0426 Fréttaviðtöl

0426

Fréttamennska
Fréttaviðtöl

Til eru tvenns konar viðtöl:
1) Fréttaviðtöl. Markmiðið er að safna upplýsingum um atburð, aðstæður, hugmynd.
2) Mannlýsingar. Fókusinn er á einstaklingnum.

Blaðamaður tók viðtal við íþróttamann, sem kom til borgarinnar út af keppni. Hann kunni ekki að spyrja og fékk fátt af viti. Hann talaði við fréttastjórann, sem sagði honum, hvað hann hefði átt að spyrja um:

“Fyrst áttirðu að kanna úrklippurnar um hann og hringja í keppnislið hans. Þá hefðirðu kynnst honum, ferli hans og skólagöngu. Þú hefðir getað notað það til að brjóta ísinn. Eða þú hefðir spurt hann um hlaupabrautina, sem hann getur svarað.”

Fjögur lögmál viðtala:
1) Undirbúðu þig vel. Kannaðu bakgrunninn.
2) Náðu sambandi við viðtalsefnið.
3) Spurðu marktækra spurninga.
4) Hlustaðu og horfðu með athygli.

Undirbúningur. Það þarf þolinmæði og þrjósku til að ýta fólki út í viðtal og til að halda áfram að eiga við spurningar, sem viðmælandanum líkar ekki við.

Undirbúningur gegnir ferns konar tilgangi:
1) Framkallar bráðabirgðaþemu.
2) Þú áttar þig betur á viðtalsefninu.
3) Veitir nauðsynlegan bakgrunn.
4) Veitir færi á vinsamlegum ramma viðtalsins.

Margir viðmælendur kunna lítið á viðtöl. Blaðamaðurinn þarf að vera viss um, að þeir skilji viðtal, átti sig á möguleikum í stöðunni. Blaðamaður má ekki tæla slíka viðmælendur út í vitleysu.

Málsaðilar kynnast í fyrsta þætti viðtals. Viðmælandinn metur kosti og galla þess að upplýsa. Blaðamaðurinn reynir að sýna fram á óbeint gagn viðmælandans af viðtalinu, það er frægð, virðing og tilfinning fyrir að hafa gert rétt.

Viðtöl eru mishörð. Stundum þrýstir blaðamaðurinn lauslega á svör, til dæmis með hrósi. Í öðrum tilvikum, þar sem um embættis- eða stjórnmálamann er að ræða, þá hótar hann að senda bréf til úrskurðaraðila um upplýsingaskyldu.

David Cay Johnston hjá New York Times sagði: “Misjafnt fólk kallar á misjafnar aðferðir. Þú þarft að umgangast viðmælendur miðað við aðstæður.”

Jerry Giorgio sagði: “Láttu mig hafa einhvern, sem fólki líkar við og sem lætur sér líka við fólk, sem kann að róa fólk niður. Því þægilegri sem aðstaðan er, þeim mun meira talar fólk og því meira sem það talar, því minna getur það logið.”

Daniel L. Schacter sagði: “Í tímans rás breytist minnið úr upprifjun atburða í endurskráningu atburða, sem stjórnast að hluta af almennri þekkingu og trú.”

Fred Zimmerman hjá Wall Street Journal segir: “Búðu til lista yfir spurningar, eins margar og þú getur, jafnvel þótt þú spyrjir þeirra ekki og þótt þú spyrjir spurninga, sem ekki voru á listanum.”

Wendell Rawis sagði: “Þú spyrð mikilvægrar spurningar. Síðan ferðu annað í spurningu, jafnvel þótt viðtalsefnið sé ekki stressað, af því að ég vil ekki láta það halda, að mér finnist spurningin mikilvæg.” Síðar kemur hann aftur að málinu.

Í upphafi viðtals er farið í tæknileg atriði, rétt skrifað nafn, aldur og fleira þess háttar. Þetta eru ekki ógnandi spurningar og hjálpa til við að róa niður andrúmsloftið. Þær eru líka nauðsynlegar, því að villur geta verið í gögnum.

Lokaðar spurningar kalla á svar, sem er nánast já eða nei. Opnar spurningar kalla á lengra svar. “Hvað finnst þér um Ísland” er opin spurning. “Hvernig var brautin í dag” er lokuð spurning, sem kallar á svar á borð við “hörð” eða “hæg”.

Báðar tegundir hafa sitt gildi í viðtali. Oft byrja blaðamenn á opnum spurningum til að fá viðmælandann til að slaka sér. Síðar koma lokaðar spurningar, sem hefðu getað verið ógnandi, ef þær hefðu komið snemma í viðtalinu.

Viðtalsmenn sjónvarps og útvarps vilja enda á lokaðri spurningu, því að þá missa þeir ekki viðmælandann út í langloku, sem fer út fyrir tímann, sem er til umráða. Lokuð spurning gefur þeim færi á að draga viðtalið saman í endann.

Stundum óttast blaðamenn, að viðmælandinn muni móðgast eða verða fyrir áfalli út af spurningu. Það er ekki hægt að komast að slíku á annan hátt en að spyrja bara. Oriana Fallaci fær svör, af því að hún þorir að spyrja hvasst.

Fallaci sagði: “Sumir blaðamenn eru bara kjarkaðir, þegar þeir skrifa, ekki þegar þeir standa andspænis viðmælandanum. Þeir spyrja því ekki: “Þar sem þú ert einræðisherra, ertu almennt talin spilltur. Hversu alvarlega ertu spilltur?”

Forsetar og forsætisráðherrar, kóngar og skæruliðaforingjar opna sig fyrir Fallaci. Ástæðan er sumpart sú, að hún gefur sér, að fólk eigi skilið greið svör og hún neitar alveg að samþykkja undanbrögð. Hún kastaði hljóðnema í Múhameð Ali.

Fallaci fékk Henry Kissinger í viðtali til að játa, að vald léti honum líða eins og “einmana kúreka með vagn sinn og hest”. Þetta var birt og Kissinger sagði, að það hefði verið “heimskulegasta” ákvörðun lífs hans að fara í viðtal við Fallaci.

Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006