur stæðu og menntuðu reiða sig meira á dagblöð. Notkun frétta í hefðbundnu sjónvarpi og dagblöðum hefur heldur minnkað udanfarinn áratug, en aukist hefur sérhæfð fréttaútgáfa.

Blaðamenn fara minna út á galeiðuna en áður. Þeir sitja meira við tölvuna og fletta upplýsingum í gagnabönkum og stilla saman upplýsingum úr mörgum bönkum. CAR eða Computer-assisted-reporting er orðið að mikilvægri sérgrein blaðamanna.

Reynt hefur verið að samnýta blaðamennsku. Sami maður aflar fréttar, myndar hana, skrifar um hana í blað, talar inn frétt í útvarp og kemur fram í sjónvarpi. Þetta hefur víða reynst erfitt í framkvæmd, enda eru vinnubrögð fjölmiðla misjöfn.

Ef menn geta verið blaðamenn með kassettutæki og videotökuvél og hljóðnema og kunna grafagerð geta þeir fræðilega séð sett saman ýmsar útgáfur af fréttinni fyrir ýmsar tegundir miðla og þannig tekið frumkvæði í fréttum af ritstjórum.

Blaðamennska getur verið hættuleg. Alls hafa 389 blaðamenn verið drepnir í starfi á síðustu tíu árum. Víða eru valdhafar og valdahópar og forstjórar andvígir upplýsingum, sem birtast í fjölmiðlum og reyna að koma í veg fyrir þær.

1721 var kveðinn upp mikilvægur dómur í Bandaríkjunum, þar sem fram kom, að þeir, sem höfða meiðyrðamál, verða að sýna fram á, að farið hafi verið með rangt mál. Þessi dómur hefur síðan haldið meiðyrðamálum í skefjum á Vesturlöndum. Nema á Íslandi.

Löngu síðar kom fram það sjónarmið, að dagblöð ættu ekki endilega að segja allan sannleikann, heldur taka tillit til málsaðila, til dæmis með því að sleppa eða að fresta því að svara spurningunni: Hver? Þetta er til dæmis algengt deilumál á Íslandi.

Siðferðisvandamál dagblaða felast einkum í umræðu um hvernig skrifa skuli um fólk og hvernig skuli nota heimildir. Nokkuð er fjallað um friðhelgi einstaklingsins, en nákvæmni og heiðarleiki eru þó veigameiri áhersluefni í fjölmiðlaumræðunni.

Hér á landi snýst umræðan einkum um birtingu nafna og mynda af fólki í fréttum, til dæmis í lögreglu- og dómsmálum. Einnig er fjallað um stærðir fyrirsagna og uppsetningu efnis. Hefðbundin meiðyrðamál hafa hins vegar ekki færst í aukana.

Stórblöðin þróuðust á sama tíma og lögðu áherslu á önnur atriði, svo sem óhlutdrægni og sjálfstæði, aðskilnað frétta og skoðana og auglýsinga og nákvæmni í heimildaöflun. Pulitzer á New York World reyndi að fara báðar leiðir í senn.

Fyrsta lögmál dagblaða er að segja sannleikann, vera nákvæm, vera óhlutdræg og skila frá sér réttum fréttum eftir föngum. Árið 2004 lentu bæði New York Times og Washington Post í að þurfa að játa á sig lygafréttir eftir siðlausa blaðamenn.

Flest dagblöð hafa strangar reglur um notkun heimilda. Sum hafa umboðsmann lesenda til að treysta eftirlitið. Og reynslan er sú, að flestir notendur netsins taka fréttir af vefútgáfum dagblaða fram yfir fréttir annarra aðila á vefnum.

Málum um meiðyrði fer fækkandi, en aukist hafa áhyggjur af framgöngu ljósmyndara, sem mynda frægðarfólk á götum úti, stundum með truflandi áhrifum á umferð. Sú umræða hefur leitt til kenninga um nauðsyn á frelsi fólks til að fá að vera í friði.

Bæði New York Times og Washington Post hafa beðist formlega afsökunar á að hafa tekið málsvara stjórnvalda of trúanlega í aðdraganda stríðsins gegn Írak. Margir telja, að dagblöð hafi minna eftirlit en áður með stjórnvöldum og fyrirtækjum.

Sjá nánar:
Joseph Straubhaar & Robert LaRose,
Media Now
Understanding Media, Culture and Technology,
2006