0430 Fréttatilkynningar

0430

Fréttamennska
Fréttatilkynningar

Blaðamenn mega nota almannatengla, en mega ekki láta almannatengla nota sig. Mikið af almannatenglum koma úr blaðamennsku og þekkja þau vinnubrögð. Í almannatengslum eru félagsvísindi notuð í bland við samskiptatækni.

Fjöldi fyrirtækja, samtaka og stofnana hafa almannatengla á sínum snærum. Ein af sérgreinum almannatengla eru ræðuskriftir fyrir stjórnmálamenn og önnur aðstoðarmennska við pólitíska aðila, til dæmis svonefndar spunakerlingar.

Mikið af sögum blaðamanna eru byggðar á fréttatilkynningum. Þær eru notaðar, ef þær eru fréttnæmar, hafa athyglisverðan inngang, eru nákvæmar, áhugaverðar og eru heimildir fyrir fréttir, sem koma á eftir.

Michael Levine sagði: Almannatengsl snúast um að borga ekki fyrir auglýsingu. Harold Burson sagði: “Okkur er borgað fyrir að segja hlið skjólstæðings okkar á málinu. Starf okkar felst í að breyta viðhorfum og móta þau.”

Public Relations Society of America gefur út siðareglur. Þar segir m.a. “Vertu heiðarlegur og nákvæmur í allri miðlun. Vertu fljótur að leiðrétta rangar upplýsingar, sem eru á þína ábyrgð.

Molly Wright segir: “Mikilvægast við fréttatilkynningu er, að hún verður að fela í sér frétt.” Þú verður að hugsa eins og blaðamaður: “Ef þú trúir, að efnið sé hrífandi og áhugavert, er líklegt að svo sé líka um blaðamanninn.”

Venja er, að aftast í fréttatilkynningunni séu upplýsingar um útgefandann. Oft fela tilkynningar aðeins í sér örstuttan texta um aðstæður eða væntanlegan atburð, rétt eins og frétt fyrir sjónvarp.

Þú verður að hafa fókus á markmiði almannatengsla. Af hverju er þessi tilkynning gefin út? Hvaða árangri ertu að reyna að ná? Er hún fræðandi? Er hún sjálfshrós? Er hún innlegg í umræðu? Hverjum er hún ætluð og hverjir flytja hana þangað?

Þegar þú hefur ákveðið, hvað tilkynningin á að segja, þarftu að afla nægra upplýsinga: Hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo.

Judyth Berthiaume sagði: Ekki grafa innganginn, blaðamenn hafa ekki tíma til að leita að honum. Hafðu efnið stutt og einfalt. Forðastu klisjur faghópa, sem enginn skilur. Hafðu upplýsingarnar réttar.

Spurðu sjálfan þig að þessu:
1) Er skipulag og tilgangur með textanum?
2) Er sjónarhóllinn skýr?
3) Eru skilaboðin skýr og snúast um kjarna málsins?

4) Er samræmi í stemmningunni og í tóninum?
5) Er samræmi í tíðum sagnorða?
6) Rennur textinn áreynslulaust frá einum kafla til annars?

Á fjölmiðlinum eru hliðverðir, sem gera eitt af þessu:
1) Fleygja í ruslakörfuna.
2) Nota tilkynninguna beint.
3) Skrifa upp úr henni.
4) Nota hana sem grunn að sögu, sem blaðamaður skrifar.

Algengt er, að lítil dagblöð og litlar stöðvar noti fréttatilkynningar hráar. Það gerir höfund tilkynningarinnar hamingjusaman, en veldur miðlinum og höfundinum vandræðum, ef gallar reynast vera á tilkynningunni, sem er þá ófullnægjandi.

Munur er á þeim, sem býr til fréttatilkynningu, og á hinum, sem notar hana í miðil. Sá fyrri þjónar skjólstæðingi sínum, en sá síðari þjónar almenningi.

Tékklisti forms:
1) Nafn aðilans, sími, fax og netfang.
2) Nafn mannsins, sem er með málið, sími hans, fax og netfang.
3) Hvenær birta má.

4) Fyrirsögn, ekki í hástöfum.
5) Breiðar spássíur.
6) Ein eða tvær síður.
7) Nöfn og heimilisföng fólks, sem taka má viðtöl við.

Tékklisti innihalds:
1) Beint fréttaform, öfugur píramídi.
2) Mannleg áhugamál.
3) Tilvitnanir.

4) Skrifað fyrir sértækan hóp eða almenning.
5) Sent ákveðnum persónum á miðlunum.
6) Í samræmi við stílbók Associated Press.

7) Hlutlæg, felur ekki í sér skoðanir eða dóma höfundar, forðast ýkjur.
8) Sannreynd stafsetning nafna, nákvæmni tímasetninga, heimilisfanga, símanúmera.
9) Fréttnæm.

Lestu yfir tilkynninguna og lagaðu hana:
1) Er þemað mitt í innganginum?
2) Hef ég siglt með þemað strax eða flotið að öðru þema?
3) Eru allar lykilupplýsingarnar inni?