0309 Þú og samþættingin

0309

Nýmiðlun
Þú og samþættingin
Janet Kolodzy: Convergence Journalism, 2006

Breyttur heimur og nýmiðlun færa hefðbundnum fjölmiðlum ögrun. Þessi ögrun hefur bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Meginþáttur hennar er krafan um samþættingu.

Þú þarft að vita um samþættingu, því að hún mun hafa áhrif á þróun starfs þíns. Þú munt vafalaust vinna við margar tegundir fjölmiðla og sinna ýmsum tegundum blaðamennsku. Sóst verður eftir blaðamönnum, sem geta unnið við margs konar miðla.

Afskekkt byggð og afskekkt stríð kalla á blaðamann með allt: Vídeóvél, myndavél, hljóðbúnað, vélarfót, tölvu, gervihnattasíma, bílstraumbreyti og kunnáttu á þetta allt. Oft er reynslan sú, að hann getur þetta allt, en ekkert af því eins vel og fagmaður.

Sundurtæting notendahópa, ódýr tækni stafræn, breytt lagaumhverfi og þrengt eignarhald. Allt kallar þetta á samþættingu í hendi eins manns eða fárra, sem kunna að synda í þessari laug. Samanber einyrkjana Ingva Hrafn Jónsson og Ómar Ragnarsson.

Deilt er um, hvort einn maður eigi að þurfa að hafa margs konar hæfileika, geta gert allt. Í sumum tilvikum er það heppilegt, til dæmis á fámennum ritstjórnum eða við erfiðar aðstæður. En það kemur óhjákvæmilega stundum niður á gæðunum.

Ný öld verður öld breytinga og vals. Blaðamennska mun fela í sér margs konar miðla, gamla og nýja, fámiðla og fjölmiðla, persónulega og hnattræna. Hún muna fela í sér fjölþætta frásagnarlist. Hún verður ekki blaðamannadrifin, heldur er hún þegar orðin notendadrifin.

Frásagnarlist breytist, þegar saman kemur ýmis tækni: Fartölvur, farsímar, önnur fartækni, svo og sjónvarp og gagnvirkur veraldarvefur. Í samþættu umhverfi þarf breytilega frásagnarlist, snarpari frásögn. Henni er valinn staður í heppilegum miðlum hverju sinni.

Samþætting birtist okkur í upphafi aldarinnar sem vörn hefðbundinna fjölmiðla í hröðum heimi. Þar sem vald notendans fer vaxandi, án þess að varpa lykilverðmætum blaðamennskunnar fyrir borð. Markmiðið er eftir sem áður að segja fólki frá umheiminum.

Sérhver skilur samþættingu á sinn hátt. Hún er ferli í hringiðu. Hún getur snúist um altmúligfólk eða um samþjöppun í útgáfu. Hún er ekki ein stærð fyrir alla. Algengt er, að hún feli í sér samstarf. Þar sem fólk er sveigjanlegt, gagnrýnið og miðlar á fjölbreyttan hátt.

Samþætting felur í sér jafnvægi milli prents, vefs og ljósvaka. Þú þarft að hafa hugarfar og hæfni, sem nýtir kosti og gildi hverrar tegundar miðlunar fyrir sig. Summa samþættingar á að vera meiri en einstakra þátta hennar.

Styrkur ljósvaka felst í nálægð, einfaldleika og sjónmynd. Hann er mannlegur. Styrkur prents felst í samhengi og margslungnu eðli. Prent er farvænt. Styrkur vefs felst í gagnvirkni, leitarkostum og margmiðlun. Hann er sífelldur.

Samþætt blaðamennska:
Lesendur prentmiðla vilja samhengi og smáatriði.
Vafrendur á vefnum vilja snöggfréttir, leit og gagnvirkni.
Hlustendur og áhorfendur ljósvakans vilja nýjustu fréttir.

Víða telja menn, að dagblöð, útvarp, sjónvarp og vefur eigi ekkert sameiginlegt. Í stað þess má reyna að brúa gjána, stuðla að hugarfari samþættingar. Fyrri landamæri milli tegunda fjölmiðlunar munu smám saman verða óskýrari og hverfa.

Árið 2004 notuðu Bandaríkjamenn rúmlega 10 tíma á dag í miðla af ýmsu tagi. Fólk notar meiri upplýsingar en nokkru sinni fyrr. Þetta var komið upp í 11 tíma árið 2008. Og menn nota miðlana, þegar þeim sjálfum þóknast það.

Breiðband var komið til 108 milljón notenda í Bandaríkjunum árið 2009, tvöföldun frá 2004. Fréttir eru orðnar 24/7 fyrirbæri. Ef þú ræður ekki við alla tækni, prent, ljósvaka og vef, mun þér ekki vegna vel á tíma breiðbands. Og fyrirtækin æskja þríþættingar.

Þetta er góður tími fjölbreyttrar miðlunar og fjölbreyttra miðla. Þetta er líka erfiður tími klofnings innan notenda í smærri hópa og samþjöppunar í eignarhaldi. Bloggarar ögra hlutverki hefðbundinna hliðvarða frétta og upplýsinga. Þetta er tími hrærigrauts.

Samþætting er auðveldari við rétt markmið, markvissa forustu, rétt menningarumhverfi, sameinað eignarhald, sameiginleg gildi, samþætt tæknikerfi og tækniferli, mikla reynslu af samþættingu, sveigjanlegt samfélag og frelsi frá sérhæft lokuðum stéttarfélögum.

Jafnframt ógnar samþætting gildum í blaðamennsku. Fjárhagur verður ótraustari vegna sundurtætingar notendahópa. Stjórnendur vænta oft mikils vinnusparnaðar, en honum er því miður ekki til að dreifa í samþættingu. Sparnaður fæst ekki í efnisöflun.

Samþætting mun alltaf kosta meira en þú heldur, taka lengri tíma en þú heldur og vera erfiðari en þú heldur. Samþætting mun hins vegar hjálpa þér að skilja, hvað vantar í fréttir þínar. Samþætting dregur úr styrjöld milli blaðamanna prents og ljósvaka.

Oftast vantreysta blaðamenn samþættingu. Þeir telja hana vera markaðsbragð, áherslu á fréttir sem varning fremur en blaðamennsku. Eða sem aðferð stjórnenda til að fá færri blaðamenn til að vinna meiri vinnu með minni tilkostnaði.

Sjá nánar:
Janet Kolodzy: Convergence Journalism, 2006
Stephen Quinn & Vincent F. Filak: Convergent Journalism, 2005