0401 Kennslubókin

0401

Fréttamennska
Kennslubókin

Aðalheimild:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10. útgáfa 2006

Þetta er öflugasta kennslubók fyrir háskólanám í blaðamennsku, sem til er, eftir reyndan blaðamann innanlands og utan og prófessor við Columbia-háskóla, Melvin Mencher. Hún er ítarlegri en flestar slíkar og hefur komið út í tíu útgáfum.

Bókin hefur nánast fullt gildi hér á landi. Flestar aðstæður eru svipaðar á Íslandi og í Bandaríkjunum, umhverfi blaðamennsku er svipað, kröfur um stíl í blaðamennsku eru svipaðar og siðferðiskröfur til blaðamanna eru svipaðar.

Sjálfstraust óheflaðra og ögrandi blaðamanna vekur reiði og andúð. Næturverðir almennings eru undir eftirliti og sæta árásum fyrir uppljóstranir sínar. Ef sannleikurinn er ekki fagur, líkar mörgum ekki við það, sem blaðamaðurinn segir. Fólk hafnar skrifunum.

Í þessari kennslubók er litið á blaðamennsku sem þjónustu við samfélagið, af því að hún uppfyllir þarfir fólks með því að láta það hafa upplýsingar, sem það þarf að hafa til að geta tekið ákvarðanir. Við erum arftakar Charles Dickens.

Charles Dickens (1812-1870) gaf út fréttablað. Hann heimsótti hæli fyrir munaðarleysingja, skrifaði um heimilislausar konur. Hann gekk um göturnar og lýsti því, sem hann sá. Hann var fyrsti þekkti rannsóknablaðamaðurinn.

Þegar Albert Camus tók við nóbelnum, sagði hann: “Hver sem vanmáttur okkar er, mun göfgi starfs okkar alltaf eiga sér rætur í tveimur boðorðum, sem erfitt er að fylgja: að neita að ljúga um það, sem við vitum, og veita andspyrnu gegn kúgun.

Góður blaðamaður sættir sig ekki við yfirborð fréttanna. Hin knýjandi skylda blaðamannsins er að grafa upp sannleikann. Ralph M. Blagden sagði, að ekki væru til neinar tegundir blaðamennsku, það sé aðeins til rannsóknablaðamennska.

Ben Bradlee, ritstjóri Washington Post, sagði um Blagden: “Ralph kenndi mér að vera ósáttur við svör og óþreytandi við spurningar. Hann kenndi mér að koma auga á fauta og veita þeim andspyrnu. Hann kenndi mér þolinmæði og sólarhringsvinnu.”

Undirstöðuregla frétta:
Hver (gerði, sagði) hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo?
Hefðbundin blaðamennska gerir ráð fyrir, að fréttir svari öllum þessum spurningum. Sjónvarp svarar þó oft ekki öllum.

Allt byrjar með fréttamanninum. Ritstjórar geta verið góðir og staðið sig vel í tímahraki. En geta ekkert, nema fréttir komi í hús.
Dagur fréttamanns:
1. Hringja daglega í fasta heimildamenn sína til að afla sér hugmynda að fréttum.

2. Vera á morgunfundi með þrjú eigin mál og skrifblokk.
3. Vera með málin klár á fundinum: Fólk, fókus og fyrirsögn.
4. Hugsa í burðum. Mistök fara í undirstrik. Eða í eindálka.

5. Breyta fólki, fókusi og fyrirsögn eftir því sem efni vinnst.
6. Vera í samráði við fréttastjóra, efnisstjóra, vaktstjóra.
7. Velja myndapantanir áður en farið er að skrifa texta. Mjög algengt er að kunna þetta ekki.

8. Efni er skrifað út frá fyrirsögn og fókusi, ekki öfugt.
9. Vera búinn að afgreiða sín mál fyrir kvöldmat.
10. Nota segulbandstæki í öllum viðkvæmum samtölum. Þetta er sérstaklega mikilvægt á Íslandi.

Blaðamaður þarf að vera heilsteyptur (hinir fari í PR, spuna), forvitinn (hafi áhuga á öðru fólki og högum þess), nákvæmur (1,3 verði ekki að 13, kennarafélag verði ekki nemendafélag), vinnusamur (manískur), óháður, áreiðanlegur, rækilegur.

Siðareglur
Neðangreindur listi varð til úr margra ára vinnu bandarískra blaðamanna. Hugsar siðareglur upp á nýtt með tilliti til þarfar á auknu trausti.
1. Blaðamennska veitir fólki upplýsingar, sem gera það frjálst:

2. Skuldbinding hennar er fyrst og fremst við sannleikann.
3. Hollusta hennar er við borgarana.
4. Eðli hennar er leit að staðfestingum.

5. Hún er sjálfstæð gagnvart þeim, sem fjallað er um.
6. Hún er óháður vaktari valdsins.
7. Hún er torg gagnrýni og málamiðlana.

8. Hún reynir að gera það mikilvæga áhugavert og viðeigandi.
9. Hún er víðtæk og í réttum hlutföllum.
10. Hún má beita eigin samvisku.

Thomas Jefferson: “Ef ég mætti velja um, hvort við hefðum ríkisstjórn án dagblaða eða dagblöð án ríkisstjórnar, mundi ég hiklaust velja síðari kostinn.”

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10. útgáfa 2006