0641 Saga rannsókna

0641

Rannsóknir
Saga rannsókna
Marilyn Greenwald & Joseph Bernt
The Big Chill
2000

Rosemary Armao: Sagan:
Rannsóknablaðamennska hefur aldrei einkennt bandaríska fjölmiðla, ekki einu sinni eftir Watergate. Flestar fréttir byggjast á opinberum heimildum, einkum á stjórnvöldum og pólitíkusum.

Rannsóknir eru gamlar. Árið 1690 birti Publick Occurences frétt um pyndingar á frönskum hermönnum að undirlagi breska hersins. Slíkar fréttir fóru vaxandi á næstu öld. Bylting varð svo upp úr 1830, þegar penní-blöðin komu til sögunnar.

Gullöld rannsóknablaðamennsku var upp úr aldamótunum 1900, þegar blöðin komu upp um Standard Oil. Alls staðar voru uppljóstranir á ferðinni. Á þessum tíma urðu blaðamenn fagmenn. Kennsla hófst í blaðamennsku í University of Missouri 1908.

Þessi blaðamennska dalaði síðan í heimsstyrjöldum aldarinnar. Auglýsendur neituðu að birta auglýsingar í blöðum, sem voru með uppljóstranir. Föðurlandsást jókst og stuðningur við ríkisstjórn á stríðstímum. Komið var þó upp um sumt.

Tímamót urðu aftur, þegar Seymour Hersh fór að skrifa um hryðjuverk bandaríska hersins í My Lai. Fyrir það fékk hann Pulitzer-verðlaunin 1970. Bernstein og Woodward unnu í Watergate-málinu árin 1971 og 1972.

Aðferðir þeirra tveggja urðu frægar. Þeir eltu uppi lágt setta starfsmenn í ráðuneytum, stofnunum, samtökum og fyrirtækjum í leit að nafnlausum heimildum. Þeir röktu slóð peninga. Þetta urðu hversdagsleg vinnutæki blaðamanna.

Ekki voru allir jafn klárir og Bernstein og Woodward. Sums staðar voru notaðar nafnlausar heimildir, sem voru villandi og blésu smámál upp í stórhneyksli. Sumir litu svo á, að spilling réði nærri öllum stofnunum og ráðamönnum. Nánast vænisýki.

Árið 1975 voru stofnuð samtök rannsóknablaðamanna, IRE, til að bæta vinnubrögð í faginu. 3.500 félagsmenn eru í samtökunum. Þau hafa sjálf unnið að rannsóknum og sett upp siðareglur fyrir félagsmenn sína. Og heimasíðu, sem er mjög mikilvæg.

Miklum árangri náði Eugene Roberts, ritstjóri Philadelphia Inquirer, og Bill Kovach, ritstjóri Atlanta Journal-Constitution. En þeir hættu störfum, af því að þeir töldu, að nýtt fjármálaumhverfi fjölmiðla gæfi ekki svigrúm til rannsókna.

Roberts og Kovach urðu fyrir þrýstingi eigenda, sem vildu draga úr rannsóknum, af því að þær fældu auglýsendur frá og kölluðu á málaferli. Hvort tveggja væri líklegt til að hræða fjárfesta og lækka gengi hlutabréfa í fjölmiðlunum.

Rannsóknablaðamaðurinn er andstaða fjármálamannsins. Sá fyrri hefur efasemdir um valdhafa, lítur niður á valdið, kærir sig ekki um hópvinnu, hefur ekki áhuga á að vinna 9-5, klæðir sig eins og honum sýnist, hafnar gildum stórfyrirtækjanna.

Flestir eigendur fjölmiðla eiga vini, sem fá betri meðferð en aðrir í fjölmiðlum. Neytendafréttir og stílfréttir eru dubbaðar upp sem rannsóknir. Einkum hefur orðið útvötnun á rannsóknum í sjónvarpsfréttum, til dæmis í 60 Minutes.

Eignarhald: Því er haldið fram, að markmið fyrirtækja um hámarksarð og rólegt umhverfi séu ósamrýmanleg eftirlitshlutverki blaðamennsku með yfirstéttinni, sem felur í sér eigendur fjölmiðla, stjórnendur fjölmiðla og frægðarfólk í fjölmiðlun.

Pete Hamill hjá New York Daily News: “Flóknar rannsóknir eru minna á dagskrá. Þær taka of langan tíma og eru of dýrar og hæ, er lesendum ekki sama? Svona efni er ekki í sjónvarpinu, af hverju ættum við að vera í því.”

Eftir 1985 fór að bera á, að stjórnendur fjölmiðla væru farnir að efast um rannsóknablaðamennsku. Aðrir efuðust um, að lesendur hefðu áhuga á henni. Margir blaðamenn misstu sjálfstraust til að geta haldið áfram á þeirri braut.

Með upptöku fjölmiðla í stórar fjölmiðlakeðjur hafa stjórnarmenn fyrirtækjanna litla reynslu af fjölmiðlun og lítinn skilning á henni. Á sama tíma hefur skemmtiefni rutt sér til rúms, ekki bara í sjónvarpi, heldur líka í dagblöðum.

Þegar Ben Bagdikian skrifaði Media Monopoly árið 1984, stjórnuðu 50 fyrirtæki fjölmiðlun í Bandaríkjunum, en árið 1997 var talan komin niður í 10 fyrirtæki. Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á augljósar afleiðingar þessarar breytingar.

Rannsóknablaðamennska er skilgreind sem fréttir, er ljóstra upp um, að eitthvað ástand sé annað en það, sem stjórnvöld, stórfyrirtæki og aðrar valdastofnanir segja það vera, og einnig sem fréttir, er ljóstra upp um félagsleg vandamál.

Hún er líka skilgreind sem fréttir, er ljóstra upp um ill verk eða lögbrot eða siðferðilega ranga hluti, sem reynt er að fela fyrir almenningi. Samkvæmt slíkum skilgreiningum hefur rannsóknablaðamennska minnkað verulega 1980-1995.

Á þessum tíma minnkaði leki á skjölum til fjölmiðla. Mikil aukning var á notkun tölva í tengslum við rannsóknir, til dæmis skoðun á gagnabönkum og samanburður á þeim. Aðrar aðferðir héldust nokkurn veginn óbreyttar á ofangreindu tímabili.

Fréttir af dauða rannsóknablaðamennsku eru þó ýktar. Mörg dagblöð hafa dregið úr henni, en sum bestu blöðin halda henni áfram af fullum krafti. Sum lítil blöð hafa bætt stöðu sína, svo sem Dayton Daily News og Akron Beacon Journal.

(ath WikiLeaks, tölvugagnablaðamennska)

Marilyn Greenwald & Joseph Bernt
The Big Chill
2000