0625 Umdeildar rannsóknir I

0625

Rannsóknir
Umdeildar rannsóknir I

Rannsóknablaðamennska:
1) Framleiðir sögu, sem ekki hefði orðið til án framtaks blaðamanns. Hann er gerandi.
2) Færir lesendum mikilvæga sögu, sem er unnin úr fjölbreyttum og oft duldum heimildum.

3) Uppgötvar sögu, er kann að vera andstæð útgáfu stjórnvalda eða stjórnenda, sem kunna að hafa verið að leyna sannleikanum. Fyrirstaðan.
4) Endar í sögu, sem venjulega er uppsláttur í fjölmiðli.

Rannsóknablaðamaður er einn af reyndustu starfsmönnum ritstjórnar, veit hvernig stjórnsýsla virkar og getur metið, hvort svo sé. Hefur komið upp neti heimilda og unnið sér traust þeirra. Veit, hvar skjöl eru geymd og hvernig á að túlka þau.

Rannsóknablaðamaður er þolinmóður efahyggjumaður, sem skilur muninn á réttu og röngu og sættir sig ekki við lélega eða spillta stjórnsýslu eða stjórnun.

Ekkert málefni er undanþegið rannsóknablaðamennsku. Sumt af því, sem rannsóknablaðamaður fjallar um, er ekki ólöglegt. Oft er málið spilling eða ill meðferð neytenda. Stundum nota fyrirtæki sér skort á eftirliti stjórnvalda.

Við rannsókn og birtingu er mikilvægt, að málefnið sé ekki of víðtækt fyrir fjölmiðilinn. Takmarka þarf fókusinn nógu mikið fyrir fullnægjandi grein eða þátt, sem lesandi eða hlustandi skilur, þótt hann hafi lítinn tíma aflögu.

Verkefnin eiga sér ekki landamæri. Oft bilar hneykslismál fyrst í litlum anga þess á fjarlægum stað, sbr. Watergate. Þar taka menn eftir því, að ekki er allt með felldu og rekja sig eftir málinu, uns umfang þess verður ljóst.

Lesendur og hlustendur eru orðnir vanir almannaþjónustu rannsóknablaðamennskunnar og ætlast til að njóta hennar. Hún er líka gróðavænleg og eykur traust manna á miðlinum til langs tíma. Vel klárað verk leiðir til viðurkenningar almennings.

Blaðamaður verður að fara eftir lögum og siðareglum ritstjórnar. Hann getur ekki stolið upplýsingum eða ruðst inn á heimili fólks. Hann getur ekki logið að fólki. Allt, sem hann gerir af sér, getur hefnt sín, þegar menn gera lítið úr honum.

Blaðamaður kann að þurfa að leggja fram formlega ósk um aðgang að upplýsingum. Þá notar hann Upplýsingalögin. Stofnunin hefur tíu (hér 7) daga til að svara og getur í vissum tilvikum framlengt tímann um aðra tíu daga. Neitun getur byggst á:

1) Málið truflar öryggi ríkisins eða utanríkisstefnu þess.
2) Málið felur í sér upplýsingar frá einkafyrirtæki, sem bauð í opinbert verk.
3) Málið brýtur á einkalífi fólks.
4) Málið truflar rannsókn, sem stendur yfir.

Þar sem tíu eða tuttugu dagar geta liðið, reynir rannsóknablaðamaður yfirleitt að fara skjótvirkari leiðir en þessa. Stundum vill önnur stofnun veita aðgang að umbeðnum upplýsingum. Stundum er hægt að fara í yfirmann til að fá samþykki.

Rannsóknablaðamaður lærir ekki aðeins á kerfið, heldur lifir hann kerfið. Nokkurn veginn sömu reglur gilda um allar opinberar stofnanir. Blaðamaðurinn hefur lögverndaðan rétt til að fá upplýsingar og beita upplýsingalögum í því skyni.

Rannsóknablaðamaður þarf að kunna skil á landslögum og dómvenju, sömuleiðis breytingum á dómvenju. Hegningarlög taka á heimildarleysi, þjófnaði, fjárkúgun, eftirhermu og mútum. Einkamálalög taka á meiðyrðum, einkalífsrétti og svikum.

Heimildarleysi: Blaðamaður má ekki vera, þar sem aðgangur er bannaður í samræmi við lög, nema vera boðið það af viðeigandi aðila. Umferð um land er leyfð. Vera inni á heimilum er háð leyfi. Blaðamaður verður að fara, ef honum er vísað út.

Stuldur: Skjölum má ekki stela, ekki heldur þótt þeim sé síðan skilað. Það telst ekki til þjófnaðar að taka rusl úr tunnu, því að það er talin vera yfirgefin eign. Bandarískir dómstólar verja rétt blaðamanna til að hirða upp úr tunnum.

Meiðyrði: Til skamms tíma voru meiðyrði helstu vandamál blaðamanna gagnvart lögum. Sögur í fjölmiðlum geta valdið viðkomandi aðilum álitshnekki. Í Bandaríkjunum hafa blaðamenn ekki sönnunarbyrði um, að texti sé ekki meiðyrði.

Rangur texti: Ef texti reynist rangur, ber að leiðrétta hann strax. Eigi að síður hefur fjölmiðill skaða af röngum texta, því að leiðréttingin gefur tilefni til gagnárása og efasemda um réttmæti rannsóknar blaðamanns.

Vond trú: Blaðamaður getur varið sig með því að hafa verið í góðri trú, þegar hann samdi textann. Erfitt er að sýna fram á hið gagnstæða, nema blaðamaður hafi litið fram hjá gögnum, sem sýndu hið rétta í málinu.

Skaði: Blaðamaður getur ekki stýrt, hvort upplýsingar í frétt valda persónu eða fyrirtæki skaða, ef fréttin er sönn. Blaðamaður getur tryggt sig enn frekar með því að taka fram, að fréttin nái ekki til annarra, óviðkomandi atriða eða fólks.

Réttur til einkalífs er vaxandi tilefni málaferla gegn blaðamönnum og fjölmiðlum. Þá þarf málsaðili ekki að sýna fram á, að fréttin sé röng, sett fram í vondri trú og skaði hann. Honum nægir að sýna fram á, að réttur til einkalífs hafi skerst.

Opinberar persónur, sem eru í fréttum, eru taldar hafa minni rétt til einkalífs en almenningur. Stjórnmálamenn og embættismenn og íþróttamenn hafa ekki höfðað mál á grundvelli einkalífs, en fólk í skemmtibransanum hefur gert það.

Brant Houston, Len Bruzzese & Steve Weinberg,
The Investigative Reporter’s Handbook
A Guide to Documents, Databases and Technologies
4th Edition
2002