0214 Verklag II

0214

Blaðamennska
Verklag II

Sex reglur um tillitssemi:
1. Hve mikilvæg er fréttin? Er það í stíl blaðsins, að hún birtist.
2. Mun traust fjölmiðilsins minnka, ef hann birtir fréttina ekki?
3. Vegur almannaheill þyngra en heill ákveðinna einstaklinga?

4. Hversu viðkvæm er persónan, er hún barn, geðveik o.s.frv.?
5. Hver er stefna blaðsins í þessum málum? Oft eru til verklagsreglur um slíkt.
6. Hvað mundir þú gera, ef málið kæmi upp í þinni fjölskyldu?

Mannasiðir: Enga ókurteisi, ekki æsa fólk upp gegn þér. Framkoma getur oft ráðið úrslitum um, hvort málsaðili vilji líta á rök í málinu eða komi fram af vanstillingu. Eltingaleikur við fólk á opinberum stöðum er tvíeggjaður.

Gegnsæi: Ekki fela þig bak við fréttina. Birtu stafina þína eða netfang undir. Vertu fljótur að koma andmælum fyrir í þar til gerðum dálkum. Blaðið á að vera torg margvíslegra skoðana. Reyndu að útskýra mál fyrir fólki.

Eftirlitshlutverk: Blaðið á að vakta valdafólk í þágu almennings. Ekki forðast að taka á erfiðum málum í þjóðfélaginu. Blaðið verður að vera óþreytandi í að leita sannleikans. Blaðið á að vera fullnægjandi og sjálfu sér samkvæmt í fréttaflutningi.

Siðfræði: Blaðið fer eftir siða- og verklagsreglum. Blaðamannafélagið hefur siðareglur og nefnd, sem úrskurðar eftir þeim. Einstakir fjölmiðlar, t.d. Fréttablaðið og DV, hafa opinberlega birtar siðaskrár, sem eru nákvæmari og fela í sér gagnlegar verklagsreglur.

Skoðanir:
Leiðari á að segja eitthvað, taka afstöðu. Hann gefur fjölmiðlinum sérstöðu. Kennslubækur mæla með, að þeir séu ekki undirritaðir. Hvort tveggja er talið gilt.
Segðu skoðun í fyrstu tveimur línum leiðarans.

Ekki skrifa loðið, sem má þýða: “Þetta er mikilvæg spurning, sem þarf að rannsaka.”
Betra er að hafa afstöðu, en skrifa ekki innantóma frasa undir yfirskyni leiðara.
Ekki hafa fréttaskýringar á leiðarasíðu, þær eru annars eðlis.

Leiðarar þurfa ekki að vera óskeikulir til að koma að gagni.
Lestu blaðið til að fá efni í leiðara. Fylgstu með öðrum fjölmiðlum.
Hugsaðu. Ekkert kemur í staðinn fyrir það. Þá koma hugmyndir og stílbrögð.

Endurskoðaðu, endurskoðaðu, endurskoðaðu. Skiptu um fókus, ef þess er þörf. Skrifaðu af tilfinningu, endurskoðaðu varlega, svo að broddur textans haldist. Nýklassík: Skoðun, skráðu hana, leiktu þér að hliðarmálum, skráðu aftur skoðun.

Forðastu hagsmunaárekstra eða meinta hagsmunaárekstra þína.
Leiðarar geta líka hrósað. Oft eru leiðarar í röðum með óhóflegri gagnrýni.
Hafðu fjölbreyttar skoðanir í greinum á leiðarasíðunni. Sem eru ósammála leiðaranum.

Forðastu dauðar fyrirsagnir, svo sem “Staðsetning óperunnar”.
Notaðu heldur: “Alls staðar nema þarna”. Vinnuheiti má ekki verða að fyrirsögn.
Mundu, að það er síður en svo nokkurt skilyrði, að leiðari sé leiðinlegur.

Fræði: Íslenska, stílfræði, bókmenntir, sagnfræði, stjórnmálafræði, hagfræði, félagsfræði, sálfræði, stærðfræði, raunvísindi, lögfræði (skortur á þekkingu á hugtökum). Sífellt vantar blaðamenn, sem hafa lært fræði og skilja framsetningu þeirra.

Pólitík, landsmál og bæjarmál, eru kjarni dagblaða. Fréttir af slíku eru helsti upprunalegi tilgangur margra fjölmiðla. Oft er hér á landi vanrækt að skrifa um þau mál, sem standa fólki næst, svo sem bæja- og sveitarstjórnarmál.

Segið frá persónum og leikendum í pólitík, látið persónur fronta málefnin. Hvaða áhrif hafa gerðir þeirra á líf lesenda. (hærri skattar?, betri skólar?). Skoðið fréttirnar að baki fréttanna. Hafið sjónarhorn lesandans í huga.

Viðskipti og menntun, heilsa og tækni. Hvað gerist bak við tjöldin í fyrirtækjunum? Hvað gerist í skólastofunum að baki funda á kennarastofu?
Hvernig hafa sjúklingar það að baki valdabaráttu heilbrigðisstétta?

Greinar fylla út í þá mynd, sem fréttir hafa gefið. Fréttir eru þó mikilvægari en greinar, sem eru ekki uppslættir, heldur útskýringar á uppsláttum, tengdar uppsláttum. Sjálfstæðum staðreyndum er raðað saman í skiljanlegar heildir.

Mesti kostur fjölmiðla er NÚ-ið, en lesandinn vill meira, t.d. að svið séu dekkuð (t.d. matur, húsnæði, fjölskylda, menntun, vinna, peningar, kynlíf, tilhugalíf, sjálfsbati, föt, bílar, trú, umhverfi, veður, frístundalíf).

Allar ritstjórnir þurfa rækilegar verklagsreglur.
Sjá nánar: Malcolm F. Mallette,
Handbook For Journalists, 1998