0425 Heimildaskjöl

0425

Fréttamennska
Heimildarskjöl

Góðir blaðamenn nota bæði persónur og hluti sem heimildir. Rannsókn sýnir, að Pulitzer-verðlaunahafar notuðu fjölbreyttari heimildir en aðrir blaðamenn, notuðu fleiri skjöl, skýrslur, bækur. Viðtöl eru mikilvæg, en segja ekki alla söguna.

Pappírsslóðin: Læra má margt með því að leita að persónu í gögnum þeim, sem hún skilur eftir á ævi sinni. “Follow the paper trail”. Þar er fæðingarvottorð, sjúkraskýrslur, skólaskýrslur, afsöl fasteigna, giftingarvottorð, dánarvottorð.

Vikublað upplýsti, að Culpeper sveit hefði flesta kynferðisafbrotamenn í landinu, 225 alls. Blaðið gleymdi að skoða málið betur og komast að raun um, að allir þessir 225 sátu inni í ríkisfangelsinu, sem er í þessari sveit.

Lovenstein stofnunin upplýsti á netinu könnun um greind forseta Bandaríkjanna síðustu 60 árin. Skoðun blaðs leiddi í ljós, að stofnunin var ekki til, nema sem brandari hjá húmorista. Rannsóknin var ekki til.

Varnir gegn heimildum á veraldarvefnum:
1) Álit, virðing. Hver á heimasíðuna? Geturðu náð sambandi við ráðamenn hennar?
2) Nákvæmni. Eru raktar heimildir fyrir staðreyndum.

3) Tímabærni. Er heimasíðan uppfærð, eru staðreyndirnar gamlar?
4) Fullnægjandi. Vantar í upplýsingarnar, er málsatriðum sleppt?
5) Hlutlægni. Eru auglýsingar aðskildar frá upplýsingum?

Röð gagnlegra heimilda, samkvæmt Steve Miller hjá New York Times:
1) Opinber gögn. Næstum alltaf áreiðanleg.
2) Gögn háskóla. Oftast undir smásjá jafningja, oftast áreiðanleg.

3) Hagsmunahópar. Að vísu hlutdrægir, en hafa virðingar að gæta.
4) Heimasíður. Minnst áreiðanlegar, oft vafasamar.

Hlutlægar, efnislegar heimildir eru óteljandi. Umfang þeirra takmarkast bara af getu blaðamannsins til að spanna heimildir, sem hann hefur aðgang að. Gagnabankar gefa ágætar upplýsingar um heimildir. Tölur eru betri en mat embættismanns á þeim.

Heimilið: Hvað kostaði það, hver var útborgun og hvað mikið tekið að láni, hver er lánveitandi, veðbönd á eigninni, fasteignaskattar og staðan á sakaskrá.
Bíllinn: Skráningarnúmer, eignarhald, tegund og aldur.

Martha Mendoza hjá AP notaði tölvuna til að rekja viðskipti út af reglugerð um verndun villtra hesta. Menn gátu tekið þá í fóstur og starfsmenn kerfisins notuðu það til að slátra hestum og stinga sláturtekjunum í eigin vasa.

Eftir slys er gott að fara til lögreglunnar, þar sem menn eru að slá inn skýrslur. Næst á eftir þeim, sem sáu slysið, eru skýrslur lögreglunnar besta heimildin. Fólk þarf að geta rápað um á lögreglustöðinni.

Blaðamaður í tímahraki hefur ekki tíma til að fara á slysstað og símtöl við lögregluna bera lítinn árangur. Hann hringir í spítalann og fær nafn nánasta ættingja. Í síma hans svarar bróðir hins slasaða og veitir umbeðnar upplýsingar.

Oft er gott fyrir fréttamann að ræða við starfsbræður um heimild, áður en mikil vinna er lögð í hana. Þeir hafa kannski slæma reynslu af heimildinni og geta stöðvað fréttamanninn í tæka tíð. Þeir, sem fá að vita um nafn, verða að þegja.

Sérstök tegund af leka er “tilraunabelgur”, sem opinberir aðilar setja á loft til að fá fréttamenn til að segja frá fyrirhuguðum gerðum stjórnvalda. Síðan meta þessir aðilar viðbrögðin, framkvæma málið eða hætta við það eftir viðbrögðum.

Flestir stöðvarstjórar hafa þá reglu, að fréttamenn segi einum yfirmanni á staðnum frá heimildamanninum, áður en þeim er leyft að senda út málið, sem var til rannsóknar. Vanræksla á þessu sviði getur haft skelfilegar afleiðingar.

Aðrar góðar upplýsingar koma frá vinum, sem fréttamenn rækta á skrifstofum, þar sem skjöl eru geymd, til dæmis í dómhúsum og á lögreglustöðvum. Þótt menn hafi rétt til aðgangs að gögnum, er alltaf gott að hafa persónusamband til viðbótar.

Upplýsingar frá nafnlausum aðila í stjórnkerfi eða fyrirtækjum eru kallaðar leki. Frægasti lekinn var, þegar forseti og varaforseti Bandaríkjanna létu leka nafni starfsmanns leyniþjónustunnar, Valerie Plame, til að refsa eiginmanni hennar.

Leki eins manns er nauðsynleg afhending tímabærra upplýsinga hjá öðrum aðila. Frægur var leki “Deep Throat”, sem var valdamaður í Hvíta húsinu á stjórnarárum Nixons og lak upplýsingum um Watergate, en kom fram undir nafni löngu síðar.

Þegar fréttamenn finna góða og áreiðanlega heimildamenn og halda trúnað við þá, kemur venjulega í ljós, að þeir útvega fleiri upplýsingar, stundum árum saman. Fréttamenn halda þeim við efnið og benda þeim á samfélagslegt mikilvægi þeirra.

Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006