0424 Heimildarmenn

0424

Fréttamennska
Heimildarmenn

Blaðamaðurinn hefur þrenns konar heimildir:
1) Mannlegar heimildir. Ráðamenn og fólk, sérfræðingar og vitni, málsaðilar.
2) Hlutlægar heimildir. Skrár, skjöl, uppsláttarrit, greinar.
3) Netheimildir.

Blaðamaður sér ekki mikið betur en heimildir hans. Blaðamaður ver tíma á hverjum degi með föstum heimildamönnum. Hann hringir í menn á stofnunum, hann ráfar um stofnanir og fyrirtæki og fær sér kaffi með fólki.

Milt Sosin hjá AP er lýst þannig: Hann stingur höfðinu inn á kontóra og rabbar við ritara. Hann spjallar við lögmann í lyftunni. Hann ræðir stuttlega við blaðamann fyrir utan dómsal. Hann opnar dyr kurteislega fyrir fólki.

Hjá Sosin er sjarminn sterkasta vopnið. Allir þeir, sem hann talar við, geta fyrr eða síðar orðið heimildir að fréttum. Allir vita, að hann gefur ekki upp nöfn þeirra. Hann sinnir fólki og spyr það, hvort eitthvað sé að gerast.

Seymour M. Hersch hjá New Yorker hefur góðar heimildir. Hann les fréttabfréf CIA og NSA, sér hverjir eru að ljúka störfum, semur við þá um einkaviðtöl. Úr því kemur oft mikið af fréttum, hvar í flokki sem menn standa.

Sara Nathan frétti af því hjá lögmanni, sem hún þekkti, að Firestone dekk hefðu verið innkölluð á Ford Explorer bílum í sex löndum, en ekki í Bandaríkjunum. Hún skrifaði um það frétt, sem kom skriðu af stað.

Heimildir geta verið hættulegar. Fyrir innrásina í Írak fullyrti ríkisstjórn Bandaríkjanna, að þar væri fullt af gereyðingarvopnum. Þetta kom frá sömu heimild og New York Times notaði, landflótta Íraka með annarleg sjónarmið í pólitík.

Stundum kemur blaðamaður nýr að máli og hefur ekki haft tíma til að byggja upp kerfi heimildamanna. Þá er hægt að hringja í alla þá 20, sem taldir eru hafa sérfræðivit á málinu og biðja þá um að hjálpa sér af stað. Flestir hjálpa.

Þetta þurfa ekki að vera bæjarstjórar, ráðherrar eða forstjórar. Þetta geta verið ritarar eða skrifstofustjórar, lagafulltrúar eða hraðritarar, öryggisverðir eða húsverðir, skiptiborðsdömur eða póstflutningsmenn.

Í umgengni við heimildarmenn má ekki flýta sér of mikið. Hugsaðu ekki bara um fyrirsögnina á morgun. Einnar nætur vinir gefa sjaldan fullnægingu. Þú verður að líta á þá, er gefa þér fréttaskot, sem manneskjur.

Terry Schrader hafði efasemdir um heimild, sem sagðist hafa farið í plastaðgerð. Hann kannaði málið og komst að raun um, að konan var blaðafulltrúi fyrirtækisins, sem framleiddi plastið og hafði farið á námskeið í umgengni við fjölmiðla.

Ekki eru allir jafn klárir á því, hvað eru góðar heimildir. Þegar þingmenn vildu fá upplýsingar um meiri kostnað og minni tekjur, kölluðu þeir fyrir sig leikarana Sissy Spacek og Jane Fonda, sem höfðu leikið bændafólk í bíómyndum.

Blaðamenn eru oft gagnrýndir fyrir að vera í sambandi við þröngan hóp manna, forstjóra, bankamenn, embættismenn, stjórnmálamenn, blaðafulltrúa, álitsgjafa, þótt umræðuefnið fjalli fyrst og fremst um fólk, til dæmis líf þess í verðbólgu.

Blaðamaður þarf heimildarmann og heimildarmaðurinn þarf blaðamann til að fá viðbrögð við hugmyndum sínum. Smám saman verður blaðamaðurinn háðari heimildum sínum. Tíðast eru heimildamenn liprir, af því að þeir vilja sjá réttar fréttir.

Stundum er blaðamaður beðinn um að halda heimildinni leyndri. Flest ríki vernda nafnleynd heimildarmanna. Þar sem svo er ekki, þarf blaðamaðurinn að gera ráð fyrir að geta lent í fangelsi fyrir að koma ekki upp um heimildarmann.

Murey Marder sagði: “Það er ekkert til sem heitir óháð heimild. Það fyrsta, sem blaðamaður þarf að spyrja sig að, þegar hann talar við fyrirhugaða heimild, er, hver þessi heimild sé. “Af hverju er hún að tala við mig? Hvað sér hún í því?

Fyrst þarf ég að finna, hvað heimildarmaðurinn sér í málinu fyrir sig. Ég mundi aldrei gera ráð fyrir, að heimild segi mér allan sannleikann, af því að ég held ekki, að heimildin viti allan sannleikann.”

Fjórar reglur Lucy Morgan hjá St. Petersburg Times:
1) Vertu almennilegur við alla. Finndu hvað þeir heita. Síðar kemur það að gagni.

2) Biddu fólk um aðstoð. Ótrúlega margir eru hjálpsamir.
3) Hjálpaðu fólki, sem þú umgengst, að skilja fréttir. Þú heyrir síðar frá því.
4) Hlustaðu. Vertu þolinmóður, þótt þú hafir þegar fengið það, sem þú þarft.

Fólk hefur tilhneigingu til að trúa þeim, sem fara með völd. Því meiri völd, þeim mun meira traust. Blaðamaður verður að forðast að láta valdhafa skilgreina aðstæður og atburði. Hann notar mest þær heimildir, sem áður hafa verið bestar.

Áreiðanlegar heimilir:
1) Sá heimildarmaðurinn atburðinn eða heyrði um hann?
2) Hefur heimildarmaðurinn góða athyglisgáfu?
3) Getur hann bent á smáatriði.
4) Eru margir heimildarmenn með sömu upplýsingar?