0402 Inngangur

0602

Rannsóknir
Inngangur

Washington Post er gott dæmi. Eftir Watergate kom í ljós, að traust blaðsins hafði minnkað. Þetta hefur á leitt til, að fækkað hefur verið verkfærum í kistunni. Vinnubrögð blaðsins hafa breyst. Nú er þar verið að leggja niður nafnlausar heimildir.

Progress Toward Reducing Anonymity: Grein eftir Deborah Howell, Ombudsman, Washington Post , June 5, 2006. Hún skrifar um viðleitni blaðsins til að afnema nafnlausar heimildir í blaðinu.

Greinin sýnir, hvernig blað, sem tekur sig alvarlega, er að reyna að breyta vinnubrögðum sínum til að geta stundað rannsóknir án þess að stuða lesendur sína. Þetta hefur gengið hægt hjá blaðinu, að því er henni finnst.

Í staðinn hefur aukizt fyrirferð nýrra verkfæra, sem byggjast á tölvutækni. Í rannsóknum nota blaðamenn töflureikna og gagnagrunna í auknum mæli til að finna samhengi, sem áður voru mönnum ekki ljós. Þetta er ekki auðvelt í landi lokaðra gagnabanka.

Kennslubækur þessa námskeiðs taka mið af nýrri þróun. Annars vegar er stuðst við bók um rannsóknir blaðamanna almennt og hins vegar við bók, sem fjallar um notkun tölvunnar í rannsóknablaðamennsku. Báðar bækurnar tengjast samtökum á því sviði.

Kennslubækurnar vísa mikið til upplýsingabanka, sem bandarískir rannsóknablaðamenn hafa komið upp:
www.ire.org
www.nicar.org
Áskrift að bönkunum kostar 30 dollara fyrir háskólanema.

www.poynter.org
Morgunfundur Als, Romenesko
www.globalinvestigativejournalism.org
www.dicar.org
www.fuj.dk
www.fgj.se
www.skup.no

Þar sem Ísland er lokaðra land en Bandaríkin er sumt erfiðara eða ófært að gera á Íslandi. Ég reyni að vekja athygli á þessum mun á viðkomandi stöðum í yfirferð á kennslubókinni á námskeiðinu í rannsóknablaðamennsku.

Gott væri að geta sagt, að sérhver blaðamaður sé rannsóknablaðamaður, en það væri ekki satt. Margir blaðamenn eru færiband fyrir opinbert ferli. Þeir skrá lýsingu helsta málsaðila, en staðfesta ekki, að það sé rétt, ná ekki í mikilvægu gögnin.

Sumir blaðamenn segja frá máli borgarstjórans. Aðrir segja líka frá máli oddvita minnihlutans, hafa tvíhliða frétt. Rannsóknablaðamaðurinn lætur ekki pólitíska aðila ráða ferðinni og kannar gögnin að baki umræðunum. Hann er sjálfstæður, frjáls.

Sumir eru ósjálfstæðir, háðir heimildamönnum sínum og taka efni þeirra trúanlegt. Æskilegra er, að rannsóknablaðamenn séu sjálfbærir, geti sjálfir metið, hvað er gagnlegt í pakka af upplýsingum, í stað þess að þurfa að láta aðra segja sér það.

Sérhver blaðamaður getur verið rannsóknablaðamaður. Hann þarf aðeins óseðjandi forvitni um, hvernig heimurinn virkar eða virkar ekki. Hún þarf að vera blandin efahyggju samþætta við hneykslun, sem fær útrás í uppljóstrun þess, er fer leynt.

Ef þetta er til, er hægt að kenna afganginn. “Rannsóknablaðamennska byggist á frumkvæði blaðamannsins, fjallar um mikilvæg mál, sem skýra tilveruna fyrir notendum. Og oftast vilja viðfangsefni rannsóknarinnar að málið fari áfram leynt.”

Einnig má skilgreina rannsóknablaðamennsku svo, að hún grafi undir yfirborðið og aðstoði þannig fólk við að skilja, hvað gerist í sífellt flóknari heimi. “Grafandi blaðamenn”. Ekki er þá nauðsynlegt, að blaðamaðurinn þurfi að yfirvinna fyrirstöðu.

Stundum er talað um, að blaðamaðurinn fari gegnum nokkra sammiðja hringi inn að kjarnanum í miðjunni. Hann bori sig utan frá og fari inn. Yst eru annars stigs heimildir og innra eru fyrsta stigs heimildir, innst er kjarni málsins.

Valið viðfangsefni rannsóknar:
Fréttaskot kemur frá gömlum vini eða óþekktum aðila. Birtar fréttir kalla á nánari útlistun. Röðun eða flokkun upplýsinga í gagnagrunni sýnir nýjan vinkil. Stundum er bara forvitni að verki.

Því miður reyna margir blaðamenn ekki við rannsóknir eða útreikninga af því að þeir eru vanir að taka gilda opinbera útgáfu frá heimildum, sem þeir vilja ekki styggja. Þeir eru ekki sjálfstæðir og verða ekki rannsóknablaðamenn.

Svona þarf ástandið ekki að vera. Bob Woodward byrjaði á vikublaði í Maryland og notaði venjuleg fréttaverkefni til rannsóknaverkefna. Þannig vann hann sig á venjulegum verkefnum inn á Washington Post og náði þar fullum þroska í Watergate.

Rannsóknartilgátan:
Það er öðru vísi að byrja með rannsóknartilgátu en með lokuðum huga.
Bestu rannsóknablaðamenn leita jafn eindregið eftir sönnunargögnum, sem hafna tilgátunni, og hinum, sem styðja hana.

Brant Houston, Len Bruzzese, Steve Weinberg: 
The Investigative Reporter’s Handbook, 4. útgáfa 2002
Brant Houston: 
Computer-Assisted Reporting, 
3. útgáfa 2004