0640 Óvinsældir II

0640

Rannsóknir
Óvinsældir II

Marilyn Greenwald &
Joseph Bernt
The Big Chill
2000

Þetta er bók um stöðu rannsóknablaðamennsku eins og hún var í lok síðustu aldar. Hún tekur ekki tillit til breytinga, sem hafa komið með veraldarvefnum og er því svartsýnni en efni standa til. En hún felur í sér gagnleg umræðuefni fyrir rannsóknablaðamenn.

Staða rannsóknablaðamennsku hefur risið og hnigið. Fyrir öld var hún vinsæl og síðan aftur fyrir tæplega hálfri öld. Á allra síðustu árum hefur ýmislegt gerst, sem hefur dregið úr henni. Þrjár fréttastofur hafa beðist afsökunar á henni.

Árásum á fréttaöflunarleiðir pressunnar og á fullyrðingar hennar um hlutlægni og sanngirni fóru að vaxa, þegar íhaldssöm stjórn kom til valda árið 1981. Margt fólk taldi fjölmiðlana hrokafulla. Málaferli gegn fjölmiðlum færðust í vöxt.

Í lok aldarinnar var svo komið, að almenningur var síður en svo hlynntari fjölmiðlum en hann hafði verið fyrir Watergate. Og yfir heildina sáust ekki merki um, að fjölmiðlar væru gefnari fyrir rannsóknablaðamennsku en fyrir Watergate.

Kvikmyndin All the President’s Men árið 1976 var auðvitað ekki eins og bókin og gaf ekki rétta mynd af málinu. Það voru ekki Bernstein og Woodward einir, sem felldu Nixon, heldur hin og þessi fréttaöflun í mörgum fjölmiðlum.

All the President’s Men bjó um tíma til hetjur úr rannsóknablaðamönnum. Síðan kom kvikmyndin Absence of Malice árið 1981 og fór hina leiðina, fjölmiðlarnir voru þá orðnir skúrkar að nýju og blaðamaðurinn leiksoppur blekkinga.

Ýmsar merkar uppljóstranir komu í fjölmiðlum á þessum tíma. Blaðamannaskólar höfðu fyllst af áhugasömu fólki, sem vildi reyna við rannsóknablaðamennsku. Þetta fólk fór inn á fjölmiðla að loknu námi og hafði þar áhrif.

Rannsóknafréttir vöktu staðbundna athygli, en þjóðin tók betur eftir fréttum um falsanir blaðamanna. Patricia Smith og Mike Barnicle voru rekin frá Boston Globe, Janet Cooke var rekin frá Washington Post, Jayson Blair frá New York Times.

Washington Post lét umboðsmann lesenda gera innanhúsrannsókn á vinnubrögðum Janet Cooke blaðamanns. Niðurstöðurnar sýndu, hversu auðvelt var að fara með rangt mál. “Það er engin vörn til gegn liprum lygara, sem hefur unnið sér traust.”

Efasemdir voru útbreiddar um réttmæti vinnubragða, sem byggðust á trausti á heiðarleika blaðamanna og ritstjóra. Þessar efasemdir voru mikið notaðar af aðilum, sem vildu ekki fjalla um efnisatriði málsins í rannsóknablaðamennsku.

Sérstaklega var rætt um, að ekki mætti nota nafnlausar heimildir, blaðamenn mættu ekki villa á sér heimildir, taka viðtöl við óundirbúið fólk og ekki ryðjast inn í einkalíf fólks. Bernstein og Woodward höfðu notað flestar þessar aðferðir.

Tveir þriðju þjóðarinnar voru ósáttir við, að blaðamenn villtu á sér heimildir og meirihlutinn var andvígur földum myndavélum og hljóðnemum, ennfremur andvígur greiðslum til heimildarmanna og notkun nafnlausra heimildamanna í fréttum.

Sérstaklega var viðkvæmt, að nafnlausir heimildamenn gátu í sumum tilvikum komið að villandi upplýsingum í skjóli nafnleyndar. Þetta var stórmál, því að flestir fjölmiðlar beittu þessari aðferð, sem var lykill að uppljóstrunum um Watergate.

Það var reiðarslag fyrir blaðamenn, þegar ABC News var dæmt til að greiða Food Lion háar skaðabætur fyrir réttar fréttir af sóðaskap í matvinnslu. Fréttamenn höfðu gerst starfsmenn fyrirtækisins og földu inni á sér hljóðnema og myndavélar.

Í málaferlum þessa tíma varð minna um meiðyrðamál og meira um mál, sem byggðust á umdeildum aðferðum rannsóknablaðamennsku, til dæmis árásum hennar á einkalíf fólks. Dómvenja breyttist fjölmiðlum í óhag og sektargreiðslur hækkuðu.

CBS hætti við að sýna uppljóstrun á fölsunum tóbaksframleiðenda, af því að sveit lögmanna hótaði sjónvarpskeðjunni öllu illu. “Ótæmandi fjárhirslur geta bæði keypt embættismenn og hrætt stóra fjölmiðla til hlýðni”, skrifaði Frank Rich.

Þrátt fyrir Watergate og sumpart vegna Watergate hafði þjóðin efasemdir um fjölmiðlana. Þessar efasemdir mældust í skoðanakönnunum, sem sýndu, að hálf þjóðin hafði slíkar efasemdir, taldi fjölmiðlana vera of áhrifamikla, hnýsist of mikið.

Upp úr þessu komu fram hugmyndir um félagslega blaðamennsku, sem starfaði á grundvelli breiðra og sameiginlegra gilda þjóðarinnar í stað þess að líta á þjóðfélagið að utan. Þetta var félagslegi rétttrúnaðurinn undir lok aldarinnar.

Samkvæmt þessari hugmynd eiga fjölmiðlarnir að starfa innan frá, en ekki utan frá, vinna að samstarfi og samvinnu um framfarir, vera í betra samstarfi við stjórnvöld, einkum sveitastjórnir og nefndir og ráð á vegum þeirra. Hér er mikið um slíka vinnu.

Þetta var eins konar endurskilgreining á blaðamennsku sem leit að betri heimi með þátttöku í samfélagslegri vinnu. Þessi blaðamennska fór á fjölmiðlum að keppa um fé, fólk og athygli við rannsóknablaðamennsku, sem efaðist um allt þetta.

Stuðningsmenn rannsóknablaðamennsku töldu, að félagslega blaðamennskan væri fíkjublað til að fela undirlægjuhátt. Fréttastofa, sem markaðssetur sig sem vin samfélagsins, mun áreiðanlega forðast að gera neitt, sem stuðar samfélagið.

Marilyn Greenwald &
Joseph Bernt
The Big Chill
2000