0331 Harry Potter

0331

Nýmiðlun
Harry Potter

Aðdáendur hafa búið til nýja Star Wars (1977) þætti. 250 reyndu fyrir sér í slíkri keppni árið 2003. Þetta er alþýðumenning, þar sem engin mörk eru milli fagfólks og almennings. Stundum er aðild háð leikreglum og stundum er hún galopin.

Fjölmiðlaiðnaðurinn er orðinn háður virku áhugafólki og er um leið dauðhræddur um, að áhrif áhugafólksins fari úr böndum. Napster-viðbrögðin eru dæmi um, að skelfing iðnaðarins fari úr böndum og skili eftir sig sviðna jörð. Val: Samstarf eða bann.

Höfundaréttarlögin bandarísku frá 1998 hafa freistað fyrirtækja, sem hafa uppi hótanir um lögbann og málaferli. Þar með eru fyrirtækin að ráðast gegn stuðningsfólki sínu og senda ruglingsleg skilaboð í samfélag, sem byggist á aðild almennings að valdinu.

Hugsanlegt er, að stórfyrirtækjum hafi með málaferlum gegn sjóráni á vegum Napster, Torrent og fleiri aðila tekist að forða mestum hluta valdsins undan almenningi. Það verði bara minnihluti, sem skiptist á réttindavörðu efni, en meirihluti fólks muni lúta skattlagningunni.

Kvikmyndaver gefa út myndir með úrfelldu efni og skýringum. Tæknin er farin að gera fólki kleift að framleiða tæknilega vel gerðar bíómyndir. Á vefsvæðum í “költi” má sjá slíkar tilraunir.

Framleiðendur vilja, að notendur skemmti sér. En þeim ofbýður, þegar persónur úr verkinu eru notaðar til að búa til nýjar sögur. Þess vegna hafa framleiðendur sveiflast. Stundum hafa þeir leyft með því skilyrði, að höfundaréttur sé hjá sér, ekki hjá fólkinu.

Þótt hefðbundnir fjölmiðlar séu voldugir, tókst þeim ekki að hemja áhrif almennings. Þess vegna er líklegt, að hótanir séu ekki vænleg leið á tíma nýrrar og ódýrrar tækni, sem hefur eflt áhrif notenda.

Fjölmiðlum hefur með lögfræðilegum aðgerðum tekist að æsa fólk gegn sér. Þeirra hluti af markaðinum fer minnkandi. Þeir miðlar, sem slaka á vörslu höfundaréttar, kalla hins vegar á virka aðdáendur. Framleiðendur þurfa á aðdáendum að halda.

Ekki var í ársbyrjun 2008 hægt að sjá, hvernig þessari baráttu muni lykta. Það fer mikið eftir því, hvort hinn þögli meirihluti styður sjóránið vegna misnotkunar stórfyrirtækja á höfundarétti. Eða hvort fyrirtækjunum tekst að fá þá þöglu til að sætta sig við valdið.

Heather Lawver, 13. ára, stofnaði vef www.dprophet.com/, þar sem fólk setur inn sögur af sér í kringumstæðum Harry Potter í Hogwarts-kastala. Hundrað börn vinna við gerð vefsins. Þessi hlutverk eru síðan ofin inn í hlutverk annarra. Útvíkkaður Harry Potter.

Vefurinn www.fictionalley.org/ felur í sér meira en 30.000 sögur úr hugarheimi Hogwarts, þar af nokkur hundruð heil skáldrit. Aðilar eru hvattir til að lúta lögmálum upprunalegu bókanna. Sögur Rowling eru eins konar stillansar fyrir ótal höfunda.

Warner Bros eignaðist réttinn 2001 og byrjaði að ofsækja börnin. Þetta varð illræmt og börnin tóku til gagnaðgerða. Á endanum varð fyrirtækið að biðjast afsökunar á fíflaskap. Menn óttast þó, að fyrirtækið reyni aftur að sækja fram.

Almennt vilja stórfyrirtæki eigna sér höfundarétt á efni, sem snertir hagsmuni þeirra. Vefsíður fjölmiðla vilja eigna sér höfundarétt á bloggi, sem birt er á þeirra vegum. Rétthafar skáldsagna vilja eigna sér höfundarétt á viðbótum við þessar sömu skáldsögur.

Flóð sagna í Harry Potter stíl hefur brotið niður vald stórfyrirtækja yfir menningarlegri tjáningu. Hliðvarsla dugar ekki og flóðgáttir hafa opnast, sem enginn ræður við. Róttækir kristnir söfnuðir hafa reynt að amast við Harry Potter á bókasöfnum.

Fólk hefur notað klippitækni til að stæla The Apprentice og láta Donald Trump reka George W. Bush. Bandaríski herinn framleiðir tölvuleiki fyrir lið sitt. Kosningabarátta Howard Dean er þekktasta dæmið um pólitískan storm, framleiddan á vefnum.

Joe Trippi bjó til kláran skríl, “smart mob”, sem náði saman á meetup.com, setti upp fjölmenna fundi og tók þátt í fjársöfnunum. Howard Dean náði samt ekki kjöri, var felldur í sjónvarpi. En framboð Dean á vefnum var fyrirboði þess, sem mun koma.

Ekkert hefur þó enn komið fram um, að kosningabaráttan 2008 í Bandaríkjunum muni marka nýtt skref eða ljúka því skrefi, sem Howard Dean hóf í baráttunni 2004. Ekki er ljóst, að fólk muni sigra ráðandi öfl samfélagsins í krafti nýmiðlunar.

Þegar 60 Minutes sagði, að Bush hefði vikist undan herþjónustu, var þátturinn samstundis leiðréttur í bloggi. Hefðbundnir fjölmiðlar notuðu bloggið og þannig hafa fréttamál flætt fram í samstarfi gamalla og nýrra miðla. Vefur er fínn, en sjónvarp er nauðsynlegt.

Eins og Survivor var “skemmdur,” þá eru bloggarar stöðugt að “skemma” stjórnvöld með því að safna saman gögnum, virkja þekkingu grasrótarinnar og með því að ögra hefðbundnum fullyrðingum. Með þessu hafa bloggarar áhrif á framvindu mála.

Howard Dean málið 2004 sýndi styrk og veikleika. Síðan þá hafa bloggarar verið að slípa sverðin. Hafa verður í huga, að bloggarar lesa fyrst og fremst hver annan. Þeir eru ekki lesnir af almenningi. En heildaráhrifin felast í meiri áhrifum fólks á pólitíkina.

Sjá nánar: Henry Jenkins: Convergence Culture, 2006