0626 Umdeildar rannsóknir II

0626

Rannsóknir
Umdeildar rannsóknir II

Rannsóknablaðamennska:
1) Framleiðir sögu, sem ekki hefði orðið til án framtaks blaðamanns. Hann er gerandi.
2) Færir lesendum mikilvæga sögu, sem er unnin úr fjölbreyttum og oft duldum heimildum.

3) Uppgötvar sögu, er kann að vera andstæð útgáfu stjórnvalda eða stjórnenda, sem kunna að hafa verið að leyna sannleikanum. Fyrirstaðan.
4) Endar í sögu, sem venjulega er uppsláttur í fjölmiðli.

Rannsóknablaðamennska hófst ekki 1972 með Watergate-málinu í Washington Post. Hún hafði áður verið fastur þáttur dagblaða í heila öld. Biblían segir frá gerðum spilltra embættismanna. Charles Dickens skrifaði sögur, sem upplýstu hneyksli.

Flest vafaatriði í vinnu rannsóknablaðamanns eru atriði, sem aðrir hafa lent í og fjallað er um í siðareglum af ýmsu tagi. Samtök og fyrirtæki hafa siðareglur, sem blaðamenn þurfa að kunna.

Nokkur atriði eru umdeild:
Fjárkúgun: Ekki kemur til greina, að blaðamaður stundi fjárkúgun.
Eftirherma: Ólöglegt er að þykjast vera embættismaður.
Mútur: Ólöglegt er að múta opinberum starfsmanni.

Það kann að vera vel meint að brjóta lög til að sýna fram á, að hægt sé að brjóta lög, en það stríðir gegn heilbrigðri dómgreind. Vopnum er smyglað um vopnaleit, fólk undir lögaldri kaupir tóbak, en blaðamaður á ekki að taka þátt í slíku.

Falska flaggið:
Chicago Sun-Times sendi blaðakonu undir yfirvarpi sjúklings í sjúkrastofnun, sem mældi þungun. Það stofnaði bar til að kanna spillingu lögreglumanna. Blaðamaður undir fölsku flaggi, spillir það trúverðugleika sögunnar?

Árásarviðtöl:
Stundum víkur blaðamaður sér án aðvörunar að fólki á opinberum stað og spyr það, stundum erfiðra spurninga. Hann bíður til dæmis við heimili fólks. Gott er að hafa áður reynt árangurslaust að ná sambandi á annan hátt og gefið skilaboð.

Þessi aðferð er einkum notuð í sjónvarpi. Margir líta á þetta sem æsifréttir og gætu haft rétt fyrir sér. Sjónvarpsstöðin þarf að minnsta kosti að útlista, að ítrekað hafi verið reynt að ná í viðkomandi aðila á annan og hefðbundnari hátt.

Önnur umdeild aðferð er að gefa viðkomandi aðila of stuttan fyrirvara til að undirbúa sig.
Einkamál:
Einkamál opinberra persóna eru til umræðu á þeim forsendum, að þau geti haft áhrif á störf þeirra.

Nafnlausar heimildir:
Eftir Watergate léku nafnlausar heimildir lausum hala í fjölmiðlum. Blaðamenn verða að leggja mikla áherslu á að fá fólk til að koma fram undir nafni. Margir munu fallast á það. Einnig verða fjölmiðlar að útskýra nafnleysið.

Bob Woodward notar mikið nafnlausar heimildir. Sama má segja um frægasta blaðamanninn, Seymour M. Hersh. Hann notar þær nánast eingöngu. Athuganir sýna þó, að notendur fjölmiðla eru ekki fyllilega sáttir við slíkt.

Gullni vegurinn:
Hvernig mundi blaðamaður taka því, að nýr starfsmaður væri í rauninni að afla sér upplýsinga um, hvernig unnið er á ritstjórninni og hvernig ákvarðanir eru teknar, til að skrifa gagnrýna bók um fjölmiðilinn?

Er hægt að verja undirferli með því, að samfélagið hafi gagn af slíku og þurfi raunar að frétta af því? Helgar tilgangurinn meðalið? Fer það eftir aðstæðum?

Yfirlestur: Bókarhöfundur víkur frá hefðbundnum praksís með því að leyfa viðmælendum sínum að lesa fréttir fyrirfram. Hér er þeim aðeins leyft að heyra beinar tilvitnanir í sjálfa sig. Er þetta vegna leiðréttinga á staðreyndum eða einhvers víðtækara?

Fyrstu viðbrögð stjórnvalda eru venjulega þau, að allt milli himins og jarðar sé ríkisleyndarmál, sem varði öryggi ríkisins og samskipti þess við umheiminn. Síðan er reynt að finna þá, sem leka, reka þá úr vinnu og draga fyrir dómstólana.

Rannsóknir beinast líka að utanríkismálum. Vegna mikillar leyndar um hermál er þungt að afla þar efnis. Það var ekki fyrr en eftir Persaflóastríðið að hægt var að sjá, hvernig stríðið hafði verið, með því að tala við uppgjafahermenn.

Stríðum nútímans verður meira eða minna ekki lýst í samtímanum. Svigrúm blaðamanna er of takmarkað. Sú saga, sem birtist jafnóðum í fjölmiðlum er meira eða minna röng. Eftir stríð opnast svo möguleikar á að finna staðreyndir.

Rannsóknablaðamenn í Washington leggja áherslu á samband við menn innan kerfisins eins og gert var í Watergate-skrifunum. Frá slíkum huldumönnum koma lekar og hugmyndir, afrit af skjölum. Gífurlega mikið slúður er á ferðinni þar í borg.

Rannsóknablaðamennska er gömul í Bandaríkjunum, meira en hundrað ára, kom með gulu pressunni um og upp úr aldamótunum 1900. Í ofanverðu Víetnamstríðinu fór hún vaxandi og náði hápunkti í Watergate-málinu og Íran-Kontra málinu.

Watergate varð frægt, af því að blaðamenn og fjölmiðill þrjóskuðust nógu lengi við, þótt við ofurefli væri að etja, sem gat falið skjöl og brugðið fæti fyrir rannsóknina á öllum stigum hennar, og af því að málið felldi Nixon forseta fyrir rest.

Bandarísku upplýsingalögin hafa opnað gífurlega mikinn aðgang, þótt þau geri ekki ráð fyrir neinni úrskurðarnefnd. Stofnanir hafa tölvur í móttöku, þar sem fólk getur flett í gagnabönkum. Þær afhenda tölvudiska og heimila beintengingu.

Brant Houston, Len Bruzzese & Steve Weinberg,
The Investigative Reporter’s Handbook
A Guide to Documents, Databases and Technologies
4th Edition
2002