0413 Murdock og Graham

0413

Fréttamennska
Murdock og Graham

Reglurnar átta um fréttnæmi lifa ekki í lofttómu rúmi. Beiting þeirra byggist á þeim, sem ákveða, hvað séu fréttir heima í héraði, á hefðum dagblaðsins eða stöðvarinnar, á lesendum þeirra, hlustendum og áhorfendum.

Þegar tímarnir eru góðir og auglýsendur keppast um að fá gott pláss, eru ritstjórnir fjölmennar og leita víða fanga. Þegar hagur versnar, er útibúum lokað og starfsfólki fækkað. Sumar fréttir eru þá alls ekki lengur skrifaðar.

Með tilfærslu fleiri fjölmiðla í keðjur, sem skráðar eru í kauphöllum, aukast kröfur um arðsemi. Blaðamenn eru þá taldir vinna á auglýsingamiðlum, ekki á fréttamiðlum. Litið er á fréttir sem síðufyllingar utan um auglýsingar.

Dreifingarmiðlar.
Ekki líður sá mánuður, að ekki fréttist af, að auglýsandi hafi hætt vegna frétta. Daily News skýrði frá, að meira en helmingur stórmarkaða í borginni uppfyllti ekki heilbrigðiskröfur. Allir stórmarkaðir nema einn hættu að auglýsa í blaðinu.

Blaðið baðst afsökunar á greininni, sem var rétt í öllum einstökum atriðum. Birt var fjögurra síðna auglýsing, sem skreið á fjórum fótum fyrir stórmarkaðina. Þá sagðist einn koma aftur, ef ritstjórinn og blaðamaðurinn yrðu reknir.

Washington Post birti frétt um samsæri fasteignabraskara og sparisjóða um að okra á leigjendum í miðborginni. Sparisjóðirnir fréttu af þessu og sögðu aðalritstjóranum, að þeir mundu hætta að auglýsa í blaðinu, ef sagan birtist.

Ben Bradlee ritstjóri horfði bara á blaðamanninn og sagði: “Passaðu þig að hafa öll atriði rétt.” Heill greinaflokkur birtist í blaðinu og sparisjóðirnir hættu að auglýsa þar. Þannig varð Washington Post af 50 milljón króna auglýsingatekjum.

Þegar eigendum vörusýningar líkaði ekki tónninn í grein í Home Accents Today um endurfjármögnun skulda hennar og létu tímaritið vita um óánægju sína, reif starfsfólkið greinina út úr öllum eintökum, sem ekki hafði þegar verið dreift.

Þegar Hollywood Reporter sagði nýja kvikmynd með Brad Pitt vera þjóðfélagslega óábyrga, hætti 20th Century Fox við að auglýsa í blaðinu. Menn þurfa ekki að vera hissa, þótt lélegum og andstyggilegum bíómyndum sé hossað í fjölmiðlum.

Russ Baker segir: Rupert Murdock notar eignir, sem fela í sér dagblöð, tímarit, sjónvarpsstöðvar, íþróttafélög, kvikmyndaver og bækur til að efla hagsmuni sína á kostnað fréttnæmra atburða, laga og reglna og siðareglna fjölmiðla.

Hann beitir fjölmiðlum sínum til að afla sér sambanda við stjórnmálamenn, sem geta hjálpað honum og ræðst af grimmd á samkeppnisaðila í fréttum. Ef einhver sannar hættuna af samþjöppun valds í fjölmiðlum, þá er það Murdock.”

BBC birti þætti um mannréttindabrot í Kína. Stjórnin þar kvartaði við Murdock, sem átti kapalinn. Hann tók BBC af kaplinum. HarperCollins ætlaði að gefa út bók eftir Chris Patten, fyrrum landstjóra í Hong Kong. Murdock skrúfaði fyrir það.

Þegar James Jeffords öldungadeildarmaður fór úr flokki repúblikana og varð óháður, lét Murdock New York Post birta falsaða ljósmynd af Jeffords, svo að hann liti út eins og Benedict Arnold landráðamaður. og kallaði hann Benedict Jeffords.

Katharine Graham, útgefandi og eigandi Washington Post, er andstæðan við Murdoch. Þegar blaðið átti sem erfiðast í Watergate-málinu og Nixon forseti hótaði að taka sjónvarpsleyfi af fyrirtækinu, stóð hún föst fyrir og neitaði að hlýða.

Hendik Hertzberg skrifaði um hana: “Hugrekkið, sem hún sýndi gagnvart alvarlegri og í þann tíma ógnandi misbeitingu valds, gerði lýðræðið meira skuldbundið henni en flestum öðrum, ef ekki öllum blaðaútgefendum í sögu Bandaríkjanna.”

Eigendum fjölmiðla fækkar. Fyrirtækin verða færri og stærri. Fyrir hálfri öld áttu fjölskyldur flesta fjölmiðla. Nú eru fjögur dagblöð af hverjum fimm í eigu keðja. Fjölskyldurnar voru ánægðar með 10% arð. Keðjurnar vilja tvöfalt meira.

Afleiðingin hefur orðið niðurskurður á ritstjórnum. Útvarpskeðja með hundruðum stöðva hefur engan starfsmann á flestum útvarpsstöðvunum. Sum dagblöð og stöðvar grafa áfram og veita notendum upplýsandi blaðamennsku. Það fer eftir hefðinni.

Kunkel og Roberts: “Miðað við útgáfu nærri 1500 dagblaða í Bandaríkjunum og miðað við, að flest þeirra skila vænum hagnaði, er hlutfall gæða ögursmátt. Venjulegt dagblað er nú sveitalegt miðlungsblað. Og þróunin er áfram versnandi.”

Sjónvarpsnetin standa höllum fæti. Áhorfendum hefur fækkað, þeir hafa flutst á kapalinn. Rannsóknir benda til, að áhorfendur á morgnana vilji minna af fréttum úr stjórnmálum og utanríkismálum og meira um glæpi, lífsstíl og frægðarfólk.

National Public Radio, sem þykir nokkuð gott, höfðar til fólks á aldrinum 25-54 ára, sem hefur háskólagráður og helmingur þess yfir fimm milljón króna árstekjur.

Aukning í notkun verður helst hjá neðanjarðarblöðum og tímaritum aðfluttra þjóðerna. Meðan útbreiðsla dagblaða á ensku hefur minnkað um 11% á 15 árum hefur útbreiðsla slíkra blaða á spönsku þrefaldast.

Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006