0323 Samþætt prent I

Nýmiðlun
Samþætt prent I

Margar reglur um ljósvakaskrif gilda líka um prentskrif. Þau þurfa að vera í germynd, vera skýr og þétt. Þurfa að taka á hv-unum sjö. Málsgreinar mega ekki vera flóknar. Tilvitnanir og nafngreindar heimildir efla traust, trúverðugleika og mannlega þætti

Sjö undirstöðureglur frétta:
Hver (gerði, sagði) hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo?
Hefðbundin blaðamennska gerir ráð fyrir, að fréttir svari öllum þessum spurningum.
Fín 45 orða frétt svarar öllu:

“Lalli Jóns braust inn í Búlluna við Mýrargötu upp úr miðnætti í nótt. Hann braut rúðu í eldhúsi og fór þar inn. Nágrannar urðu þessa varir og gerðu viðvart. Lalli náðist á staðnum og sagðist hafa verið svangur. Mál hans verður tekið fyrir eftir páska.” (45 orð)

En prentið skortir hljóð og lifandi myndir. Prentsögur þurfa að lýsa vettvangi og atburðum með orðum og ljósmyndum. En þær hafa líka meira pláss, sem gefur kost á skýringum og samhengi, meira baksviði og meiri tilvitnunum.

Pláss í fréttablaði er langt frá því að vera eins takmarkað og í ljósvakanum. Þessi viðbótarvídd prentsins nýtist best í skýringum og samhengi, fleiri sögum og meiri dýpt. Á prenti birtast smáatriðin, sem lýsa stóru atriðunum.

Hæfnin við að ná smáatriðum, dýpt og samhengi nýtist einnig góðri blaðamennsku í ljósvaka og á vef. Á hinn bóginn getur myndrænn skilningur nýst blaðamennsku á prenti. Meiri drættir eru í prenttextanum, fleiri gráir tónar, dýpra er grafið, betri tölur.

Inngangur á prenti:
Tilbrigði við stef
Tveir flokkar innganga:
* Segðu mér fréttina.
* Segðu mér söguna.
Eða:
Harður og mjúkur inngangur.
Beinn og frestaður inngangur.

Harður inngangur segir frétt:
Þrenns konar harður inngangur:
* Samantekt. Flest hv-in.
* Regnhlíf eða Haglabyssa. Tvær eða fleiri sögur undir sama hatti.
* Frestaður eða Blindur. Skilur eftir atriði, sem síðar kemur fram.

Prentstíll er annar en ljósvakastíll. Inngangur má vera lengri, tvær eða þrjár málsgreinar, en samt stuttur, 25 orð eða styttri. Hann er ekki í núinu og notar því þátíð. Styttingar og skammstafanir eru á prenti. Þar er líka hægt að lesa gæsalappir. Tilvitnanir á undan.

Prentstíll fjallar um það, sem gerðist í gær og notar orðalagið “í gær”. Byrja má inngang á skýringarsetningu eða á sértæku atriði. Samt verður fókusinn að vera traustur. Freisting til langhunda stafar oft af óljósum fókus. Hætta er á tösku-inngangi:

Í töskuinngangi er reynt að troða öllu í innganginn. Notandinn mætir þá “og hvað með það” vandamálinu. Öfugi píramídinn er hefðbundinn á prenti. Í ljósvaka þarf enda, síður á prenti. Aftur er þó komin krafa um enda á prenti. Lestu prenttexta yfir, ef þú getur.

Mjúkur inngangur segir sögu: Hann frestar broddsetningunni. Mjúkir inngangar nota sagnalist. Kjarni málsins er afhjúpaður í “nut graph”, kjarnanum, sem kemur á eftir inngangi. Þá er ætlast til, að lesandinn átti sig og segi: “Aha! Það er átt við þetta.”

Af því að kjarna málsins er frestað í mjúkum inngangi, er hann oft kallaður frestaður inngangur. Það gengur best í löngum greinum.
Fjórar tegundir mjúkra innganga:
* Örsaga, * dæmisaga, * sviðsmynd, * spenna.

Sviðsmynd byrjar oft á lýsingu á aðstæðum, atburði eða vettvangi. Blaðamaðurinn notar orð til að búa til sviðsmynd. Spennu-inngangur lýsir oft manni eða atburði á þann hátt, að lausn gátunnar birtist aftar í sögunni.

Stundum er notaður tvenndar-ryþmi andstæðna á prenti (jin-jang), stundum þrenndar-ryþmi (með “nut graph” í þriðja málslið). Stundum er blandað saman frétta- og sagna-frásögn (news plus).

Stundum flækist mjúkur inngangur svo mikið inn í sagnalist, að fréttin týnist. Það er kallað “jello” blaðamennska og hefur lengi verið til vandræða. Sbr. “narrative” blaðamennska. Saga í blaði getur verið gott lesefni, en ekki haft neinn tilgang.

Rödd og tóni bætt við prent: Inngangurinn gefur tóninn og kynnir röddina. Þú verður að reiða þig á orðin tóm. Rödd er aðferð höfundar við að tala beint við lesandann af síðum blaðsins. Í blöðum er margur tónn, annar á leiðarasíðu, hinn á neytendasíðu.

Tónn frétta er hreinn og beinn, alvarlegur og ábyrgur. Hann er skýr, þéttur og einfaldur. Rödd frétta er hins óhlutdræga skoðanda. Tilfinningar koma fram í tilvitnunum. Í löngum greinum kemur tónninn oft úr tilvitnunum.

Inngangur gefur rödd og tón, en öll fréttin verður að fylgja því eftir.
Hugarfar samþættingar tekur eftir, að frásögn frétta og upplýsinga er svipuð á prenti og á vef. Góð sagnalist í fréttum er góð sagnalist.

Sjá nánar:
Janet Kolodzy: Convergence Journalism, 2006
Stephen Quinn & Vincent F. Filak: Convergent Journalism, 2005