0236 Tilfinningar ljósmynda

0236

Blaðamennska
Tilfinningar ljósmynda
Brian Horton, AP Guide to Photojournalism, 2. útgáfa 2001

Í fréttaljósmyndun þarf forvitni. Tilfinninganæmi, hugsun og innsæi. Þegar þú kemur að vettvangi, spyrðu þig: Hvað er áhugavert við þetta? Ekki er hægt að kenna ljósmyndun á vettvangi, þú verður að læra hana með því að gera hana.

Þú verður að hafa þolinmæði. Og þú verður að vera “street smart”, það er að vera klókur á götunni. Engin einföld leið er til að markinu, þú verður að þjálfa þig. Þú verður að líta lengra en til hins augljósa, sjá tilfinningarnar.

Í venjulegum fréttum eins og í íþróttum er það oft eftirvirknin, sem er myndefni. Í íþróttum er það ekki markið, heldur viðbrögðin við markinu, ekki úrslitin, heldur viðbrögðin við úrslitunum. Þá koma tilfinningarnar betur í ljós.

Samkeppni í ljósmyndum leiðir til eftirlíkinga. Menn herma eftir verðlaunahöfum í stað þess að hugsa sjálfir. Þetta má sjá eftir sýningar. Þegar sýning hefur verið haldin á myndum af fátækt, fyllast blöðin af nýjum myndum af fátækt.

Vertu ekki hræddur við að reyna það aftur, sem áður mistókst. Ekki hugsa: Það tókst ekki síðast. Heldur: Ég er betri núna en síðast, kannski tekst það núna. Það felst þroski í að að komast fram úr því, sem menn gerðu áður.

Longstreath myndaði Pol Pot eftir andlát hans. “Ég ætlaði ekki að taka nei fyrir svar og ég ætlaði ekki að koma til baka fyrr en ég hefði myndina.” “Ég er enginn snillingur í ljósmyndum, en ég gefst ekki upp, kem aldrei tómhentur til baka.”

Longstreath segir líka: “Þegar aðrir eru að tala saman og segja brandara, er ég með hugann við efnið, horfi á aðstæður, endurskoða áætlunina hvað eftir annað.” Eric Draper: “Ég heilsa hinum ljósmyndurunum, er svo upptekinn við undirbúning.”

Ef þú notar tækni við ljósmyndun á vettvangi, þegar þú þarft að kjást við eindaga, slæmar aðstæður til myndatöku, skaltu ekki láta tæknina stjórna þér. Þú getur lent í hringiðju tölvu, linsa, farsíma og ekki fundið andartak myndarinnar.

Mörg dagblöð í Bandaríkjunum vilja ekki uppstillingar í fréttamyndum. Einhver spyr: Hvað á ég að gera? Hann á auðvitað að gera það, sem hann væri að gera, ef ljósmyndarinn væri ekki á staðnum. Aðeins þannig verður ljósmyndin raunveruleg.

Uppstillingar hreyfa líka við trausti fjölmiðilsins. Ef spurt er: Hvað á ég að gera? Þá þýðir það, að viðkomandi aðili telur allar hinar myndirnar í blaðinu einnig vera uppstillingar. Hann trúir ekki á ljósmyndirnar í blaðinu.

Stundum eru náttúrulegar ljósmyndir ekki eins hreinar og þú vildir, að þær væru, en þú þarft að læra að lifa við það, af því að myndirnar eru að minnsta kosti heiðarlegar. Ekki láta fólk leika sjálft sig á ljósmyndum, það er falskt.

Ekki vera of vondur við þig. Ef þú ert að sjá eftir einhverju, ertu ekki í réttu hugarástandi til myndatöku, þegar á ríður. Þú verður bara að taka upp þráðinn aftur eins og ekkert hafi í skorist.

Fréttastjórar verða að treysta ljósmyndurum og láta þá vita af því, svo að þeir séu ekki undir þrýstingi um að búa til eitthvað, sem ekki var til. Báðir aðilar verða að vera trúir sannleikanum.

Ekki láta tækninna verða þér fjötur um fót. Eric Risberg: “Þegar ég er í fréttum, er ég léttvopnaður og tek ekki mikið af myndum. Ég reyni að hugsa og ekki drukkna í efninu. Ég held mér á ákveðinni fjarlægð.”

Til er tímasetning í ferli atburðar, X-bletturinn. Ef þú getur spáð í, hvað og hvenær X-bletturinn verði og passað upp á að vera á réttum tíma á réttum stað, hefur þú náð meginmynd atburðarins.

Ef þú vilt fá öðru vísi ljósmynd en hinir, þarftu að vera á öðrum stað og taka áhættu. Doug Mills kom sér fyrir á vondum stað við opnun olympíuleikanna í Atlanta, faldi sig og náði mynd af Muhammad Ali kveikja eldinn.

Hafðu áætlun. Þú kannt að þurfa að breyta henni, stundum oftar en einu sinni, en þú hefur samt áætlun. Hafðu rafhlöðurnar alltaf í lagi. Ekki fara með nýja myndavél í erfitt verkefni. Æfðu þig á henni fyrst. Lestu fréttir í blöðunum.

Ekki vera með fordóma eða forskriftir í kollinum. Ekki taka sömu, gömlu myndina af öndunum á Tjörninni og ráðhúsinu í baksýn. Ekki taka mynd af barninu að vaða í pollinum í Húsdýragarðinum. Það er búið að birta myndina hundrað sinnum.

Erfiðar eru “heimreiðarmyndir”, þegar hópur ljósmyndara heldur til dögum saman á heimreið fólks, sem skyndilega hefur lent í fréttum. Ljósmyndarar eru þar með of mikinn þrýsting og búa til kringumstæður, sem ekki eru eðlilegar.

Sjá nánar: 
Brian Horton, AP Guide to Photojournalism, 2. útgáfa 2001

Til er tímasetning í ferli atburðar, X-bletturinn. Ef þú getur spáð í, hvað og hvenær X-bletturinn verði og passað upp á að vera á réttum tíma á réttum stað, hefur þú náð meginmynd atburðarins.