0423 Hugboð og fordómar

0423

Fréttamennska
Hugboð
Fordómar

Blaðamenn reiða sig á hugboð og tilfinningu sína eins og skynsemi og rökhyggju:
1) Hugboð og innsæi spretta af víxlverkun nýrra upplýsinga og fyrri reynslu.
2) Tilfinning getur fengið blaðamann til að kanna vandamál.

Um leið geta hugboð og tilfinningar brenglað skrifin, rétt eins og fordómar blaðamannsins geta gert. Blaðamaðurinn þarf að finna gullna meðalveginn.

Blaðamenn vinna af rökvísi, næstum vísindalega. Þeir eru hleypidómalausir, meta það, sem þeir sjá með hliðsjón af þekkingu sinni og bakgrunni atburðarins og komast að rökréttri niðurstöðu. Síðan lýsa þeir atburðum í hlutlægum sögum.

Allir blaðamenn hafa fundið fyrir því, að sjá allt í einu kjarna málsins, sjá gegnum öll smáatriðin kringum hann. Sumir virðast hafa sjötta skilningarvitið. Seymour Hersh hjá NYT segir: “Ég finn lykt í kílómetra fjarlægð. Það er satt.”

Hugboð, getgátur og innsæi koma til skjalanna um leið og blaðamaðurinn byrjar að vinna í máli. Hann er kominn með tilgátur, sem hann þarf síðan að sannreyna. Raymond Berry segir: “Heppni er það, þegar undirbúningur mætir tækifæri.”

Blaðamenn fagna hugboðum sínum, innsæi og getgátum, en eru ekki jafn hrifnir af tilfinningum sínum. Tilfinningar hræða flesta, einkum þá, sem byggja starf sitt á skynsemi. En blaðamenn eru mannlegir og verða að starfa í sátt við það.

Þótt sterkar tilfinningar geti komið að gagni, er skynsamlegt að sannreyna þær reglulega, af því að þær geta truflað sýn þína og truflað rökhyggju þína, sem eru forsendur fréttamennsku og blaðamennsku.

Spurningar, sem blaðamaðurinn þarf að svara:
1) Er ég orðinn svo samtvinnaður einni persónu, einni stofnun, einni hugmynd eða trú, að ég lít framhjá því, sem neikvætt getur talist um þessi atriði.

2) Leiðir sjálfsdýrkun mín til, að ég sjái atburð í ákveðnu ljósi.
3) Leiðir hrósþrá mín til, að ég skrifi, þótt ekki séu allar upplýsingar í höfn.
4) Er keppnisharka mín svo mikil, að ég líti framhjá eða hafni skrifum annarra.

Varið ykkur. Blaðamenn geta ekki verið hlutlausir í lífinu. Þeir eiga ekki heldur að vera það. Áhugi, tilfinningar, alhæfingar geta verið gagnlegar. En viðbrögð, sem sveiflast til ofsa, eru hættulegar. Blaðamenn verða að átta sig á þeim.

Þetta eru eins konar skammhlaup í viðbrögðum blaðamannsins. Oft eru þar að verki fordómar. Blaðamanni er til dæmis af einhverjum ástæðum vel við lækna og dómara, en illa við sölumenn og verðbréfasala. Fordómar eru hættulegir hjá blaðamanni.

Á bakinu berum við viðhorf, rétttrúnað, hlutdrægni, ótta, þrár, tilhneigingar og fordóma. Við erum líka börn umhverfisins, við stundum félagslegan rétttrúnað. Allt þetta truflar það, sem við sjáum og heyrum og hugsum, truflar blaðamennskuna.

Um leið og blaðamaðurinn getur verið fórnardýr félagslegs rétttrúnaðar er líka hætt við, að hann dreifi félagslegum rétttrúnaði, ímyndum og fordómum.

Plató skrifaði um fólkið í hellinum, sem sér raunveruleikann eins og hann speglast í skuggum á hellisveggnum. Það heldur, að skuggamyndirnar séu sjálfur raunveruleikinn og að ekkert annað sé raunveruleikinn nema skuggarnir einir.

Walter Lippmann sagði: “Einkum sjáum við ekki fyrst og skilgreinum svo, við skilgreinum fyrst og sjáum svo. Í flækjum nútímans tínum við upp það, sem áður er búið að skilgreina fyrir okkur. Við sjáum hluti í mynd fordóma umhverfisins.”

Lippmann: “Fordómar gera okkur kleift að raða fólki í hópa, sem eru þægilegir, af því að þá þurfum við ekki að skoða málið. Þeir gera okkur kleift að forðast að standa andspænis heiminum og sjá hann allan í senn.”

Fréttasaga verður til í víxlverkun blaðamanns og atburða. Ef blaðamaðurinn sér atburði í fyrirfram ákveðnu ljósi, hefur hann fordóma gagnvart atburðinum og lætur hann falla að fordómum sínum.

John Dewey sagði: “Það er aðalvinna mannsins að koma á samræmi í skilningi sínum á óreglulegum atburðum.” Samræmið felst í formum, sem segja til um samhengi staðreynda og atburða.

Orsakasamhengi er mest notaða samhengið. Athugaðu þó, að ekki þarf að vera orsakasamband, þótt einn atburður sé í tíma á eftir öðrum atburði. Báðir geta verið afleiðing þriðja atburðar eða gersamlega ótengdir.

Þegar blaðamaður hefur nógu góðar upplýsingar, getur hann talað um orsakasamhengi. Ef tóbaksframleiðendur leggja stórfé til repúblikana og repúblikanar vernda tóbaksframleiðendur, er hægt að tala um orsakasamhengi.

Stundum hugsa blaðamenn of mikið í annaðhvort-eða samböndum. Atburðir gerast ekki í svart-hvítu, heldur í afbrigðum af gráu. Markmið blaðamannsins er að tengja saman staðreyndir og búa til sannar sögur.

Blaðamenn nota innsæi og tilfinningar til að skilja atburði og aðstæður. Hugboð og tilfinningar eru mikilvægar, en verða að vera undir eftirliti. Passa þarf vel tilfinningar úr æsku, rétttrúnað og fordóma gegn ákveðnum samfélagshópum.