0329 Survivor

0329

Nýmiðlun
Survivor

Henry Jenkins
Convergence Culture
2006

Hér er fjallað um þrjú hugtök:
* Samþætting miðla.
* Þáttaka í menningu
* Sameiginleg greind
Bókin fjallar um aðild fólks að samþættri miðlun. Fólk tekur þátt. Það vinnur saman og keppir við miðstýrt fjölmiðlavald.

Keppni er hafin í gerð kvikmynda fyrir myndsíma. Japanskir höfundar gefa út fagurbókmenntir í SMS-skilaboðum. Farsímar eru notaðir í raunveruleikjum. Enginn kaupir nýja kynslóð farsíma bara fyrir talsímann, heldur sem aðaltæki í samþættingar-byltingunni.

Með iPhone var stigið skref í átt frá hefðbundnum farsíma yfir í nothæft almiðlunartæki. Enn er þó skjárinn svo lítill, að hann bliknar í samanburði við flatskjái í dreifingu á myndskeiðum. Langt er enn í land hjá farsímum að taka við af fartölvum á internetinu.

Forstjórar átta sig seint og eru of seinir. Örvæntingarfullur vængjasláttur tónlistarforstjóra við tilraunir til lokunar á dreifingu tónskjala. Þeir lokuðu fjóshurðinni, þegar kýrnar höfðu þegar ruðst út. Mörg stórfyrirtæki haga sér eins og mislukkaðar fjölskyldur.

Allir óttast að missa tökin.
* Samþætting er komin og þú þarft að vera undir hana búinn.
* Samþætting er erfiðari en hún sýnist vera.
* Allir munu lifa af, ef allir vinna saman.

Ný tækni gerir efni kleift að flæða um margs konar rásir og að taka á sig margs konar form. Það var hin stafræna útgáfa, sem gerði samþættingu kleifa, hringamyndun gerði hana nauðsynlega. Spurningin er, hvort þetta opni svigrúm fólks eða auki vald stórfyrirtækja.

Gamlar tegundir miðlunar þurfa að lifa með nýjum tegundum. Þær gömlu deyja ekki, heldur færa sig til. Allar tegundir munu ekki sameinast í einu svörtu boxi. Milli miðla er misræmi og misvísun.
Eignarhald á miðlum hefur breyst og orðið fjarlægara.

Facebook, YouTube: Fólk tekur miðlun í eigin hendur. Það setur líf sitt, sambúð, minningar, draumóra á borð fyrir alla. Þetta getur verið mjög listrænt og getur líka verið vont fyrir fólk. Bernskubrek eltir fólk uppi í pólitík og atvinnuumsóknum.

Framleiðslu- og dreifingarkostnaður hefur minnkað, dreifingarrásum hefur fjölgað. Allir geta safnað efni, merkt það, tekið það og dreift því. Á sama tíma hefur eignarhald á hefðbundnum fjölmiðlum þjappast saman.

Samþætting kemur bæði að ofan og neðan. Notendur voru áður óvirkir, en eru núna virkir. Þeir flytja sig til, sýna minni tryggð, eru meira félagstengdir. Þeir eru hávaðasamir og opinberir. Fjölmiðlarnir reyna að ná tökum á þessum breytingum.

Í bókinni eru kaflar um:
* Survivor
* American Idol
* The Matrix
* Star Wars
* Harry Potter
* The Apprentice

Við erum komin á langvinnt breytingaskeið. Notendur eru á mörkum gamallar og nýrrar miðlunar og heimta að fá að taka þátt. Framleiðendur, sem ekki ná sáttum við aðildarsamfélag notenda, munu tapa viðskiptavild og tekjum.

Á breytingatímanum er hörð valdabarátta milli framleiðenda og notenda. Framleiðendur reyna að notfæra sér aðgerðaleysi og trúgirni flestra notenda. Nokkur hluti notenda reynir á móti eftir sínu höfði að hliðra þróuninni frá ráðagerðum framleiðenda.

Survivor (2000) er sjónvarpsþáttur vefaldar, hannaður til að vera ræddur, krufinn, gagnrýndur, rifist um hann, spáð í hann. Hver þáttur verður daginn eftir umræðuefni við kaffivélina. Talað er um hann eins og um frétt dagsins.

Hörðustu aðdáendur Survivor mynda hóp skemmdarvarga, “spoilers”, sem reyna að finna svörin. Úr því verður barátta milli framleiðenda og aðdáenda, sem verður hluti af dulúð þáttarins. Félagsleg viðbrögð, ekki einstaklingsbundin. Stafræna kaffivélin.

Enginn veit allt, allir vita eitthvað og sameiginlega vita þeir allt. Um þetta myndast frjálsir, herfræðilegir, tímabundnir hópar, þar sem menn leggja þekkingu og tilfinningar í sameiginlegan belg á veraldarvefnum. Skemmdarverkin eru sameiginlegar njósnir þeirra.

Survivor freistar til hugleiðinga um, hvað sé að gerast. Þátturinn er veðhlaup fremur en saga. Fólk veit, að hann var framleiddur fyrir löngu og vilja vita fyrir sýningu, hvernig hann fór. Frægasti spjallþátturinn er “Survivor sucks”, sem afhjúpaði leyndarmálin.

Fólk notaði gervihnattamyndir, skoðaði bakgrunna, fylgdist með breytingum á útliti keppenda, fór í ferðalög til regnskóga, fékk leka frá fólki á viðkomandi stöðum, komst yfir viðkvæm skjöl. Þannig náðust öll nöfn þáttakenda, áður en búið var að tilkynna þau.

Utan um Survivor sucks mynduðust hópar vitringa, sem stofnuðu lokaðar rásir til að fjalla um mál, áður en þau fóru á opna hlutann. Þannig varð til valdakerfi í áður valdalausu spjalli. Hópurinn skiptist í vitringa og almenning. ChillOne rauf þennan múr.

Síðan fóru fjölmiðlar að taka fréttir upp úr spjallrásum. Þannig varð þátturinn eins og bók, þú gast flett upp á öftustu síðu til að finna lausnina. Framleiðendur lentu í vandræðum með að halda uppi spennu og fóru að hóta með lögfræðingum til að loka spjalli.

Suvivor er dæmi um sjónvarpsþátt, þar sem hagsmunir framleiðenda og aðdáenda fara stundum saman og stundum ekki. Aðdáendurnir kveikja áhorf og um leið missa framleiðendur hluta af valdi sínu. Milli þessara aðila er ástar-haturs-samband.

Sjá nánar: Henry Jenkins: Convergence Culture, 2006