0414 Umhverfi fjölmiðla

0414

Fréttamennska
Umhverfi fjölmiðla

Þegar tímarnir eru góðir og auglýsendur keppast um að fá gott pláss, eru ritstjórnir fjölmennar og leita víða fanga. Þegar hagur versnar, er útibúum lokað og starfsfólki fækkað. Sumar fréttir eru þá alls ekki lengur skrifaðar.

Með tilfærslu fleiri fjölmiðla í keðjur, sem skráðar eru í kauphöllum, aukast kröfur um arðsemi. Blaðamenn eru þá taldir vinna á auglýsingamiðlum, ekki á fréttamiðlum. Litið er á fréttir sem síðufyllingar utan um auglýsingar.

Dreifingarmiðlar.
Þrátt fyrir þessar sviptingar er staðan óbreytt að því leyti, að enn er það blaðamaðurinn, sem býr til fréttirnar. Sumir þeirra halda sig við að segja fréttir, sem berast að utan, en aðrir leggja áherslu á að leita sjálfir, grafa.

Algengast er, að mál komi ekki í fréttum, af því að þau séu svo fréttnæm, heldur vegna þess að einhver viðurkenndur hópur í þjóðfélaginu kemur þeim á framfæri. Meðal þessara hópa eru menntastofnanir, trúarleiðtogar og frjáls samtök.

Blaðamennska byggist á vali og það val er persónulegt, byggt á bakgrunni blaðamannsins, í menntun hans, áhrifum fjölskyldu, vina og starfsfélaga. Þetta val er svo mótað af þörfinni á að halda notendum, sem vilja helst meiri skemmtun.

Gildin, sem ákveða fréttnæmi:
1. Mikilvægi. (Flestar sögur)
2. Tímasetning.
3. Frægð málsaðila.
4. Nálægð við lesendur.
5. Spenna.
6. Tímabært mál.
7. Nauðsyn krefst birtingar.

Skrifa frétt (95-100 orð), sem er
1) tímabær,
2) mikilvæg og
3) fjallar um þekkt fólk, er
4) nálæg lesendum og
5) felur í sér spennu, er
6) orðin þroskuð og
7) nauðsynleg.

Að morgni dags tekur þú tölvudiskinn á skrifstofu þeirra og um kvöldið ertu með tilbúna frétt um, að fátækt fólk er látið borga hærra lausnargjald en ríkt fólk og verður því að sitja inni meðan mál þess er til rannsóknar. Ef þú býrð í Bandaríkjunum.

Athugið þó, að heimildir bandarískra blaðamanna til aðgangs að gagnabönkum og öðrum skjölum hins opinbera eru miklu opnari en þær eru hér á landi. Vegna persónuverndar hafa lög um upplýsingaskyldu ekki lagað stöðuna hér á landi.

Viltu vita um öryggi á næsta alþjóðaflugvelli? Þú tekur niður gagnabankann af heimasíðu Flugmálastjórnar (í Ameríku) eða biður Samtök tölvublaðamanna að senda þér allan gagnabanka stofnunarinnar, sem þau eiga jafnan í nýjustu útgáfu.

Um kvöldið ertu búinn að finna út fjölda öryggisbrota á þessum flugvelli síðustu árin og í hverju þau voru fólgin. Þú ert búinn að tala við starfsmenn vallarins, flugfélaga og Flugmálastjórnar og lesa skýrslu stjórnvalda, sem er á vefnum.

Svona vinna er orðin hversdagsleg í Bandaríkjunum. Blaðamenn nota þessar leiðir og aðrar til segja fréttir, sem koma til greina til Pulitzer-verðlauna. Enginn blaðamaður getur verið án þess að kunna að nota tölvur til að grafa upp mál.

Hæfni blaðamanns felst núna í að geta hlaðið niður gagnabönkum, geta rannsakað gögnin, geta hugsað á gagnrýninn hátt, leitað að öðrum upplýsingum á vefnum, svo að hann geti skrifað fréttir með dýpt og samhengi, sem skipta máli í nútímanum.

Munurinn á framkvæmd bandarísku sólskinslaganna og íslensku upplýsingalaganna er einkum tvenns konar. Í fyrsta lagi afhenda bandarísk stjórnvöld fjölmiðlum beinan og ókeypis aðgang að gagnabönkum, ýmist á CD-diskum eða með beinlínutengingu.

Hér geta menn hins vegar aðeins spurt bankana ákveðinna spurninga, en ekki annnarra. Til dæmis er hægt að leita eftir götunúmeri í fasteignaskrá og eftir bílnúmeri í ökutækjaskrá, en í hvorugu tilvikinu eftir eigandanum.

Kostur við bandaríska kerfið er, að blaðamenn geta þá borið einn banka saman við annan og fundið tengsl, sem hvorugur bankinn sýndi einn og sér. Það er einmitt þetta, sem íslensk stjórnvöld eru hrædd við, þau vilja ekki, að þetta sé hægt.

Bandaríkjamenn eru ekki viðkvæmir fyrir mannanöfnum. Þau eru alls staðar í skrám, svo sem í málflutnings- og dómaskrám. Hér taka dómstólar út nöfn manna, áður en þeir setja slík gögn á netið. Meira að segja úrskurðarnefnd upplýsingalaga.

Almennt má segja, að eignarhald og peningamál séu ekki talin einkamál vestra og raunar ekkert, sem gerist utan heimilis. Hér er hins vegar tilhneiging til að telja eignarhald og fé og dóma til einkamála og ferli fólks utan heimilis líka.

Í öðru lagi verða menn hér yfirleitt að borga fyrir aðgang að skrám. Vestra er það hins vegar talin vera skylda stofnana, sem kostaðar eru af almannafé, að láta almenningi í té endurgjaldslausan aðgang að skrám, sem þar verða og eru til.

Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006