0412 Fréttnæmi

0412

Fréttamennska
Fréttnæmi

Átta atriði stjórna fréttnæmi:
1) Mikilvægi.
2) Tímabærni.
3) Frægð.
4) Nálægð.
5) Spenna.
6) Þroski máls.
7) Nauðsyn.
8) Óvenja.

MIKILVÆG eru mál, sem varða marga miklu. David Willman hjá Los Angeles Times fann sjö lyf í notkun, sem samtals höfðu orðið meira en þúsund manns að bana. Þau höfðu verið leyfð þrátt fyrir aðvaranir sérfræðinga.

TÍMABÆR eru mál, sem eru ný eða nýleg. Útvarpsfréttir eru lesnar í nútíð. Flestar fréttir í blöðum nota orðin “í dag”. Fréttnæmi minnkar með aldri frétta. André Gide sagði blaðamennsku vera “allt sem verður minna áhugavert á morgun”.

Tímabærni er mikilvæg í lýðræði. Fólk þarf að vita, hvað ráðamenn eru að bralla eins fljótt og auðið er, svo að það geti metið í tæka tíð, hvert ráðamenn eru að fara. Auðveldara er fyrir fólk að losa sig við spillta eða lata embættismenn.

Auglýsingar verða að birtast strax og vörurnar eru tilbúnar, af því að almenn viðskipti byggjast á að losna fljótt við lager. Hagsmunir margra aðila felast í, að fréttir og auglýsingar berist fólki sem allra fyrst.

FRÆGÐ felur í sér vel þekkt fólk og stofnanir. Því frægari, því meiri saga. Nöfn og myndir af fólki eru fréttir. Réttarhöldin yfir O.J. Simpson og framhjáhald Bill Clinton voru helstu fréttir velflestra fjölmiðla á sínum tíma.

NÁLÆGÐ felur í sér, að atburðir, sem eru landfræðilega eða tilfinningalega nær okkur en aðrir atburðir, eru fréttnæmari en aðrir atburðir. Ef 42 dóu í flugslysi í Andesfjöllum og einn þeirra var frá Akureyri, fjallar fréttin þar um þann.

SPENNA og stríð hafa verið fréttaefni frá örófi alda. Mannkynssagan er nánast samfelld saga stríðs og togstreitu. Nú á dögum er blaðamennska torg, þar sem ræða má ágreiningsefni milli fólks og hópa og stuðla að lausn þessara ágreiningsefna.

Skyndilega ÞROSKAST mál, sem hefur kraumað undir niðri um skeið. Þegar Johnson forseti hóf “herferð gegn fátækt” varð fátækt umræðuefni, þótt lítið hafi verið talað um hana áður og einnig lítið á eftir.

Það ÓVENJULEGA er það, sem víkur frá væntingum, er öðru vísi en reynsla okkar af venjulegu lífi. Þegar Lorena Bobbitt skar tippið af manni sínum, var það stór frétt í öllum miðlum. Um leið minnti málið á viðbrögð gegn ofbeldi í heimahúsum.

Myndin af manninum, sem stóð einn fyrir framan röð af skriðdrekum á Torgi hins himneska friðar og ávítaði hermenn fyrir að drepa fólk, var einstök í sinni röð og birtist í öllum fjölmiðlum. Hún var tákn um litla manninn gegn ofureflinu.

NAUÐSYN er sjöundi liðurinn í mati á fréttnæmi. Hinir fyrri sex fjölluðu um atburði og mál, sem komu upp í samfélaginu, en þetta er liður, sem kemur upp hjá blaðamanninum. Hann hefur uppgötvað eitthvað, sem hann verður að segja fólki frá.

National Public Radio upplýsti um lélega þjónustu og enga þjónustu, sem veitt var þeim, sem ekki höfðu sjúkratryggingar.
Boston Globe kom upp um barnaníð kaþólskra presta og leiddi til rannsókna blaða í öðrum landshlutum á sama efni.

WTVF-TV sjónvarpsstöðin upplýsti, að ríkið lét vildarvini sína fá verk án útboðs, einkum fyrirtæki tengd ríkisstjóranum. Stöðin var hökkuð niður fyrir óábyrga fréttamennsku, en fyrir rest urðu FBI og skattayfirvöld að hefja eigin rannsókn.

Sameiginlegt er með mörgum þessara dæma um sögur í bandarískum fjölmiðlum, að blaðamenn grófu sig niður í aðstæður, sem annars vegar koma niður á venjulegu fólki og hins vegar lenda ekki hversdagslega í smásjá fjölmiðlanna.

Heidi Evans hjá Daily News frétti af færibandi fóstureyðinga á einkastofnun. Hún fór þangað og var á augabragði úrskurðuð með fóstri. Daginn eftir fór hún með sýni úr þvagi karlmanns og fékk aftur úrskurð um, að hann væri með fóstur.

Í Norður-Karólinu hlustaði ríkisstjórinn ekki á fréttir af ástandi geðsjúkrahúsa, ekki heldur þingið. Ekki fyrr en Charlotte Observer var búið að birta 30 sögur, sem sýndu, að 34 geðsjúkir hefðu dáið í undarlegum kringumstæðum.

Times Union í Albany gerði rannsókn á vötnum í Adirondacks Park og fann út, að 500 af 2800 vötnum garðsins voru orðin alveg dauð, þar þreifst ekkert líf, allt vegna mengunar af mannavöldum.

Ofangreindar sögur tengjast því, að atriði í kerfinu virkaði ekki. Með aukinni kerfisvæðingu tilverunnar, þarf að endurskilgreina hvað sé fréttnæmt. Miðlarnir verða að gefa sér meiri tíma til að spyrja, hvernig kerfin þjóni fólki.

Rannsóknablaðamennska er ekki glamúrstarf, segir Phil Williams. “Það eru langir klukkutímar af leiðindum, hvort sem maður er að saxa niður gagnabanka, leita í skjalabunkum eða fela sig í bílnum klukkustundum saman án þess að komast á klósett.”

Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006