0232 Sjónvarpsstíll III

0232

Blaðamennska
Sjónvarpsstíll III
Brad Kalbfeld, Assoicated Press
Broadcast News Handbook, 2001

“Öruggasta leiðin til að ná og halda athygli lesandans er með því að vera sértækur, ákveðinn og naglfastur. Höfundarnir miklu, Hómer, Dante, Shakespeare náðu athygli af því að þeir voru sértækir og sögðu frá mikilvægum smáatriðum.”

Ertu að skrifa um hag bankans. Þýddu það á mál, sem allir skilja. Ertu að skrifa um heilbrigðismál. Þýddu það á íslensku með því að segja frá áþreifanlegu dæmi um fólk, sem hefur reynslu af heilbrigðiskerfinu.

Sum orð hljóma betur en önnur. Það er tónlist í orðum, málsgreinum, málsliðum og heilum sögum. Hlustaðu á orðin, sem þú notar. Ef þau henta ekki hugarástandi sögunnar, skaltu skipta þeim út fyrir önnur.

Þótt menn tali í stuttum setningum og þótt stuttar málsgreinar séu yfirleitt betri en langar, getur stundum verið gott að hafa málsgreinar lengri til að láta textann flæða betur. Því hraðari, sem sagan er, þeim mun styttri eru málsgreinar.

Textagerð fyrir útvarp og sjónvarp er listgrein. Hlustaðu á það, sem þú skrifar. Ef það hljómar ekki rétt, muntu ekki vinna notendur á þitt band.

Framleiðsla sjónvarpsfrétta er nógu flókin til þess, að þörf er á potti, en hann er ólíkur gamla útvarpspottinum. Þar er nú fjölbreytt vinnsla með útdeilingu verkefna á einum stað, gröfum á öðrum og ritstjórn efnis á enn öðrum stað.

Á hverri fréttastofu er potturinn í miðju stormsins. Eðli hans hefur breyst, til sögunnar hafa komið hljóðbönd og myndbönd, gervihnattasamband, aukið vægi grafa og sparnaður í rekstri. Sumar útvarpsstöðvar hafa ekki einu sinni pott lengur.

Það, sem er sameiginlegt öllum pottum, er klipping og frágangur efnis, ákvörðun forgangsraðar og framleiðsla fréttaþátta. Einhver ákveður, hvernig efnið er lesið. Það getur verið pottur, framleiðandi eða fréttastjóri.

Potturinn sér, hvað kemur inn á vírnum og frá öðrum framleiðendum. Fréttastjórinn var og er umferðarstjóri, sem sér um, að réttir hlutir fari á rétta staði og fréttir raðist rétt, hver fyrir sig og saman. En nú er umferðin meiri en áður.

Fréttastjórinn sér um, að fréttastofan viti um allt það nýjasta. Hann sér um, að nýjar fréttir séu skrifaðar og komist sem allra fyrst í loftið. Hann er ábyrgur fyrir, að efnið sé nákvæmt, skýrt og hlutlægt og raðar málum í forgangsröð.

Þar að auki er hann kennari. Um leið og hann breytir texta, kennir hann fólki að bæta texta. Þetta kennarahlutverk fréttastjórans hefur látið undan síga á litlum útvarpsstöðvum og hefur leitt til verri gæða efnis á þessum stöðvum.

Allt þetta er unnið undir tímaálagi. Sums staðar er eindagi á klukkutíma fresti. En á keðjustöðvum og sífréttastöðvum er eindaginn núna eða nú. Flest þessi hlutverk stangast á og óvinsæll fréttastjórinn sér um að sigla milli skers og báru.

Tölvutæknin hefur auðveldað textabreytingar. Það er auðvelt fyrir fréttastjóra að vera stöðugt að endurskrifa texta, sem þeir fá, í stað þess að láta blaðamenn endurskrifa sjálfa sig, svo að þeir læri.

Það fullkomna ástand er, að fréttastjórinn lagi staðreyndavillur, striki út hlutdrægni, setji inn nýja atburði, lagi gerð sögunnar, málsgreinar og orðaval, leiðrétti stíl, en hafi samt tilfinningu fyrir stíl höfundarins.

Fréttastjórinn er forvitinn, efahygginn og vel upplýstur. Til að vera með á nótunum fylgist hann með útvarpi, sjónvarpi og les blöðin. Hann spyr líka réttra spurninga, ef honum finnst eitthvað ekki vera í lagi. Hann hefur frábært minni.

Af hverju notarðu þetta orð, spyr fréttastjórinn. Sumir móðgast við slíkar athugasemdir, en dæmið í bókinni sýnir, að nauðsynlegt er að spyrja slíkra spurninga. Fréttastjórinn er síðasta vörnin, áður en gallarnir fara í loftið.

Blaðamenn ruglast stundum á fullyrðingum og staðreyndum. Ef löggan segir, að ofbeldisglæpum hafi fækkað, trúa þeir því og breyta í staðreynd, í stað þess að hafa það eftir löggunni. Fréttastjórinn spyr því: “Hvernig vitum við þetta?”

Þótt sjónvarpið hafi myndir og hljóð, er eigi að síður mikilvægt að banka í koll notandans og nýta sér safn hans af myndum og reynslu. Leitaðu að smáatriðum, sem lýsa áhrifum á fólk. Lýsa, hvað það er, sem felur í sér mannlega tilfinningu.

Sjá nánar:
Brad Kalbfeld, Assoicated Press
Broadcast News Handbook, 2001

Öruggasta leiðin til að ná og halda athygli lesandans er með því að vera sértækur, ákveðinn og naglfastur.