0204 Fréttaskrif II

0204

Blaðamennska
Fréttin skrifuð II

Kunna að skipuleggja smáatriði inn í textann (staðreyndir á víð og dreif í viðtölum). Stundum gagnast ekki að byrja á staðreynd A og enda á staðreynd Ö.
Stundum hæfir að byrja á L,M,N, O og P og setja þær staðreyndir fremst.

Oft eru mikilvægustu atriði fréttarinnar á víð og dreif í viðtölum við ýmsa aðila og í öðrum heimildum. Þú verður að búa til fókus og hafa yfirsýn, hvernig þú dregur mikilvægustu atriðin saman í texta, og vita hverju þú átt að sleppa.

Tólf tegundir upphafs texta:
1. Samantektin: Hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna, hvað svo?
2. Einhæfing: Jón verður að greiða 2.500 kr meira á ári.
3. Dramatík: Jón Jónsson þagði lengi, er hann kom í ræðustólinn.

4. Tilvitnun: Mér er það minnisstætt, hann sat hjá.
5. Litur: Jón Jónsson hristi höfuðið, þegar Páll Pálsson las upp yfirlýsinguna.
6. Frestun: Forstjóri deCode var á áhorfendapalli, þegar kosið var á þingi um ríkisábyrgð deCode.

7. Viðbrögð: Útifundur til að mótmæla notkun eiturefna í æðarvarpi hófst fyrir skömmu.
8. Fréttaljós: Jón vann atkvæðagreiðsluna, en gæti tapað málinu.
9. Stöðumat: Staða Vinstri grænna er veikari en hún var eftir kosninguna.

10. Spurning: Hvað hefði gerst, ef Jón hefði stutt tillögu Páls?
11. Brandari: Jón Jónsson neitaði að nota augnsjá í WorldClass, þótt hann hefði mælt með henni.
12. Undrun.: Þverstæða, statistík, dæmisaga, frásögn, afturhvarf í tíma.

Fyllingarorð. Forðist lýsingar- og atviksorð, þau veikja söguna. Forðastu: of, mjög, nokkuð, fremur, eins konar, dálítið, allnokkuð, einfaldlega, nokkurs konar). Forðastu aukaorð yfirleitt. “Hann kannaði” komi í stað “Það var framkvæmd skoðanakönnun”.

Forðastu tvítekningar. Ekki segja “Hann gnísti tönnum fast”. Að gnísta er fast.
Forðastu langar málsgreinar, skilningur lesenda minnkar. Leitaðu að orðum á borð við “og” og “en”. Settu þar punkt og stóran staf.

Útskýrðu. Ef þú skilur textann ekki, mun lesandinn ekki skilja hann. Margir eiga auðvelt með að bera saman hluti og samhengi, aðrir þurfa að læra það. Ef útskýringar eru ekki þín sterkasta hlið, skaltu ákveða að gera þær að henni.

Reyndu að meta, hvort lesandinn viti mikið um málið. Gerðu ekki ráð fyrir, að hann hafi fylgst með fréttum í gær. Er þetta eitthvað, sem hann getur látið sig varða um? Er fréttin of flókin? Fjallar hún nógu mikið um fólk sem gerendur?

1. Þekking og meðvitund þín hjálpa þér að skilja flóknar aðstæður og lýsa þeim.
2. Æfðu. Lýstu móður þinni svo, að annar noti lýsinguna í flugstöð.
3. Berðu það óþekkta saman við það þekkta. Notaðu hugtök og þekkt dæmi.

Átta tegundir frétta:
1. Píramídi:
A. Nýjar vendingar. B. Tveir-þrír málsliðir með fleiri upplýsingum um þær. C. Skýrt frá, hvernig þetta tengist sögu málsins. D. Lokið að segja frá vendingunum. E. Auka- og viðbótarupplýsingar.

2. Tímasaga:
Fyrst er inngangur. Síðan er sagan sögð nokkurn veginn í þeirri röð, sem atburðir hennar gerðust. Fréttir af atburðarás henta oft þessari frásagnaraðferð. Dæmigerð er íþróttafrétt af gangi kappleiks.

3. Raðsaga:
Fyrst er inngangur. Síðan eru raktir nokkrir sjálfstæðir og jafngildir þættir málsins í röð, A. B. C. D. o.s.frv, venjulega í mikilvægisröð. Þeir eru síðan dregnir saman í lokin. Sagt er frá gengi liða í einni umferð.

4. Frestuð saga:
Inngangurinn lýsir kringumstæðum eða dæmi, sem varpar ljósi á söguna. Síðan kemur sagan sjálf. Ekki fresta of lengi að koma með meginatriði sögunnar, því að annars getur lesandinn flett framhjá málinu.

5. Spennusaga:
Réttur píramídi. Endir kemur á óvart. Þú byrjar á að segja frá því sem gerðist, en segir ekki niðurstöðuna fyrr en í síðasta málslið. Þetta er fremur sjaldgæf aðferð. Hafðu samt auga á skrítnum sögum og gamansömum.

6. Grein:
Þú ert ekki bara að segja fréttir, heldur líka gefa mynd. Þú reynir að draga upp mynd í huga lesandans. Tímasetning skiptir minna máli en í frétt. Mannleg áhugamál vega þyngra. Passaðu að láta söguna hanga saman á fókus.

7. Greining:
Þú lýsir verkefni eða vandamáli. Þú segir frá þeim, sem koma að málinu og hvaða afstöðu þeir tóku. Þú spáir í, hvað muni gerast næst. Þarna er oft um að ræða fréttaskýringu, þar sem höfundurinn tekur þátt í umræðunni.

8. Kjallaragrein eða menningarrýni:
Óteljandi form eru á greinum, sem fela í sér skoðanir. Allt gildir, svo framarlega sem það vekur áhuga lesandans og er vel skrifað. Þetta efni er oftast sett fram í fyrstu persónu. “Ég”.

Fyrirsagnir:
Mesta slysahættan á ritstjórnarskrifstofum er í fyrirsögnum. Fyrirsagnagerð krefst langrar þjálfunar og mikillar málþekkingar. Svo fá orð eru í fyrirsögnum, að þau geta óvart gefið ranga mynd af innihaldi fréttar.

Verkefni:
Skrifaðu 100 orða lýsingu á móður þinni handa manni, sem á að finna hana í flugstöð.