0215 Siðaskrá Fréttablaðsins I

0215

Blaðamennska
Siðaskrá Fréttablaðsins I

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um þekktustu siðaskrá íslenska fjölmiðils, Fréttablaðsins. Í næsta fyrirlestri verður fjallað um siðareglur Blaðamannafélags Íslands og ýmsar innlendar og erlendar siðareglur.

Siðaskrá Fréttablaðsins var samin annars vegar með hliðsjón af reynslu ritstjóra blaðsins og hins vegar með hliðsjón af þekktum siðaskrám erlendra fjölmiðla, einkum breska dagblaðsins Guardian.

Siðaskrá ritstjórnar DV var til skamms tíma birt opinberlega á vef blaðsins. Siðaskrá Fréttablaðsins hefur verið kynnt opinberlega og birt í heild sinni í blaðinu. Fyrir þann hóp, sem hér er í námi, er nytsamlegt að kynnast henni sem dæmi.

“Siðaskrá Fréttablaðsins.
Fréttablaðið er traustur fréttamiðill.
Auglýsendur: Hagsmunir auglýsenda eru ekki hafðir til hliðsjónar við vinnslu og birtingu efnis í blaðinu.

Bein ræða: Bein ræða er aðeins notuð,þegar heimild er nafngreind. Fjölmiðill eða hluti hans telst heimild í þessu samhengi. Ummæli fólks í skoðanakönnunum Fréttablaðsins mega birtast nafnlaus, enda eru nöfnin ekki þekkt. Málfar er stundum lagað í beinni ræðu, en ekki breytt merkingu hennar.

Blekkingar: Starfsmenn ritstjórnar villa ekki á sér heimildir, þegar þeir afla frétta.
Bréfsefni: Starfsmenn ritstjórnar nota ekki bréfsefni eða önnur einkenni blaðsins í óviðkomandi skyni.

Börn: Sérstök aðgát er viðhöfð, þegar myndir eru teknar af börnum eða talað við þau. Yfirmenn ritstjórnar eru látnir vita. Sérstök áherzla er lögð á hagsmuni barna í kynferðisbrotamálum.

Efnisflokkun: Greint er milli frétta, skoðana og afþreyingar í blaðinu og efnið birt á mismunandi stöðum í blaðinu. Auglýsingar eru aðgreindar frá öðru efni blaðsins.

Einkamál: Ekki eru birtar upplýsingar um einkahagi fólks, svo sem um kynhegðun þess, lyfjanotkun, vímuefnanotkun og félagsleg og fjárhagsleg vandamál, nema viðkomandi aðilar séu opinberar persónur eða vilji sjálfir skýra mál sitt á vegum fjölmiðla.

Fyrirtæki teljast ekki til persóna í þessum skilningi. Til dæmis er fjallað um fjárhagsleg vandamál fyrirtækja.
Fjölmæli: Starfsmenn ritstjórnar forðast efnistök, sem stríða gegn lögum um fjölmæli.

Fríferðir: Yfirmenn ritstjórnar taka ákvarðanir um, hvort þiggja skuli ókeypis ferðir eða gistingu, og hafna slíkum boðum, ef þeim fylgja skuldbindingar. Ef efni er birt í tengslum við ókeypis ferðir eða gistingu starfsmanna ritstjórnar, er sagt frá því í textanum.

Makar, fjölskylda eða vinir starfsmanna ritstjórnar fara ekki með þeim í ofangreindar fríferðir.
Frægð: Starfsmenn og helztu aðstandendur blaðsins eru ekki frægðarfólk til umfjöllunar í blaðinu.

Gjafir: Starfsmenn ritstjórnar þiggja ekki persónulegar gjafir og segja yfirmönnum frá tilraunum til þeirra.
Greiðslur: Fréttablaðið greiðir ekki fyrir rétt til efnis nema viðurkenndum aðilum á því sviði.

Hagsmunir: Starfsmenn ristjórnar láta yfirmenn vita um hugsanlega hagsmunaárekstra vegna áhugamála sinna, félagstengsla og fjármála.

Starfsmenn ritstjórnar nota ekki upplýsingar úr starfi í eiginhagsmunaskyni, t.d. til viðskipta með hlutabréf, og skrifa ekki um fyrirtæki, sem þeir eiga í.
Starfsmenn ritstjórnar geta ekki vinnustaðar síns til að afla sér betri þjónustu úti í bæ.

Happdrætti: Starfsmenn og nánustu skyldmenni þeirra geta ekki unnið til verðlauna í uppákomum fyrir lesendur.
Heimildamenn: Starfsmenn ritstjórnar gæta trúnaðar við heimildamenn. Þeir eru hvattir til að koma fram undir nafni.

Hlutverk: Starfsmenn ristjórnar bera undir yfirmenn sína, ef þeir hafa áhuga á að taka að sér opinbert hlutverk, svo sem að stjórna fundum og vera falið að taka þátt í umræðu á fundum eða taka að sér önnur verkefni, sem gætu haft áhrif á starf þeirra á ritstjórn.

Hugbúnaður: Starfsfólk ritstjórnar safnar ekki ólöglega fengnum hugbúnaði á tölvur blaðsins.
Höfundaréttur: Orðréttra heimilda er jafnan getið.

Leiðréttingar: Efnislegar villur eru leiðréttar stuttaralega við fyrsta tækifæri, alltaf á sama stað í blaðinu. Starfsmenn ritstjórnar láta yfirmenn sína vita af gagnrýni á texta blaðsins.