0605 Forgöngumenn II

0605

Rannsóknir
Forgöngumenn II

Paul Foot
The Great Lockerbie Whitwwash, 1989-2001
Blaðamaður birtir lekann.

Paul Foot var þekktur rannsóknablaðamaður í Bretlandi. Hann skrifaði margar uppljóstranir um Lockerbie-flugslysið, þar sem farþegavél var sprengd yfir Skotlandi. Hann skrifaði fyrst í Daily Mirror og síðan í skopritið Private Eye.

Foot benti á misræmi í skjölum og yfirlýsingum stjórnvalda, sem kenndu libískum manni um hryðjuverkið. Foot var eini blaðamaðurinn, sem nennti að sitja undir öllum málarekstrinum. Fréttir hans komu stjórnkerfinu hvað eftir annað í uppnám.

Foot sýndi fram á, að bresk og bandarísk stjórnvöld vissu, hvernig slysið varð og hver bæri ábyrgð á því. Bandarískir sendiráðsmenn voru látnir hætta við ferð með fluginu, en ekki almenningur. CIA leitaði í brakinu að tveimur leynikössum.

Bandarísk skjöl sýna fram á þetta, en hins vegar hefur aldrei verið upplýst, hvernig stóð á slysinu. Að því leyti hefur Lockerbie aldrei náð eins langt og önnur fræg rannsóknamál fjölmiðlasögunnar, eins og til dæmis Wategate.
Lykilatriðið hefur ekki lekið enn.

Robert Fisk
Terrorists, 1990-2001
Blaðamaður skoðar vegsummerki.

Robert Fisk var í Beirut, þegar her Ísraels kom til borgarinnar og hleypti morðsveitum kristinna falangista inn í flóttamannabúðirnar í Sabra og Chatila að undirlagi Ariel Sharon, sem síðar varð forsætisráðherra Ísraels.

Fisk var ásamt tveimur öðrum blaðamönnum fyrstur til að koma í búðirnar, þegar falangistarnir voru búnir að drepa þar alla, konur, börn og gamalmenni. Hann komst að þessu, honum fannst skrítin nálykt í loftinu, er hann ók hjá hverfinu.

Fisk var fréttaritari The Times og kom upplýsingum um þetta til blaðsins. Hann vakti athygli á, að þarna var um að ræða fjöldamorð, sem minntu á fjöldamorð á gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni. Ísraelski herinn vaktaði fjöldamorðin.

Amira Hass
Under Siege, 1996
Blaðamaður býr hjá viðfangsefninu.

Amira Haas er blaðamaður ísraelska blaðsins Ha’aretz og hefur þá sérgrein að segja frá lífi og þjáningum fólks í Palestínu. Hún bjó í þrjú ár meðal þeirra á Gaza-svæðinu og lýsir örlögum þeirra í bókinni “Drinking the Sea at Gaza.”

Haas kortleggur þar, hvernig fólki er neitað um grundvallarréttindi, hvernig ríkið í Ísrael skipuleggur morð á fólki, hvernig Palestínumenn bregðast við. Segir frá “collective punishment”, þar sem ættingjum er refsað fyrir gerðir annarra.

Phillip Knightley
The Thalidomide Scandal:
Where We Went Wrong, 1997
Blaðamenn ofsóttir með lögbanni.

Sunday Times birti greinaflokka um thalidomide, lyfið, sem leiddi til fæðingar vanskapaðra barna. Upp úr greinunum skrifuðu nokkrir starfsmenn blaðsins bókina: “Suffer the Children: The Story of Thalidomide”.
(Har. Evans)

Mikil áhersla var lögð á að hindra birtingu greinanna. Sett var lögbann á þær, sem síðan var hrundið af Evrópudómstólnum. Distillers, fyrirtækið, sem seldi lyfið, fann út, hver hefði lekið upplýsingum til blaðsins, og elti hann líka.

Á endanum urðu almenn mótmæli í Bretlandi, fyrirtæki tóku vörur frá Distillers úr sölu. Fyrirtækið gafst upp og greiddi vansköpuðu börnunum miklar skaðabætur. Þetta er saga um, hvernig hægt er með lögbanni að trufla rannsóknablaðamennsku.

Anna Politkovskaya
Chechnya: A Dirty War, 1999-2002
Blaðamaður sem stríðsfréttaritari.

Politkovskaya var eini rússneski blaðamaðurinn, sem skýrði frá þjáningum fólks í Tsjetsjeníu undir hernámi Rússa. Hún skrifaði í óháða blaðið Novaya gazeta og mátti sæta margvíslegum hótunum. Hún kom upp um rússneska pyndingarstöð.

Hún birtir bréf hermanna og viðtöl við fólk. Hún birtir nafnalista yfir horfið fólk. Hún lýsir því, hvernig henni var falið að hitta hryðjuverkamenn, sem tekið höfðu Dubrovka-leikhúsið herskildi, til að reyna að hjálpa gíslum þeirra.

Linda Melvern
A People Betrayed, 2000
Blaðamaður skoðar gögn.

Melvern kortlagði upphaf þjóðarmorðsins í Rúanda og sýnir fram á, hvernig Boutros-Gali, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kom í veg fyrir, að liðsveitir Sameinuðu þjóðanna í Rúanda fengju að skiptu sér af málinu í tæka tíð.

Sjálft þjóðarmorðið var ekkert leynilegt, því var útvarpað jafnóðum. Minna var vitað um afskipti Sameinuðu þjóðanna og öryggisráðs þess af málinu. Skýrsla, sem gerð var um það tæpu ári síðar, beinir sökinni að öllum þessum aðilum.

Greg Palast
How to Steal the Presidency and Get Away with It, 2000-2001
Blaðamaður rannsakar skjöl.

Palast sýndi, að 50.000 manns höfðu verið tekin af kjörskrá í Florida fyrir forsetakosningarnar 2000, þar sem Bush vann Gore í Florida með 537 atkvæðum. Þetta var fólk, sem tekið hafði verið fast fyrir meint brot utan Florida.

Að miklu leyti var þetta fólk, sem ekkert hafði gert af sér. Þetta voru svartir Bandaríkjamenn, sem kannanir sýna, að jafnan kjósa demókrata. Grein Palast birtist í breska blaðinu Observer og vakti litla athygli bandarískra fjölmiðla.

Washington Post birti fréttina ekki fyrr en sjö mánuðum síðar og New York Times ekki fyrr en árið 2004, löngu eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna hafði úrskurðað, að úrslitin í Florida skyldu standa. Í greininni er lýst framvindu svindlsins.