0207 Ljósmyndir

0207

Blaðamennska
Ljósmyndir

Myndir: 1. Atburðamyndir:
Heppni skiptir miklu máli. Margir geta tekið fyrirvaralaust myndir á síma, en þær geta bara orðið eindálkur í blaði. Myndir af vefnum verða líka litlar. Vel heppnaðar atburðamyndir eru hornsteinn í fjölmiðli.

2. Skipulagðar myndir:
Það eru myndir, sem pantaðar eru í tengslum við efni, sem fyrirhugað er í blaðinu. Þær eru yfirleitt ekki tengdar neinum tímasettum atburði og gefa oft færi á spennandi, yfirvegaðri og listrænni myndatöku.

3. Portrett:
Fjölmiðlar eru fullir af andlitsmyndum. Þær fara í safn, sem sótt er í, þegar birta þarf mynd af manni án mikillar fyrirhafnar. Smám saman verða slíkar myndir leiðigjarnar, svo að nauðsynlegt er að endurnýja þær.

4. Myndaklisjur:
Langur listi er til yfir ömurlegar myndir. Þær verða til, þegar ljósmyndari er sendur án fullnægjandi leiðbeininga. Slíkar myndir eru óvenjulega algengar í fjölmiðlum hér á landi. Sex þekkt dæmi um slíkt fylgja hér á eftir.

1. Tvær persónur rétta út hendina, heilsast og horfa í myndavélina.
2. Tvær persónur halda á pappír milli sín til að tákna kaup og sölu.
3. Þrjár persónur sitja við hlut á borði, tveir horfa á hann og einn í vélina.

4. Tvær persónur heilsast og halda á plakati, bikar eða vottorði.
5. Meirihluti myndflatarins sýnir hlutlausan vegg eða vegg með málverki.
6. Mynd í sjónvarpi af útidyrum stofnunar eða af skýringartöflu í inngangi.

Þegar myndataka er pöntuð á efnisstjórinn að láta 25 orða skýringar fylgja með.
Ljósmyndari, sem fær slíka leiðsögn, er miklu betur settur en hinn, sem fær bara miða með stað og tíma. Hann skilur betur, hver er tilgangur myndarinnar.

Flestar myndir hafa eina eða fleiri kraftlínur, t.d. þriðjungaskiptingu myndflatar. Ekki má eyða þeim í umbroti. Hægt er að gera lóðrétta mynd að láréttri, ef umbrot krefst þess. Betra er þó að til séu tvær myndir. Einnig bæði þröng mynd og mynd með víðu sjónarhorni.

Orð geta staðið án mynda, en myndir í dagblaði geta ekki staðið án orða. Letur myndatexta er annað en meginletrið, oft steinskrift í stað antíkvu.
Muna að láta fylgja nafn eða einkenni ljósmyndarans, t.d. vegna réttinda.

Fimmtán reglur um myndaval:
1. Breyttu sjónarhorni, skjóttu á hlið eða að neðan. Ekki beint að framan. Fáðu nýtt sjónarhorn.
2. Fáðu hreyfingu í myndina. Láttu fólk vera að gera eitthvað.
3. Notaðu fylgihluti, draga athygli myndefnisins frá myndavélinni.

4. Hafðu myndina þétta. Forðastu dauða veggfleti milli hausa.
5. Hver mynd á aðeins að hafa einn fókuspunkt. Annað dreifir athyglinni.
6. Takmarkaðu fjölda fólks á mynd eins og hægt er. Ekki hafa tíu manns.

7. Hafðu fólk á myndunum. Fólk vill skoða fólk.
8. Hafðu auga fyrir skapi fólks. Glaður svipur hentar ekki sorglegum viðburði.
9. Gerðu kröfu til tæknilegra gæða. Myndir séu ekki úr fókus eða illa lýstar.

10. Myndir eiga að segja eitthvað, ekki bara vera til.
11. Athuga þarf, hvort aðrar myndir en ljósmyndir komi til greina.
12. Fáar vel valdar myndir eru betri en margar myndir.

13. Efnisstjórinn þarf að hafa auga fyrir myndamöguleikum efnis.
14. Gæði forskriftar þarf að leiða til, að ljósmyndari skilji óskirnar.
15. Hundar, börn, hestar, fólk hafa mest áhrif, einnig sérkennilegar myndir og gamansamar.

Tólf reglur um myndskurð:
1. Myndskurður er beztur þröngur. Taktu kjarnann, fleygðu hinu.
2. Láttu kraftlínur myndarinnar halda sér. Klippa þarf með gætni.
3. Hafðu einn fókuspunkt á myndinni. Klipptu út mann, sem horfir í aðra átt.

4. Hafðu sjóndeildarhringinn láréttan. Láttu ekki heiminn hallast.
5. Hafðu auðvelt að lesa myndina. Örvar, hringir settir inn til skýringar
6. Farðu varlega í að leggja efni, fyrirsagnir ofan í órólega myndfleti. Getur komið illa út.

7. Reyndu óvenjulegar stærðir, háar eða breiðar, mjóa eindálka, lága fimmdálka.
8. Fylgstu með heildarstærð myndarinnar við breytta dálka.
9. Ekki skera af höfuð eða hluta höfuðs, eyru, höku. Slíkt truflar lesandann.

10.Leitaðu eftir myndaseríum, einkum af fólki. Passaðu að hafa sömu höfuðstærð.
11.Blanda ljósmynda og teikninga getur virkað vel, t.d. af hönnun.
12.Gættu þess, að myndatextinn breytist í samræmi við myndskurð.

Sjá nánar: Malcolm F. Mallette,
Handbook For Journalists, 1998

Verkefni:
Taktu ljósmynd, sem fullnægir kröfum, sem gerðar eru í þessum fyrirlestri.