0315 Samþættur fjölmiðill

0315

Nýmiðlun
Samþættir miðlar

Í þessum fyrirlestri er lýst tilhögun verka á samþættum fjölmiðli. Einnig er fjallað um siðareglur á slíkum fjölmiðli.

Samþættir vefmiðlar:
Fólk er ýmist í efnisstarfi eða framleiðslustarfi.
Fréttafólk skiptist í fréttastjóra, framleiðendur og fréttamenn. Tæknilegir sérfræðingar sjá um tölvuvædd og stafræn atriði, sjá t.d. um streymi (streaming).

Fréttastjórar á vefnum taka oft ákvarðanir, sem varða samstarfsaðila á sjónvarpi eða dagblaði. Þeir eru oft í samstarfi við blaðamenn á þessum samstarfsstofnunum.

Framleiðendur á vefnum endurvinna fréttir frá öðrum aðilum til birtingar á vefnum. Þeir skrifa kynningarlínur, myndatexta, fyrirsagnir og forma sögur fyrir síður á vefsvæðinu. Starf þeirra minnir á framleiðendur í sjónvarpi.

Fréttamenn á vefnum bæta oft fréttir frá samstarfsaðilum. Þeir setja inn efni, sem ekki var pláss fyrir í blaði eða sjónvarpi. Þeir setja inn bakgrunnsefni og tengingar. Þeir bæta við myndskeiðum.

Samþætting hefur áhrif á fréttaöflun og framleiðslu frétta. Það er fólk, ekki tækni sem lætur samþættingu takast. Ekkert eitt mynstur er ráðandi. Þetta sést: Hvatt er til samþættingar, ekki þvingað. Hún þarf meiri og betri samgöngur. Hún er teymisvinna.

Samþættendur eru í sambandi við málsaðila í samstarfinu.
Sums staðar hafa fréttastofur verið sameinaðar til að auðvelda samþættingu. Eða bítin sameinuð. Sums staðar hafa málsaðilar sameiginlegan desk til að raða saman hinum ýmsu fjölmiðlum.

Samþætting tekur á sig ýmsar myndir hjá fréttamönnum. Algengast er, að þeir tala í ljósvaka um fréttir sínar (talk-backs). Þeir koma nýjum vendingum frétta á vefinn og fylgiskjölum með fréttum. Þeir hanna margmiðlun.

Sums staðar taka fréttaljósmyndarar með sér vídeóvélar. Sumir blaðamenn skrifa jöfnum höndum fyrir dagblað, sjónvarp og vefinn. Fyrir þeim er nýmiðlun orðin að hluta daglegra verka.

Enn aðrir eru lengra komnir, t.d. altmúligmenn eða bakpoka-blaðamenn. Þeir eru algengastir á styrjaldarsvæðum eins og Afganistan og Írak, þar sem erfiðara er fyrir teymi að komast um. Kevin Sites er frægt dæmi um bakpoka-blaðamann.

Samþætting felur í sér fjölbreytta vinnu. Fréttir eru endurnýjaðar ört á vefnum. Menn koma fram í sjónvarpi til að útskýra þær. Menn skrá náttúruhljóð og myndir í safn, safna gögnum til birtingar á vef. Menn víkka út fréttirnar, sem birtast hvar og hvenær sem er.

Dagblaðamenn hafa klukkustundir til að ganga frá fréttum á kvöldin. Sjónvarpsstöðvar hafa líka fasta skilatíma, einkum á kvöldin, hin síðari ár líka á morgnana. Vefurinn hefur hlaupandi skilatíma allan daginn, suma tengda útkomutíma samstarfs-dagblaðs.

Í samstarfi dagblaðs, sjónvarps og vefmiðils þurfa málsaðilar að semja um að deila með sér fréttum og finna sameiginlega, hvernig og hvenær þeir eigi að gera það. Þetta jafngildir breyttu vinnu- og samgönguflæði.

Fréttalistar:
Á morgnana halda samstarfsaðilar fund eða símafund um fyrirhuguð verkefni dagsins. Þar eru gerðir sameiginlegir fréttalistar til að forðast tvíverknað. Þar eru ýmsir vinklar fyrir mismunandi miðla.

Að öðru leyti er vinnuferli miðlanna misjafnt. Dagblaði hentar að hafa fund kl.10, sjónvarpi kl.09. Dagblaðastjórar hittast oft aftur um kl.17 til að ræða forsíðuna. Yfirleitt er mest fólk á dagblöðum og þaðan koma flestar hugmyndir í púkkið.

Sjónvarp er ekki eins forhannað og dagblað og bregst fremur við áreiti líðandi stundar.
Sjónvarp sendir dagblaði fréttalista kl.10 og dagblað sendir sinn lista til baka kl.12.
Sums staðar er samstarfið óformlegra en þetta.

Prentblaðamenn hafa verið hræddir um að gefa skúbb eftir í sjónvarp eða vefinn, áður en fólk sér þau í blaðinu. Þetta viðhorf er að breytast. Margir sjá sér hag í að fá stafina sína með frétt á vefnum og að koma fram í sjónvarpi til að kynna fréttina.

Í rauninni eru skúbb blaðs eða sjónvarps oft umskrifuð fyrir vefinn, bætt við einu eða tveimur atriðum og upprunalegs höfundar ekki getið. Slík vinnubrögð opna málið fyrir samkeppnisblöð og sjónvarp og tefja auðvitað fyrir samþættingu samstarfsmiðlanna.

Ljósvakinn og vefurinn breyta fréttum og myndum reglulega, til dæmis fréttum af veðri og umferð. Fólk vill slíkar fréttir á morgnana, harðar fréttir á morgnana og yfir vinnudaginn, sport og léttmeti á kvöldin. Vefurinn er mest notaður í vinnunni.

Sjá nánar:
Janet Kolodzy: Convergence Journalism, 2006
Stephen Quinn & Vincent F. Filak: Convergent Journalism, 2005