0634
Rannsóknir
Tölvuvinnsla II
Gagnabankar eru misjafnlega aðgengilegir, stundum verðlagðir. Stundum er þeim haldið fyrir þér af öryggisástæðum eða einka- og fjármálaástæðum. Þannig getur listi yfir erlendar gjafir til embættismanna verið flokkaður sem utanríkismál eða einkamál.
Blaðamaður þarf að kunna að beita þrýstingi til að ná gagnabönkum, sem ættu að vera opnir öllum fyrirvaralaust í gegnsæju lýðræðisríki. Fyrst þarf að vita um tilvist banka, síðan að semja um hann og loks að flytja hann yfir í þína tölvu.
Auðvitað þarftu að komast að raun um tæknileg atriði bankans, er hann á netþjóni eða borðtölvu, er hann töflureiknir eða gagnagrunnur, er hann á gömlu prógrammi, í hvaða formi fæst hann afhentur? Hvernig líta út skýrslurnar úr honum? Megabæti hans.
Auðvelt er að eiga við töflureikna. Málið getur orðið flóknara með gagnagrunna. Þar þarftu að fá með teikningu að upplýsingunum:
1) Nafn hvers sviðs, dálks, línu. Candid þýðir kannski: Candidate ID number.
2) Hvort það sé textasvið, talnasvið eða tímasvið.
3) Hversu stór hver reitur sé
4) Röð sviðsins í skránni.
Kóðabók eða kóðablað á að fylgja hverjum gagnagrunni. Þar er skýrður ýmis vinnusparnaður, svo sem að karl er 1 og kona er 2. Þú getur kannski fundið út úr þessu af hyggjuviti þínu, en best er þó að spara getraunir við notkun gagnabanka.
Þú átt líka að biðja um útprentun af fyrstu 10-100 skráningunum til að sjá, hvort öll vídd bankans hafi verið notuð, eða hvort mikið sé um eyður.
Ef gagnabankinn er forn og afhentur á segulbandi þarftu að vita ýmislegt:
1) Hvaða forritunarmál er notað, EBCDIC eða ASCII er best.
2) Hvernig er frágangurinn, “fixed format”, “tab delimited”, “comma delimited” o.s.frv.
3) Þéttleiki segulbandsins, hversu mörg bit eru á því. Eru þau 6250 BPI.
4) Blokkastærð. Sendingarblokkir.
5) Lengd skráningar.
6) Hversu margar skráningar færðu.
Dæmi:
Density: 6250 BPI.
Format: Fixed.
Record Lenght: 100.
Blocking Factor: 10.
Block size: 1000.
Coding: EBCDIC.
Number of records: 851.777.
Á allra síðustu árum hefur aukist áhersla á einkalíf og á öryggismál ríkisins. Þetta stafar af, að öflugir aðilar vilja fela sín mál á bak við einkamál almennings. Í Bandaríkjunum er farið að neita aðgangi að skrám, þótt þær séu fáanlegar annars staðar.
Fyrir tíu árum sömdu blaðamenn lista yfir 35 afsakanir embættismanna fyrir því að afhenda ekki gagnagrunna. Þú getur fengið listann hjá NICAR, National Institute for Computer-Assisted Reporting. Þessir útúrsnúningar eru notaðir enn í dag. Sjá síðar.
Ef embætti segir, að gagnabanki sé með einkamálum eða öryggismálum, þarftu að vita um lög og reglur. Kannski geturðu fengið bankann, þegar búið að fella út ákveðin svið, dálka, línur. Stundum sætta blaðamenn sig við, að nöfn birtist ekki.
Í stað þess að lenda í löngu ferli kærumáls, sem tekur fjóra mánuði, getur verið heppilegra fyrir blaðamann að fá gagnabanka, sem hefur verið grisjaður samkvæmt framansögðu.
Embættismenn halda fram gífurlegum kostnaði. Connecticut heimtaði 3 milljónir dollara fyrir einn bankann. Í ljós kom, að það kostaði 1 dollar að grisja bankann. The Hartford Courant borgaði þennan 1 dollar og lét bóka mótmæli.
Skráningarverð.
Opinber stofnun á ekki að reikna kostnað við að hella gagnagrunni út á CD-disk eða heimasíðu, þótt sumt sé grisjað burt í leiðinni, það er völdum reitum er hellt.
Tímalaun.
Almenningur hefur þegar borgað fyrir alla vinnu við þessa gagnabanka. Ef þú biður ekki um forritun, áttu ekki að þurfa að borga neitt. Forðastu að þurfa að borga fyrir forritun.
Tékklisti:
1) Þú getur fundið gagnabanka með því að spyrja, hvaðan töflurnar komi.
2) Stjórnvöld erlendis setja æ fleiri gagnabanka á netið, en grisja jafnframt upplýsingarnar.
3) Endurskoðendur vísa til gagnagrunna, sem þú mundir annars ekki vita um.
4) Fáðu alltaf viðeigandi skýringar með gagnagrunni.
5) Þekktu upplýsingalögin.
6) Flestir gagnagrunnar og töflureiknar geta flutt inn flestar tegundir skráa.
Að öllu samanlögðu áttu að borga minna en 10.000 kr fyrir hvern gagnabanka. Þú átt samt að heimta gjaldfrelsi, af því að gegnsæi sé í þágu almannaheillar. Í sumum ríkjum Bandaríkjanna er beinlínis bannað að okra á gagnabönkum.
Hér á landi hafa embætti komið sér upp tekjupósti í útleigu á aðgangi að gagnabönkum. Þetta er hrein tekjuöflun, því að kostnaður hefur áður verið dekkaður. Þetta er svipað og stimpilgjöld ríkisins, hreint peningaplokk.
Gættu að tvennu, þegar þú flytur inn gögn:
1) Upplýsingarnar fari í rétta dálka og í rétt merkta dálka.
2) Vertu viss um, að upplýsingarnar séu rétt þýddar á tölvumáli.
Að finna og flytja inn gögn getur verið viðsjált, en það er nauðsynlegur hluti af vinnunni. Því meira sem þú gerir af slíku, þeim mun auðveldara verður það. Þú getur ekki skrifað rétta frétt, ef gögnin eru ekki í lagi.
Brant Houston
Computer-Assisted Reporting
A Practical Guide
3rd Edition
2004