0227 Sjónvarpsvinnsla II

0227

Blaðamennska
Sjónvarpsvinnsla II
Brad Kalbfeld, Assoicated Press
Broadcast News Handbook, 2001

Miðlarnir bæta hver annan upp. Ljósvakinn hefur tíðnina, rauntímann, skúbbin, tilfinningarnar. Prentmiðillinn hefur smáatriðin, bakgrunninn og dýptina. Hver miðill þarf sínar sérstöku aðferðir í skrifum.

Texti í útvarpi og sjónvarpi er skrifaður fyrir eyrað. Hver saga þarf að vera skiljanleg í fyrstu atrennu. Gerð sögunnar þarf að vera einföld. Hver málsgrein þarf að fljóta eðlilega inn í aðra. Eins og persóna mundi hugsa söguna gerast.

Málsgreinar eiga að vera stuttar. Hver þeirra á aðeins að segja einn punkt. Ef málið er svo flókið, að málsgreinar verða lengri en venjulega, eiga þær að klippast niður í auðmeltanlegar málsgreinar.

Sögur nota myndir úr daglegu lífi. Allir bera í huga sér minningar um það, sem þeir hafa séð og fundið til. Bestu sögurnar nota þessar myndir til að sýna eðli atburðar. Galdurinn við það er að nota ekki klisjur sem verkfæri til þess.

Stíllinn er samræða. Við notum orðalag venjulegra samræðna. Við notum þó ekki slangur nema í sérstökum tilvikum, né heldur ranga málfræði. Fréttirnar eru skrifaðar á eðlilegu og auðskiljanlegu talmáli, sem skilst í einni umferð.

Allar fullyrðingar í sögunni eru í beinni eða óbeinni tilvitnun, nema blaðamaðurinn hafi séð það sjálfur. Tilvitnanir eiga að vera ofarlega í sögunni. Fyrst kemur nafnið og svo kemur tilvitnunin, öfugt við röðina í prentmiðlum.

Við skrifum í nútíð, sérstaklega í inngangi. Núliðin tíð er betri en þátíð. Við skrifum um það, sem er að gerast eða hefur gerst, en dagblöðin skrifa um það, sem gerðist í gær. Við skrifum: Jón er í Reykjavík. Jón hefur farið suður.

Augljós efni í sögur eru stórslys af völdum manna og náttúru, stríð og friður, þjóðmál og alþjóðamál, glæpir og refsing, peningar og lífsstíll, umhverfi og mengun, spilling og hneyksli, vísindi og heilbrigði.

Fólk vill líka tala um hluti, sem það hefur áhuga á, þótt þeir snúist ekki um líf og dauða. Þetta eru sögur, sem fólk talar um við kaffivélina. Þær snúast um frægt fólk, svo sem í sporti og skemmtibransanum, en líka um skemmti- og furðusögur.

Erfiðara er að skilgreina sögur, sem fólk ætti að tala um. Þar er fjallað um ferli, sem mun hafa áhrif á líf okkar síðar, hagþróun, sumartísku, málaferli. Þitt hlutverk er að útskýra, af hveru þetta séu mikilvæg mál.

Fólk opnar ekki fyrir útvarp eða sjónvarp til að komast að, hvað gerðist í síðustu viku. Það opnar til að komast að, hvað sé að gerast núna. Því yngri sem sagan er, þeim mun betri er hún. Hvað gerðist og hvenær eru mikilvægustu atriðin.

Einnig þarf að hafa í huga í fréttaskrifum, að fréttatímar þjóna misjöfnu hlutverki. Morgunfrétt í sjónvarpi er annað en kvöldfrétt. Fréttaútvarp á annatíma umferðar á morgnana eru annað en hádegisfréttir.

Oftast vilja menn vita, hvað er að gerast núna. Stundum vilja þeir vita, hvað gerðist í nótt, þegar þeir sváfu. Stundum vilja þeir vita, hvað gerðist, þegar þeir voru í vinnunni. Þessir þarfir koma með misjöfnum þunga yfir daginn.

Frægðarfólk skiptir meira máli en óþekkt. Ef Eiður Smári lendir í bílslysi, er það meiri frétt, en þegar Smári Eiður lendir í slíku. Gætið ykkar, almannatenglar reyna að beita frægðarfólki til að vekja athygli á málefni, vöru eða þjónustu.

Sumar sögur gerast ekki bara einu sinni, heldur rísa og hníga í öldum. Allir, sem skrifa fréttir eða stýra þeim verða að fylgjast með. Þú verður að þekkja alla sögu máls til að sjá, hverning ný vending í því fellur að fréttaþörfum dagsins.

Væntingar notenda skipta máli. Ef Bandaríkin og Íran semja um kjarnorkumál, er það frétt, af því að hún kemur á óvart. Ef þau deila hins vegar um slík mál, kemur það engum á óvart og fréttagildið er þeim mun minna.

Hverja sögu þarf að skoða í samhengi fréttanna í heild. Stór frétt lyftir upp litlum fréttum á skyldu sviði. Daginn, sem hryðjuverk er framið í flugvél, verður frétt um nýtt málmleitartæki á flugvöllum meiri frétt en hún væri ella.

Notendur ljósvakamiðla eru ekki óbreytanlegir. Kynslóðir koma og fara, skoðanir koma og fara, tíska kemur og fer. Blaðamenn þurfa að átta sig á þessum breytingum og geta lagað sögur sínar að breyttum aðstæðum í samfélaginu.

Inngangur fréttar stýrir gerð hennar. Eftir því sem inngangurinn breytist, þá breytist gerðin líka. Þú byrjar á því nýjasta eða mikilvægasta, en þú skilur ekki eftir áður sagðar upplýsingar, sem enn skipta máli. Inngangurinn stýrir þessu.

Sjá nánar:
Brad Kalbfeld, Assoicated Press
Broadcast News Handbook, 2001