0339 Næstu grasrótarskref I

0339

Nýmiðlun
Næstu grasrótarskref I

Framtíðin mun koma okkur á óvart. Tvennt skiptir þar máli. Annars vegar þurfa gildi blaðamennskunar að haldast, nákvæmni, sanngirni og siðferði. Hins vegar er það eðli tækninnar, að hún er án afláts og óstöðvandi.

Atvinnumenn í blaðamennsku hafa lært eða tamið sér vinnubrögð, sem efla traust, svo sem siða- og starfsreglur. Sumir fjölmiðlar hafa umboðsmenn notenda og símenntun. Áhugafólk á vefnum hefur flest ekki komist í tæri við þessar hefðir.

Andinn í bandarískum siðareglum fjölmiðla er: Sannleikurinn = góður vilji + mikil vinna = staðfestingar + staðfestingar + staðfestingar. Sannleikurinn er torsóttur og flókinn, en menn komast næst honum með góðum vilja og mikilli vinnu

Skýrt dæmi um siðamismun hefðbundinna fjölmiðla og nýrra: Samskipti Yahoo, Google, Microsoft, Cisco, AOL og Skype við kínversk stjórnvöld um að þrengja kosti fólks og koma upp um andófsmenn. Nýir miðlar hafa reynst vera “siðferðisdvergar”.

Yahoo afhenti Kínastjórn tölvupóst, sem leiddi til tíu ára fangelsis Wang Xiaoning og Shi Tao. Til sögu í fjölmiðlun eru komnir nýir efnahagsrisar með víða hagsmuni og mikla ágirnd. Þeir telja sig ekki þurfa að lúta siðareglum hefðbundinna fjölmiðla.

Lög og reglur: Tækni nútímans og óánægja með hefðbundna fjölmiðla hafa skapað nýjar aðstæður. Samtal mun ýta fyrirlestrum til hliðar. Þrjú lögmál leiða okkur áfram, Moore lögmálið, Metcalfe lögmálið og Reed lögmálið.

Moore-lögmálið: Þéttleiki örgjörva tvöfaldast á 18-24 mánaða fresti. Tölvubúnaður í kaffikönnu er öflugri en fyrstu stórtölvurnar voru.

Metcalfe-lögmálið: Gildi nets eykst í öðru veldi fjöldans af endastöðvum þess. Þegar milljarðar manna eru tengdir saman, verður ekki lengur hægt að reikna gildi netsins.

Reed lögmálið: Hópar eru endastöðvar. Fjöldi hópa í n-ta veldi. Allir tala við alla í hópnum, ekki bara einn við einn.
Þeir, sem munu finna upp miðla framtíðarinnar, eru núna unglingar.

Framleiðsla frétta: Tæki sköpunar hafa batnað. Tónlistarmenn fá sér tölvu-hljóðver fyrir lítið fé. Vídeó er orðið svo ódýrt, að allir geta búið til kvikmyndir eða myndskeið fyrir brot af fyrra kostnaði.

Hundruð milljóna manna nota myndsíma, sem nú hafa breyst í myndskeiða-síma.
Enn er bloggið flókið, en tæki framtíðarinnar verða einföld.
Síun og hlutverk blaðamanna heldur áfram, en hlutdeild sjálfvirkrar tækni mun aukast.

Að finna það, sem þig vantar: Nýir risamiðlar eru komnir, Google, Microsoft, Yahoo. En einnig eru færi fyrir litla miðla. Google fréttir eru áhrifamikil kynning á risamiðlum og á því, sem hliðverðir þeirra telja vera miklar fréttir.

Sá, sem vill vita meira, getur grafið dýpra í Google News. Það er mikilvægasti þáttur hugbúnaðarins.
Google Alerts leitar að fréttum eftir leitarorðum og gefur þér færi á að lesa þær í RSS-perlufestum.

Gallinn við Google er, að það viðurkennir ekki fréttaefni frá grasrótinni. Hugbúnaðurinn hefur eina reglu: Fréttir þurfa ritstjóra. Google endurspeglar það, sem ritstjórar telja mikilvægt. Google er viðbót við dagblöð, væri ekki til án ritstjórnar þeirra.

Um leið og Google styður hliðvörslu hefðbundinna fjölmiðla þá er Google í samkeppni við þessa sömu fjölmiðla. Það gerist þannig, að fólk notar Google í stað þess að fletta fjölmiðlunum. Það sér því ekki auglýsingarnar, sem kosta útgáfu fjölmiðlanna.

Yahoo er að mörgu leyti mest spennandi af nýju risamiðlunum. Það gerir fólki kleift að hanna fréttaleitarsíður fyrir sig. Það hefur haft RSS frá 2004, sem gerir fólki kleift að velja fréttir úr bloggi og bæta þeim við síðuna. Góð blanda af gömlu og nýju.

Sammiðlun tekur flugið: RSS-runan er skjal með lista yfir fyrirsagnir með stuttum texta. RSS lýsir gerð og hluta innihalds efnisins. Slíkar runur eru lesnar af RSS-lesurum, sem gera kleift að safna efni frá ýmsum miðlum á eina heildarsíðu.

Nú eru RSS-lesarar fremur frumstæðir, en munu batna. Eitt besta dæmið er Feedster. Einnig Technorati. Blogbot er á leiðinni. Google hefur dregist aftur úr, þótt það eigi fyrirtækið Blogger. Hugmyndaríkir aðilar munu koma með enn betri lausnir.

Höfundur veraldarvefsins, Tim Berners-Lee, er haldinn efa um vefinn. Vefurinn breiðir út meiri lygi en sannleika, segir hann. Raunar segir hann vefinn vera orðinn samkomustað svindlara og lygara. Ef svo fari fram, verði vefurinn gagnslaus

Gamaldags, heilbrigð skynsemi: Notendur netsins þurfa að koma sér upp filtrum, setja upp virðingarstiga trausts. Það mun verða auðveldara á næstu árum. Á meðan tökum við öllu með varúð. Ef móðir þín segist elska þig, skaltu fá það staðfest.

Sjá nánar:
Dan Gillmor: We the Media, Grassroots Journalism by the people for the people, 2006