0226 Sjónvarpsvinnsla I

0226

Blaðamennska
Sjónvarpsvinnsla I
Brad Kalbfeld, Assoicated Press
Broadcast News Handbook, 2001

Framleiðendur, skrifendur, blaðamenn og fréttastjórar sitja á fréttastofunni, deila út verkefnum og hafa mikið um að segja, hvað fer í loftið. Þeir fjalla um fleiri mál en hinir, sem eru í útköllum, og eru áhrifameiri í bransanum.

Þessir aðilar taka viðtöl á staðnum, velja skurð í myndvinnslu og eru þulir með myndskeiðum. Framleiðendur velja myndbönd og ritstjórar setja fréttir saman í heildstæðan pakka. Framleiðendur velja efni úr aðkeyptum pökkum.

Svo eru akkerin eða fréttaþulirnir í útvarpi og sjónvarpi, sem taka þátt í að velja, skrifa og raða saman fréttatímum og eru þar þulir. Allir þessir aðilar taka þátt í fréttamati og eru eins mikilvægir og blaðamenn úti á vettvangi.

Síminn er mikilvægasta tæki blaðamannsins, sérstaklega í útvarpi, þar sem viðtal er aðeins í sjö tölustafa fjarlægð. Meira af útvarpsfréttum kemur um símann heldur en af vettvangi. Meira að segja vettvangsmenn eru mikið í símanum.

Notkun símans er fag út af fyrir sig. Það er ekki gefið, að viðtalsefni komi með góða hljóðbita í símtali eða aðrar góðar upplýsingar. Erfitt er að finna fólk, sem hefur séð atburð og getur líka tjáð sig. Menn verða að vita, hvar skal leita.

Vitni að atburði má finna í símaskránni á vefnum, þar sem leita má eftir götunúmerum að nágrönnum atburðarins. Þegar uppreisnin var í Manila 1989, hringdi AP í fólk eftir götum og náði í enskumælandi mann, sem sá atburðina út um glugga.

Fyrst með faxinu og enn frekar með tölvupóstinum fór að berast inn skæðadrífa af fréttatilkynningum. Þær má nota, en ekki setja í loftið. Aldrei má skrifa sögu, sem byggist eingöngu á fréttatilkynningu. Hún er einhliða, hlutdrægt gagn.

Of margar útvarps- og sjónvarpsfréttir byrja og enda með öðru sjónarmiðinu í umdeildu máli. Ef þú ert með fréttatilkynningu í höndunum, þarftu að hringja í þá, sem sjá aðrar hliðar á málinu, til að fá fullnægjandi mynd af málinu.

Sérstaka gætni þarf við að umgangast vefinn. Við verðum að vita, hver á vefinn og hver setur þar inn upplýsingar. Við þurfum að geta metið, hvort óhætt sé að treysta slóðinni og við þurfum að vísa til hennar í fréttinni sem heimildar.

Róttækir einstaklingar af ýmsu tagi stofna gervifélög með traustvekjandi heiti og gera fullyrðingar sínar gjaldgengar sem óhlutdrægar. Sumir birta kannanir, sem við vitum ekki, hvernig eru gerðar eða hvort þær hafa verið gerðar.

Tölvupóstur er þægilegur. En margir geta falið sig bak við netfang. Notaðu því tölvupóst aðeins þegar nauðsyn krefur og segðu notendum frá því, að þessar upplýsingar hafi komið í tölvupósti.

Fréttastofufréttir eru mikið notaðar erlendis. Þær koma inn sjálfkrafa og flokkast sjálfkrafa, þegar þær koma. AP sendir sex milljón orð á dag. Það er auðvelt að drukkna í þessu flóði. Menn þurfa reynslu til að átta sig fljótt.

Fréttir frá AP eru í dagblaðastíl. Þær eru sögur með ótal smáatriðum og alls konar beinum tilvitnunum. Inngangur slíkra frétta er yfirleitt með efni, sem líklegt er að verði í fyrirsögnum dagblaða næsta morgun.

Þetta hentar ekki beint í ljósvakamiðil, sem birtir fréttina samdægurs. Þar er skipt um inngang og sett inn nýjasta vendingin í viðkomandi máli. Þessi vending skiptir ekki miklu máli í blaði morgundagsins, en skiptir ljósvakann máli núna.

Dagblað segir fréttir gærdagsins í þátíð og hefur yfirsýn yfir allan gærdaginn í senn. Ljósvakamiðill segir fréttir líðandi stundar í nútíð og hefur fókusinn tiltölulega þröngan á því, sem er nýjast eða mest spennandi hverju sinni.

Sumir ljósvakamenn falla í þá gryfju að nota dagblaðastílinn óbreyttan, skipta bara úr þátíð og nútíð og færa nafn hins tilvitnaða fram fyrir tilvitnunina. Betra er að lesa dagblaðafréttina, leggja hana til hliðar og skrifa upp á nýtt.

Takmark þitt er að upplýsa. Þú verður að hafa staðreyndirnar í lagi. Hlutlægni felst í að hafa nákvæmlega endurspeglað hin ýmsu sjónarmið á sögu og látið notendum eftir að draga af því ályktanir. Þú þarft líka að skilja eðli miðilsins.

Útvarp: Styrkleiki þess felst í hraða þess, rauntímanum.
Sjónvarp:
1) Sögur með myndskeiði
2) Sögur til upplestrar, svipaðar útvarpi.

Fréttir eru oftar sagðar en áður. Sumar stöðvar segja fréttir á klukkutíma fresti, sumar segja fréttir í sífellu. Í öllum tilvikum ljósvakans eru sögurnar færri og styttri en í prentmiðlum og koma ekki í staðinn fyrir prentsögur.

Sjá nánar:
Brad Kalbfeld, Assoicated Press
Broadcast News Handbook, 2001