0401 Tilgangur & meðal

0601

Rannsóknir
Tilgangurinn og meðalið

Því miður reyna margir blaðamenn ekki við rannsóknir eða útreikninga af því að þeir eru vanir að taka gilda opinbera útgáfu frá heimildum, sem þeir vilja ekki styggja. Þeir eru ekki sjálfstæðir og verða ekki rannsóknablaðamenn.

Svona þarf ástandið ekki að vera. Bob Woodward byrjaði á vikublaði í Maryland og notaði venjuleg fréttaverkefni til rannsóknaverkefna. Þannig vann hann sig á venjulegum verkefnum inn á Washington Post og náði þar fullum þroska í Watergate.

Mig langar til að biðja ykkur um að fylgjast vel með fréttum og finna atriði, sem varða þetta námskeið, til dæmis tilþrif í rannsóknum eða tilraunir í þá áttina. Eða fréttir, sem hefði mátt bæta með aðferðum rannsóknablaðamennsku.

Ef við teljum óæðri enda blaðamennsku felast í að klippa og líma fréttatilkynningar, þá er rannsóknablaðamennska æðri endinn. Hún byggist á efahyggju, þeirri skoðun, að valdaaðilar í þjóðfélaginu reyni oft að leyna sannleikanum fyrir þér.

Reyndar er þessi skilgreining umdeild. Mörkin eru á víðu, gráu svæði. Blaðamenn taka út mál og grafa þau upp, án þess að bein fyrirstaða sé af hálfu valdaaðila. Ennfremur er ekki alltaf ljóst, að efahyggja sé meiri forsenda rannsókna en t.d. þolinmæði.

Íslenskir blaðamenn geta gerst aðilar að www.IRE.org og fengið sendar rannsóknir gegn kostnaði við ljósritun og póst. Því miður tekur það tíu daga að fá bréfið, þótt það sé sent í hraðpósti með tilheyrandi kostnaði.

Ég náði þarna í frásögn sjónvarps af árekstrarhættu milli franskrar og íslenskrar þotu á Kennedy-flugvelli. Í gögnunum kemur meðal annars hljóðrit af samskiptum milli flugturnsins og flugstjóra á þotunum.

Ljóst er, að þrautseigja hentar rannsóknablaðamönnum vel, ekki síður en efinn. Við getum því sett upp þessa skilgreiningu: Efi + fyrirstaða + þrautseigja = rannsóknablaðamennska. En á þessu námskeiði einblínum við ekki á skilgreiningar, heldur árangur.

Ef við lítum á blaðamennsku sem hringlaga flöt og rannsóknablaðamennsku sem sneið í einum kantinum, getum við séð fyrir okkur, að gráa svæðið á mörkum þeirra getur verið stærra en flöturinn undir rannsóknablaðamennsku.

Úttektir eru á svipuðum jaðri blaðamennskunnar og rannsóknablaðamennska. Sumir vilja flokka þær undir rannsóknir, en aðrir ekki. Skilgreining á rannsóknablaðamennsku fer eftir, hvernig maður lítur á slíka aðra þætti í blaðamennsku.

Á námskeiðinu um rannsóknir notum við bandarískar kennslubækur, af því að allur þorri rannsókna í blaðamennsku er stundaður þar vestra. Þar hefur þessi grein lengst verið kennd. Þar eru seldar flestar kennslubækur og þar koma þær örast út í nýjum útgáfum.

Þar vestra er líka bestur aðgangur að verkefnum í rannsóknum. Samtök blaðamanna á þessu sviði í Bandaríkjunum eru sterk, byggja á miklu samstarfi félagsmanna og halda úti langbesta vefsvæðinu um þetta efni.

Viðmiðum við Bandaríkin hefur þó þann annmarka, að þar er þjóðfélagið opnara og gefur kost á meiri rannsóknum. Þar er hægt að gera hluti, sem erfiðara er að gera hér eða jafnvel ókleift. Einkum er þar betri aðgangur að gagnabönkum af ýmsu tagi.

Þessi munur getur hvílt á grunni laga, siðvenja eða bara því, að íslenskir blaðamenn láta lítið reyna á það, hvort þeir geti fengið upplýsingar. Aðeins tvisvar ári rekur slík mál á fjöru úrskurðarnefndarinnar um upplýsingamál.

Margir Bandaríkjamenn vantreysta valdamönnum í pólitík, embættum og viðskiptum. Margir Íslendingar treysta slíkum valdamönnum. Munur samfélaga getur haft áhrif á viðhorf fólks til rannsóknablaðamennsku og á stöðu hennar í samfélaginu.

Raunar er öll blaðamennska farin að draga dám af rannsóknum. Þær eru orðnar þáttur af daglegum störfum blaðamanna almennt. Verkfæri rannsóknablaðamennsku eru orðin að eðlilegum þætti í almennri blaðamennsku. Góðir fjölmiðlar neita að klippa og líma.

Samt hafa ekki öll verkfæri hennar hlotið viðurkenningu. Neytendur blaðamennsku efast um sumar aðferðirnar, til dæmis falskt flagg, faldar myndavélar, greiðslur og nafnlausar heimildir. Fólk fagnar að vísu fréttunum, en treystir viðkomandi fjölmiðlum ekki.

Segja má, að almenningur noti spakmælið: “Tilgangurinn helgar ekki meðalið.” Fólk er ekki sátt við, að umdeildar aðferðir séu notaðar til að ljóstra upp um ferli. Blaðamenn verða að rísa upp úr skítnum, sem þeir skrifa um. Annars glata miðlarnir trausti.

Washington Post er gott dæmi. Eftir Watergate kom í ljós, að traust blaðsins hafði minnkað. Þetta hefur á leitt til, að fækkað hefur verið verkfærum í kistunni. Vinnubrögð blaðsins hafa breyst. Nú er þar verið að leggja niður nafnlausar heimildir.

Rannsóknablaðamennska:
Tilgangurinn helgar ekki meðalið

Brant Houston, Len Bruzzese, Steve Weinberg: 
The Investigative Reporter’s Handbook,
4. útgáfa 2002
Brant Houston: 
Computer-Assisted Reporting, 
3. útgáfa 2004