0316 Gamlir og nýir siðir

0316

Nýmiðlun
Gamlir og nýir siðir

Samþætting er svar við væntingum notenda. Fjölþætt blaðamennska breiðist út. Á móti hamla siðir, gildi og venjur, sem hafa einkennt fréttastofur um langan aldur. Erfiðast er að hreyfa við sjónarmiðum á sviði samkeppni við aðra fjölmiðla.

Blaðamenn telja samkeppni framkalla betri blaðamennsku og meiri skúbb. Samþættingin biður þá hins vegar um að tengjast við fólk á öðrum fjölmiðlum og að treysta óvininum. Blaðamenn þurfa að tala minna um að eiga frétt og meira um að skipta henni.

Sjónvarpsmenn telja prentmenn staðnaða og leiðinlega. Prentmenn telja sjónvarpsmenn innihaldsrýra og sjálfmiðjaða. Þegar stálin mætast stinn, verður stríð milli lífsviðhorfa úr prenti, ljósvaka og vef. Það er ekki auðvelt að gefa af sínu.

Samþætting gengur best, þegar hún þjónar almenningi, en kynnir ekki bara frétt og fréttamann. Starfsmenn ritstjórna þurfa að venja sig við að taka sameiginlega hagsmuni fram yfir sitt eigið egó.

Þegar blaðamenn sjá, að notendahópurinn stækkar við, að fréttir þeirra komast í fleiri tegundir miðla, verða þeir minna hræddir við samþættingu. Milljónir lesa Christian Science Monitor á vefnum, 70.000 á prenti. Smám saman fara þeir að meta vefinn.

Prent, ljósvaki og vefur hafa ólíka menningu á fréttastofum. Blöð eru valddreifðari og nota sérhæfingu meira, hafa færri skilatíma. Ljósvaki og vefur eru fámennari og sérhæfa menn síður. Á öllum stöðum eru teymi, sem starfa að fæðingu og frágangi frétta.

Innra starf fréttastofa dagblaða snýst um fréttastjóra, vaktstjóra, hönnuði, myndstjóra. Á fréttastofum sjónvarps eru þetta verkefnastjórar, framleiðendur og akkeri. Á vefnum eru það fréttastjórar og framleiðendur.

Menn berjast við að reyna að mæta breyttum 24/7 fréttahring, þar sem fréttir birtast allan sólarhringinn alla daga vikunnar. Samþætting opnar leiðir í þessu efni, býr til nýjar samgönguleiðir og ný viðhorf um skiptingu frétta. Hún vill hugsa um notandann.

Við hefðbundna vefmiðlun hefur fyrir löngu bæst símamiðlun, sem lýtur sérstökum lögmálum, meðal annars vegna lítils skjás og takmarkaðs rýmis á honum. Um símamiðlum verður fjallað í öðrum fyrirlestri.

Fyrirtækinu, sem nú heitir 365, mistókst árið 2006 að festa 24/7 fréttastöð í sessi. Hluti af tilrauninni var sameiginleg fréttastofa fyrir dagblað, útvarp og sjónvarp. Fréttablaðinu líkaði ekki fyrirkomulagið og fór úr samstarfinu. Fréttastofan varð því vanburðug.

Siðareglur:
Allir blaðamenn hafa svipuð gildi, sannleika, nákvæmni, óhlutdrægni, jafnvægi og sjálfstæði. Allir leita jafnvægis milli þess, sem fólk vill vita og þarf að vita. Allir beita núi, nálægð, frægð, nýstárleika, áhrifum og mikilvægi.

Að leita sannleikans:
Þetta er oftast nefnd sem mikilvægasta gildi blaðamennskunnar. Um leið er það óáþreifanlegt gildi. Á tímum spuna er sannleikur annars áróður hins.

Kovach og Rosenstiel segja, að blaðamenn þurfi að afla réttra frétta og að skilja þær. Í veruleikanum átti fólk sig á, hvenær blaðamaður hafi komist nálægt réttu. Það er, þegar heimildir eru skráðar, rannsóknin er fullnægjandi og aðferðin er gegnsæ.

Besta leiðin til að forðast frávik frá sannleikanum er að geta heimilda til að leyfa notendum að ákveða, hvort þeir taki mark á þeim eða ekki. Þegar menn geta vinnubragða sinna, geta notendur sett sig í spor þeirra. Gögn eru stundum birt á vef.

Þegar birt er frétt um deilu, er á vefnum hægt að birta tilvísanir í vefsvæði beggja eða allra aðila. Blaðamenn flaska oft á að segja notendum ekki frá, hvert þeir sækja upplýsingar sínar. Stundum hafa heimildir hagsmuna að gæta án þess að sagt sé frá því.

Að vera óháður:
Oft er óháður talið vera samheiti þess að vera hlutlægur, sem er álíka óáþreifanlegt og að segja satt. Aðalatriðið er, að miðillinn setji fram sjálfstætt mat eftir að hafa aflað sjónarmiða hinna ýmsu málsaðila.

Sumir segja, að samþætting feli í sér brot á sjálfstæðisreglu í siðareglum. Samþætting felur í sér samstarf, sem getur leitt til hagsmunaárekstrar. Sameiginlegt eignarhald hefur sömu áhrif.

Rannsóknablaðamennska kallar á tíma, fólk og fé. Þrýstingur keðjufyrirtækja á aukinn hagnað hefur afleiðingar í minni tíma, færra fólki og minna fé. Það getur dregið úr áherslu á efni, sem er til þess fallið að fæla frá auglýsendur.

Sanngirni og jafnvægi:
Sumir kalla þetta óhlutdrægni. Átt er við, að blaðamaður virði staðreyndir og skilning notenda á þeim. Það þýðir ekki, að öll sjónarmið fái sama pláss. Óhlutdrægni felur ekki í sér ping-pong blaðamennsku.

Sjá nánar:
Janet Kolodzy: Convergence Journalism, 2006
Stephen Quinn & Vincent F. Filak: Convergent Journalism, 2005