0627 Tæknileg blaðamennska I

0627

Rannsóknir
Tæknileg blaðamennska I

Brant Houston er höfundur bókarinnar. Hann er líka aðalhöfundur annarrar kennslubókar á þessu námskeiði: “Investigative Reporter’s Handbook”. Hann var blaðamaður í 17 ár og er nú forstjóri samtaka rannsóknablaðamanna, IRE, og prófessor í Missouri.

Dæmin, sem fylgja þessari bók, eru einnig á www.ire.org/carbook. Það er heimasíða, sem kemur blaðamönnum að góðu gagni við að prófa ýmsar aðferðir við að vista gögn og raða þeim upp til að finna gild svör við spurningum.

“Tölvuþekking er lykill að starfi í blaðamennsku. Sá, sem getur safnað upplýsingum og unnið úr þeim hraðar en áður, mun ná betra samhengi og þróa betri skilning á umræðuefninu, ná betri viðtölum og geta skrifað af meira öryggi en hinir.” Einkunnarorð kaflans.

Gamla reglan: “Sannreyndu, sannreyndu, sannreyndu,” er mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Heilsusamleg efahyggja er mikilvægari en áður og viðtöl við margs konar heimildir, krosstékkaðar, eru mikilvægari en áður.

Margir blaðamenn hafa aflað sér þjálfunar í undirstöðuatriðum tölvuvinnslu og hafa hækkað þröskuldinn, sem nýir blaðamenn þurfa að komast yfir. Það hefur flýtt fyrir þróuninni, að vélbúnaður og hugbúnaður er ódýrari og einfaldari en áður.

Tölur hafa aðra áru en texti. Menn bera meiri virðingu fyrir tölum en texta. Þeir, sem nota tölur, njóta meira trausts en hinir, enda er meira samkomulag en áður um, hvaða tölur séu réttar. En þá verða menn líka að fara rétt með tölur.

Flest vísindi nútímans byggjast á tölum. Daglega koma slíkar tölur fram í fréttum. Prósentuskipting og indexar eru hluti daglega lífsins. Þetta er sett fram í tölum og töflum. Það er varla til sú síða í dagblaði, sem ekki er með einhverjum tölum.

Embættismenn vænta, að þú biðjir um þúsundir síðna og bíðir marga mánuði eftir því, að þeir striki út leynileg atriði. Þeir hyggjast senda þér reikning upp á tugi þúsunda. Í USA kom í ljós, að það kostar hundrað dollara að laga bankann.

Að morgni dags tekur þú tölvudiskinn á skrifstofu þeirra og um kvöldið ertu með tilbúna frétt um, að fátækt fólk er látið borga hærra lausnargjald úr löggæzlu en ríkt fólk og verður því að sitja inni meðan mál þess er kannað. Hér færðu Excel-skjal í tölvupósti.

Viltu vita um öryggi á næsta alþjóðaflugvelli? Þú tekur niður gagnabankann af heimasíðu Flugmálastjórnar (í Ameríku) eða biður Samtök tölvublaðamanna, IRE, að senda þér allan gagnabanka stofnunarinnar, sem þau eiga jafnan í nýjustu útgáfu.

Um kvöldið ertu búinn að finna út fjölda öryggisbrota á þessum flugvelli síðustu árin og í hverju þau voru fólgin. Þú ert búinn að tala við starfsmenn vallarins, flugfélaga og Flugmálastjórnar og lesa skýrslu stjórnvalda, sem er á vefnum. Slíkt er ekki hægt hér.

Svona vinna er orðin hversdagsleg í Bandaríkjunum. Blaðamenn nota þessar leiðir og aðrar til að segja fréttir, sem koma til greina til Pulitzer-verðlauna. Enginn blaðamaður getur verið án þess að kunna að nota tölvur til að grafa upp mál.

Þótt við séum á eftir tímanum hér, þá er til endalaust magn af frjálsum töflum hér á landi, þannig að endalaus tækifæri eru hér á landi fyrir rannsóknablaðamennsku.

Þótt Ísland sé lokað land, en ekki opið eins og Bandaríkin og Kanada og hugsanlega Svíþjóð líka, þá er mikið magn fáanlegt hér á landi af tölvugögnum, sem blaðamenn hafa ekki enn borið sig eftir. Sárafáar beiðnir koma til Úrskurðarnefndar upplýsingalaga.

Sú staðreynd, að blaðamenn kæra lítið til Úrskurðarnefndar, segir nefndarmönnum ekki, að blaðamenn telji slíkt vera vonlaust. Það segir nefndarmönnum, að kæruefni séu fá og ástandið sé í lagi.

Hins vegar komumst við aldrei framhjá því, að úrskurðarnefndin og Persónuvernd telja fjármál vera einkamál. Löggjafinn þarf að koma til skjalanna til þess að aðgengi íslenskra blaðamanna verði svipað og bandrískra.

Hagstofan, bankarnir og samtök á Íslandi gefa flestar tölur sínar út í pdf-formi, sem er afleitt. Reynið að koma slíkum töflum inn í Excel til framreiknings. Þú verður að hringja í stofnanirnar og fá þær til að senda þér stafrænt form taflanna, svo þú getir notað þær.

Notaðu tækifærið, þegar þú hringir, til að benda viðkomandi aðilum á, að rétt framsetning talna á vefnum er í formi, sem gefur kost á flutningi í töflureikni, ekki í pdf-formi, sem er birtingarform, en ekki reikningsform. Kannski fást einhverjir til að laga þetta.

Eina mikilvæga stofnunin á Íslandi, sem gefur tölur sínar út í formi, sem hæfir töflureikni, er Seðlabankinn. Þær eru birtar þar á vefnum í Excel-formi. Neytendaamtökin veita félagsmönnum líka aðgang að Excel-formi á töflum.

Hæfni blaðamanns felst núna í að geta hlaðið niður gagnabönkum, geta rannsakað gögnin, geta hugsað á gagnrýninn hátt, leitað að öðrum upplýsingum á vefnum, svo að hann geti skrifað fréttir með dýpt og samhengi, sem skipta máli í nútímanum.

Bandaríski blaðamaðurinn, sem byrjar að skrifa frétt með 150.000 dómsmál í tölvu sinni er ekkert sambærilegur við blaðamenn fortíðarinnar, sem komust aðeins í nokkur dómsmál í hverri viku. Galdur gagnabankanna er mikill.

Æfingar í tengslum við bókina er að finna á slóðinni: www.ire.org/resourcecenter. Þar eru dæmi með ýtarlegum skýringum um notkun á tölvum við öflun frétta. Lærðu líka að nota Excel og FileMaker eða Access.

Brant Houston
Computer-Assisted Reporting
A Practical Guide
3rd Edition
2004