0216 Siðaskrá Fréttablaðsins II

0216

Blaðamennska
Siðaskrá Fréttablaðsins II

Ljósmyndir: Breyttar og samsettar ljósmyndir eru sérstaklega auðkenndar sem slíkar.
Málfar: Texti blaðsins er skrifaður á góðri íslenzku, sem er skiljanleg öllum almenningi, en ekki á sérmáli stofnana eða stétta.

Meðmæli: Starfsmenn ritstjórnar mæla ekki með vörum og þjónustu í auglýsingum án leyfis yfirmanna.
Myndbirtingar: Sömu reglur gilda og um nafnbirtingar (sjá hér að neðan).

Nafnbirtingar: Í tengslum við kærur, ákærur og dóma eru fremur birt nöfn manna í líkamlegum ofbeldismálum heldur en í málum af fjárhagslegum toga.

Hafa verður þó í huga, að í síðara tilvikinu er nafnleynd oft marklítil, af því mörg fjárhagsleg mál tengjast atvinnurekstri á þann hátt, að nöfn manna eru þegar kunn þeim, sem vita vilja eða nota viðskiptahandbækur.

Þegar persónur sæta kæru, fer eftir mikilvægi málsins og kringumstæðum þess, til dæmis brotasögu viðkomandi aðila, hvort aðilar eru nafngreindir.

Almenna reglan er sú, sem notuð er í yfirgnæfandi meirihluta tilvika, að birta ekki nöfn á slíku stigi. Undantekningar gætu verið margdæmdir síbrotamenn í ofbeldismálum eða forsvarsmenn og aðrir talsmenn nafngreindra fyrirtækja.

Ef um opinbera ákæru er að ræða, eru meiri líkur á, að aðilar séu nafngreindir, en eigi að síður þurfa birtingarástæður í því tilviki að vera nokkuð knýjandi. Dæmi um það væri ákæra á mann með brotasögu í ofbeldismálum eða lykilmaður í nafngreindu fyrirtæki.

Þegar dómar eru birtir, eru aðilar málsins yfirleitt nafngreindir, enda er þá ekki lengur um einkamál að ræða. Undantekningar byggjast einkum á hagsmunum brotaþola í málinu. Dæmi um það gætu verið í sifjaspellsmálum.

Stundum er frestað birtingu nafna um tíma, einkum fólks, sem farizt hefur í slysum. Þetta gerir blaðið í samráði við aðra aðila, sem koma að málinu, svo sem presta. Slík frestun kemur síður til greina, ef hún gæti valdið óþægindum hjá aðstandendum annara, sem af komust í slysinu.

Ekki eru birt nöfn þolenda kynferðisbrota.
Ekki verður komið í veg fyrir, að þessar reglur skilji eftir grá svæði. Í slíkum tilvikum ræða yfimenn á ritstjórn sín á milli, áður en ákvörðun er tekin.

Nákvæmni: Starfsmenn ritstjórnar gæta þess, að rétt sé farið með hvert smáatriði í blaðinu.
Nýbúar: Sérstök aðgát er höfð við að geta uppruna eða þjóðernis fólks, ef það varðar ekki málsefni.

Orðaval: Ekki eru notuð móðgandi orð eða blótsyrði utan beinnar ræðu nema málefnið kalli beinlínis á slíkt. Um slík atriði er rætt við yfirmenn ritstjórnar.

Óhlutdrægni: Ekki er dreginn taumur málsaðila í fréttum. Gætt er jafnvægis milli sjónarmiða innan skamms tímabils. Forðast er að skrúfa einhliða frá krana eins sjónarmiðs í einu tölublaði án þess að geta hinna sjónarmiða málsins í leiðinni.

Rannsóknir: Hafa þarf tvo sjálfstæða heimildarmenn frá fyrstu hendi að sérhverri viðkvæmri frétt, sem fæst með aðferðum rannsóknablaðamennsku.
Viðkomandi yfirvald getur talizt vera næg heimild, þótt það sé eitt til frásagnar.

Það telst ekki vera heimildarmaður, sem ber frétt milli heimildarmanns og rannsóknablaðamanns. Viðkvæm er sú frétt, sem hlutaðeigendur reyna af einhverjum ástæðum að halda leyndum fyrir fjölmiðlum eða getur orðið tilefni málsóknar á hendur fjölmiðlinum eða starfsfólki hans.

Reglan nær ekki aðeins til frétta, sem ætlunin er að halda leyndum yfirleitt, heldur líka til þeirra frétta, sem ætlunin er að gefa frjálsar að ákveðnum umþóttunartíma liðnum.

Ritskoðun: Enginn fær send afrit af óbirtum fréttum. Stundum eru kaflar lesnir upp fyrir fólk, þar sem vitnað er í það sjálft. Ekki er aflað viðtals með því að gefa kost á ritskoðun viðtalsins.

Segulbönd: Starfsmenn ritstjórnar nota ekki leyndan hlerunarbúnað. Viðtöl eru tekin á segulband til að tryggja nákvæmni í efni blaðsins.
Sjálfsvíg: Ekki er sagt frá sjálfsvígum sem slíkum í blaðinu.

Sorg: Farið er varlega að fólki, sem hefur orðið fyrir áfalli.
Traust: Starfsfólk ritstjórnar gætir þess í öllum sínum verkum að efla traust lesenda á fjölmiðlinum og starfsfólki hans.”