0420 Á vettvangi II

0420

Fréttamennska
Á vettvangi II

Stíll blaðamannsins getur spillt greininni. Hann kann að mistúlka atburð með því að fjalla um æsileg hliðaratriði, sem endurspegla ekki atburðinn.

Blaðamaðurinn er oft ekki fluga á veggnum. Tilvist hans breytir fréttinni. Allt fer á tjá og tundur, þegar sjónvarpsteymi mætir á fundinn. Ræðumenn byrja að baða út öngum. Dauðyfli vakna til lífsins. Raunveruleiki aðstæðna breytist.

Allir blaðamenn þekkja tilfinninguna, þegar þeir hafa rabbað stundarkorn við viðtalsefnið og draga upp blað og penna. Á því andartaki breytist stemmningin. Viðmælandinn byrjar að haga sér á annan hátt, þegar hann sér blað og penna.

Ef þú spyrð beinna spurninga, færðu ekki gild svör. Ef þú hangir bara á svæðinu, færðu óbeint að vita svörin án þess að hafa spurt neinna spurninga. Svörin síast inn í andrúmslofti aðstæðnanna.

Blaðamaður á flokksþingi röltir um svæðið, talar við menn hér og þar eins og hver annar fulltrúi, fer inn í fundarherbergi og hlustar á samsærisfundi. Þess á milli fer hann á klósettið og skrifar niður, það sem hann hefði annars ekki heyrt.

Sumir fordæma slíka blaðamennsku. Þeir benda á, að blaðamenn séu þarna að villa á sér heimildir, telja fólki trú um, að þeir séu fulltrúar á fundinum. Menn verða sjálfir að fara eftir þeim reglum, sem þeir vilja, að aðrir fari eftir.

William Foote Whyte sagði: “Ef stjórnmálamaður tekur við mútum, er það frétt. Ef hann þjónustar kjördæmið með hefðbundnum hætti, er það ekki frétt. Dagblaðið fjallar bara um straumhvörf. Þannig verður stórmennið að eign almennings.”

Hefðbundið er, að blaðamenn snúist um valdamenn og atburði, þar sem valdamenn koma fram. Þetta nægir ekki. Sara Grimes segir: “Ég furða mig, að blaðamenn skuli eltast við tilvitnanir í valdamenn, þegar þeir geta skoðað fólk.”

Anton Chekov sagði: “Við sjáum hvorki né heyrum þá sem þjást og það hræðilega, sem gerist að tjaldabaki. Allt er friðsælt og aðeins þögul tölfræði segir frá, að svo og svo margir hafi klikkast, svo og svo margir lítrar af vodka hafi verið drukknir.”

Chekov hélt áfram: Við sjáum ekki börn, sem deyja úr næringarskorti. Við verðum að muna eftir, að til er óhamingjusamt fólk og að lífið mun einhvern tíma sýna klærnar hamingjusömu fólki, veikindi, fátækt, tap. Þá heyrir enginn í því fólki.

Leon Dash hjá Washington Post bjó í mörg ár með vandamálafjölskyldu. Hann kallar aðferðina “blaðamennsku á bólakafi”. Hann skrifaði vinsamlega lýsingu á vanda fólksins, en um leið varð lýsingin til þess, að vandi fólksins var öllum séður.

Þátttaka í lífi fólks veldur erfiðleikum. Viðvist blaðamannsins hefur áhrif á aðstæður og atburði. Blaðamaðurinn getur orðið of flæktur inn í málið. Hann fær upplýsingar, sem viðkomandi aðilum verður síðar ekki sama um, að verði birtar.

James Agee dvaldist meðal leiguliða í suðurríkjunum, fólks á botni þjóðfélagsins, sem átti hvorki landið né útsæðið. Hann átti í baráttu við sjálfan sig út af því, að hann væri að misnota líf þessa fólks til að bæta þjóðfélagið. Hann sagði:

“Erfiðast var að uppgötva, að ég var bara aðkomumaður, sem átti eftir að hverfa burt og skilja eftir börn, sem ég hafði vingast við. Undir niðri var ég að svíkja börnin með því að nota líf þeirra sem fóður í blaðamennsku. Það voru svik.”

En það er einnig staðreynd, að blaðamaður, sem fer úr eigin lífi og inn í líf annars fólks, fær alveg nýja innsýn í samfélagið og er miklu betur en áður fær um að veita lesendum eða hlustendum aðild að þeirri innsýn án allra fordóma.

Blaðamenn verða að hafa rétt eftir fólki. Algengt er, að fólk segi, að rangt sé eftir því haft, sérstaklega á Íslandi, þar sem sannleikur er ekki hátt skrifaður. Eina leiðin til varnar er að eiga viðtalið á segulbandi.

Blaðamenn mega þó ekki taka viðtal á segulband án þess að viðmælandinn viti af því. Sum dagblöð benda daglega á það í texta, að öll símtöl séu tekin upp á band til að auðvelda réttar frásagnir í blaðinu.

Þegar blaðamaður setur gæsalappir utan um texta, segir hann, að textinn sé eins og viðmælandinn sagði hann. Hann er ekki næstum eins, heldur alveg eins. Eina undantekningin er leiðrétting á augljósri málvillu viðmælandans.

Erfitt er að nota beinar tilvitnanir. Fólk talar óskýrt, notar frestunarorð og önnur aukaorð, lýkur ekki við málsgreinar. Stundum er ekki hægt að vitna beint í fólki, heldur verður að endursegja innihaldið án gæsalappa.

Gæsalappir eru notaðar til að lýsa skoðunum eða persónuleika þess, sem talar, ekki til að koma staðreyndum á framfæri. Ekki nota beina tilvitnun um, að 873 börn séu í skólanum. Ekki nota beina tilvitnun og endursögn með sama innihaldi.

Fréttir um ræður eða fundi, þar sem talað er um, hvað menn hafi sagt, er best að skrifa þannig, að sums staðar sé vitnað beint, sums staðar óbeint, sums staðar sé endursagt og sums staðar sé bein frásögn. Skrifaðu alltaf nákvæmlega niður orðin.

Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006