0629 Gögn á netinu I

0629

Rannsóknir
Gögn á netinu I

Thomas Maier hjá Newsday notaði upplýsingar á vefslóðum til að finna, hvort trúnaðarlæknar tryggingafélaga hefðu eitthvað á samviskunni, svo sem rangar upplýsingar um próf og lækningaleyfi eða áminningar fyrir afglöp í starfi.

Maier notaði gífurlega stóran gagnabanka, fjölda af viðtölum og málsókn til að ná gögnum. Hann bar síðan saman nöfn á mismunandi listum til að sjá fortíð læknanna, sem hann var að skrifa um.

Margir blaðamenn þekkja þá aðferð að hlaupa á blaðamannafund, spyrja þar nokkurra spurninga, þjóta til baka á skrifstofuna, hringja nokkur símtöl í æðibunu og fá þar staðfest nokkur lykilatriði, áður en sagan er skrifuð og birt.

Núna er sú aðferð meira notuð að fara á netið eða veraldarvefinn, krækja þar í upplýsingar, til dæmis tölulegar upplýsingar, sem má setja í reiknivinnslu. Þessi breyting er hrein bylting. Auk þess flæða inn gagnabankar á CD-diskum.

Aðgangur blaðamanna að gagnabönkum hefur jafnað samkeppnisaðstöðu þeirra gagnvart þeim, sem áður skömmtuðu blaðamönnum upplýsingar úr gagnabönkum. Erfiðara en áður er orðið að skekkja upplýsingarnar áður en þær eru afhentar blaðamanni.

Jafnframt verða blaðamenn eins og áður að feta stíginn af varúð. Villur geta leynst í gagnabönkum, sem þeir fá. Ef þær fara á leiðarenda inn í sögur, sem birtast á prenti eða í sjónvarpi, er fall blaðamannsins hærra en það var áður.

Stafrænar upplýsingar eru ekki endilega réttari en upplýsingar á pappír. Það er hins vegar miklu fljótlegra að leiðrétta villur í stafrænum upplýsingum en þeim, sem eru á pappír. Heimildir á vef geta því verið réttari á vef en pappír.

Upplýsingar í töflureiknum er skráðar í línur og dálka, sem sameiginlega mynda töflu. Þetta er tvívíður heimur, sem fellur vel að pappírsblaði og tölvuskjá. Á blaðinu eru upplýsingarnar frosnar, en á tölvuskjánum eru þær lifandi. Ath. Guardian.

Að finna stafrænar upplýsingar á netinu eða vefnum getur verið tímafrekt, þreytandi og marklaust. Þú þarft að hafa áætlun um verkið og skilning á því, hvað vefurinn getur boðið, og þá getur þú náð góðum árangri:

1) Rannsókn: Blaðamaður fer á netið, stærsta upplýsingasafn í heimi, og leitar í fréttum, háskólaskjölum, bókum og öðru efni.
2) Viðtöl: Blaðamaður víkkar sviðið með því að leita að ráðgjöfum, fórnardýrum, vitnum og málsaðilum á netinu (Barnaland).

3) Gagnabankar: Blaðamaður tekur upplýsingar af netinu og hleður þeim í sína tölvu.
4) Samþætting: Blaðamaður notar töflureikni eða gagnagrunn til að vinna frekar úr upplýsingum, sem hefur hefur fengið af netinu.

Upp úr 1980 notuðu menn Lexis/Nexis dómsmálabankann til að rekja slóð svikara milli sparisjóða og banka. 1991 notaði Mike Berens á Columbus Dispatch gagnabanka á vefnum til að finna mann, sem hafði framið morð í mörgum ríkjum.

1992 notuðu Dave Davies og Ted Wendling á The Plain Dealer skjöl á netinu til að finna fólk, sem hafði dáið af geislameðferð.
1994 notuðu blaðamenn skjöl á netinu til að ná í upplýsingar um jarðskjálftann í Kaliforníu, þótt síminn lægi niðri.

1995 notuðu blaðamenn spjallrásir til að ná í vitni að sprengingunni miklu í Oklahoma City.
1996 notuðu blaðamenn við Newsday alls konar gögn af netinu til að fá vitneskju um TWA800 slysið og finna vitni.

Gögn á netinu er einkum tvenns konar:
1) Annars stigs gögn, svo sem fréttasöfn og dómsmálagögn.
2) Fyrsta stigs gögn, svo sem gagnagrunnar ríkisstofnana og spjallrásir.

Þú verður að sannreyna allt, sem þú vilt nota af netinu. Þú verður að meta, hvaða slóðum er hægt að treysta og hverjir stjórni þeim. Spjallrásir eru ekki meira marktækar en fólk er í daglegu lífi. Blaðamaður étur það ekki hrátt eftir þeim.

Sumir blaðamenn hafa aðgang að reyndum fagmönnum í leit á netinu. Þeir eru kallaðir leitarmenn, “searchers” og hafa reynst vera mikilvægir. Blaðamenn verða þó að hafa næga þekkingu til að geta spurt leitarmenn réttra spurninga.

Þeir eru eins konar bókasafnsfræðingar netsins, gefa góð ráð og þekkingu. Þeir raða upp flóknum leitum og beina athygli blaðamanna að réttum slóðum. Þeir vita, hvar upplýsingar eru geymdar og hvernig á að ná í þær.

Leitarmaður kann að vinna í skjölum á vefnum og ná þar í viðbótarspurningar við þær, sem upprunalega voru settar fram, og síðan að nota þessa viðbót til enn frekari leitar í skjölum, svo sem greinum, ritgerðum, bókum og fréttum.

Gamlir fréttabankar eru mikilvæg gagnalind. Margir byrja á því að fletta upp í slíkum bönkum. Í Bandaríkjunum geta stúdentar oft fengið aðgang að þeim, en aðgangur er dýr fyrir einstaklinga og fjölmiðla, til dæmis að Lexis/Nexis.

Kosturinn við slíka banka er, hversu gífurlega umfangsmiklir þeir eru. Gallinn er, hvað lengi er verið að leita í þeim og að oft kemur of mikið af gögnum út úr því, sem getur orðið dýrt spaug.

Ókeypis gagnabankar efnisskrá innhald stóru bankanna og geta sagt þér, hvað þar er að finna, áður en þú borgar fyrir upplýsingarnar. Þar á meðal eru Lexis-One og sunsite.unc.edu/slanews/internet/archives.html.

Brant Houston
Computer-Assisted Reporting
A Practical Guide
3rd Edition
2004