0230 Sjónvarpsstíll I

0230

Blaðamennska
Sjónvarpsstíll I
Brad Kalbfeld, Assoicated Press
Broadcast News Handbook, 2001

Þegar maður les blað, sér maður heila síðu eða opnu í einu. Menn lesa textann ekki línulega og geta lesið hann tvisvar, ef þeir skilja hann ekki vel. Ef þeir eru truflaðir við lesturinn, geta þeir byrjað hann aftur að truflun lokinni.

Notkun ljósvakamiðla er allt öðru vísi. Hún er línulaga. Menn geta ekki heyrt textann aftur og geta ekki rambað fram og aftur um síður eða opnur. Menn geta ekki heyrt eða séð fréttirnar aftur á bak. Ef menn tapa þræði, er hann farinn.

Stíll:
Ernest Hemingway: “Steffens, sjáðu þetta skeyti, engin fita, engin atviksorð, engin lýsingarorð, ekkert nema blóð og bein og vöðvar. Þetta er nýtt tungumál.

Listin að skrifa sögur, fréttir eins og aðrar sögur, er að skera, skera, skera. Taktu út allt skrautið, sem þú ætlaðir að nota, taktu burt allt það sem truflar auðveldan lestur, og þú ert kominn með betri sögu. Sem sagt: Hafðu það einfalt.

Öflugur texti fyrir ljósvaka:
1) Einföld málsgrein með sagnorði í germynd.
2) Notar málvenju og myndmál talmáls.
3) Sameinar texta, hljóð og mynd.
4) Upplýsir, blindar ekki.

Allar málsgreinar í ljósvakanum eiga að segja skýrt, hver sé að tala. Beinar og óbeinar tilvitnanir. Aðeins það, sem þú hefur sjálfur séð, er án beinnar eða óbeinnar tilvitnunar. Það gerir textann trúverðugan og eykur traustið á miðlinum.

Erfiðara er að ná góðu rennsli í texta, þegar tilvitnanir eru notaðar. En það er ekki ómögulegt. Það er ekki nóg, að rennslið sé gott og sagan góð, hún þarf að vera trúverðug. Frétt er sönn, hún er ekki getgáta, hún er ekki skoðun.

Þú tekur ekki orð heimildarmanns og gerir að þínum. Þú segir, að þessi ákveðni heimildarmaður hafi sagt það. Þú veist það ekki sjálfur, það er málið. Þú staðfestir orð hans með því að ná í aðra, óháða heimildarmenn, sem segja það sama.

Þetta er sérstaklega mikilvægt í glæpa- og dómsmálum. Ef lögregla segir frá glæp, er nauðsynlegt að bera hana fyrir fullyrðingum. Ef hún segist hafa gómað þrjótinn, segir þú ekki, að hún hafi gert það, heldur hafi hún sagst hafa gert það.

Oft er nauðsynlegt að nota orðið “meintur”, þótt það sé stirt lýsingarorð. Ef einhver er talinn hafa verið myrtur, er munur á “morð” og “meint morð”. Ef einhver er ákærður fyrir það, er munur á “morðingi” og “meintur morðingi”.

Þegar orðið “meintur” er notað, er mikilvægt, að fram komi, hver meini það. Er það lögreglan, er það dómarinn, er það blaðamaðurinn, er það amma blaðamannsins? Þetta er hættulegt orð eins og “sagður”. Hver segir það?

Oft geta önnur orð komið í stað “meintur”. Góð orð eru “kærður”, “ákærður”, “handtekinn í tengslum við”, “sakaður af Jóni”. Mundu, að kærður er ekki sama og ákærður. Það fyrra á við hvaða kæranda sem er, en það síðara við opinbera ákæru.

Þú verður líka að gæta heiðarleika gagnvart öðrum miðlum. Ef þú tekur fréttaefni úr öðrum miðli, þarftu að segja: “Að sögn Morgunblaðsins í morgun.” “Samkvæmt hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.” “Í nýjasta tölublaði Hér og Nú segir, að …”

Heimildamenn vilja stundum ekki, að nafn þeirra komi fram:
1) Þeir gætu lent í vandræðum, ef frá þeim væri sagt.
2) Þeir vilja tjá sig án þess að bera ábyrgð.
3) Þeir vilja hafa áhrif án þess að aðrir viti það.

Fyrsta ástæðan er besta ástæðan og raunar sú eina, sem hægt er að viðurkenna. Tvær síðari ástæðurnar fela í sér tilraun til að misnota fjölmiðla. En því miður eru þær algengastar. Samanber ummæli David Wise:

“Nafnlaus leki er öflugt vopn,sem stjórnvöld nota til að villa fólk; til að loka á andstæðing; til að kanna stuðning við mál; til að senda öðrum landsfeðrum skilaboð; til að afla stuðnings við mann eða mál; til að neita óþægilegri sögu; til að stýra fréttum og kjósendum.”

Í Washington er daglegt braut, að embættismenn og aðstoðarmenn tali við blaðamenn og segi álit sitt með því skilyrði, að þeir séu ekki hafðir fyrir því, heldur kallaðir dulnefni: “Hátt settur embættismaður sagði …”

Mikilvægt er að fara varlega með sögur af þessu tagi og ekki viðurkenna nafnleynd nema í ítrustu neyð. Mikilvægt er, að notendur viti, hver sé heimild að hverju áliti og hvaða burði hann hafi til þess að hafa slíka skoðun.

Mundu líka að bera aðila fyrir skoðanakönnun. Ekki segja, að flokkur hafi X% fylgi, heldur, að það komi fram í könnun nafngreindrar stofnunar fyrir aðra nafngreinda stofnun. Segðu einnig, hvert sé úrtakið og hver sé skekkjan.

Sjá nánar: 
Brad Kalbfeld, Assoicated Press
Broadcast News Handbook, 2001