0512 Premiere Pro

0512

Miðlunartækni
Premiere Pro
Encore, Prelude, SpeedGrade, After Effects

Premiere Pro er forrit, sem klippir myndskeið og ritstýrir þeim á tímalínu, eins og tíðkaðist áður í hefðbundinni vinnslu kvikmynda. Það er notað í sjónvarpi, til dæmis af BBC og The Tonight Show og einnig notað í kvikmyndum.

Dæmi um kvikmyndir í fullri lengd úr Premiere Pro: The Social Network, Captain Abu Raed, Monsters, A Liar’s Autobiography, Avatar (hlutar), Act of Valor, Dust to Glory, Playing Columbine, TimeScapes, Superman Returns, Waiting for Lightning.

Til skamms tíma var einkum Avid Media Composer notað til að klippa kvikmyndir. Það er dýrt kerfi á sérhæfðum tölvum. Fyrir nokkrum árum fóru kvikmyndagerðarmenn að flytja sig yfir í Apple Final Cut Pro, sem nú er til í útgáfunni Final Cut Pro 7.

Af ótilgreindum ástæðum hætti Apple árið 3011 að selja Final Cut Pro 7, þrátt fyrir velgengni þess. Í staðinn kom einfaldari og ódýrari útgáfa, Final Cut Pro X, sem höfðaði síður til atvinnumanna. Minnir á fyrra hliðarhopp Apple með iMovie, er olli ruglingi..

Eftir vandræðagang var iMovie endurreist með iMovie 11 og náði aftur fótfestu. Ekki er vitað, hvort það sama gerist fljótt með Final Cut Pro X, en í millitíðinni hefur Premiere Pro náð fótfestu á markaði atvinnumanna. Margir nota þó enn Final Cut Pro 7.

Sumir benda á, að Final Cut Pro X sé mjög einfalt í notkun og muni aftur ná vinsældum atvinnumanna, þegar geta forritsins verði orðin svipuð og Final Cut Pro 7. Aðrir telja, að Apple og Adobe hafi skipt með sér markaðinum og að Premiere Pro fái fagfólkið.

Premiere Pro styður allt að 10240 x 8192 punkta upplausn með 32 bita á hverja litarás bæði í RGB (red-green-blue) og YUV (brightness-chrominance), styður VST (virtual studio technology) viðbót og 5.1 (sex rása surround sound).

Premiere Elements er fyrir amatöra. Fagmenn nota Premiere Pro, sem hefur “multiple sequence support, high bit-depth rendering, multicamera editing, time re–mapping, scopes, color correction tools, advanced audio mixer interface and bezier keyframing”.

Hægt er að flytja inn samsetningar úr Adobe After Effects og opna Adobe Photoshop skrár beint í Premiere Pro. Forritið vinnur líka með Adobe Story, Adobe On Location, Adobe Prelude, Adobe Audition og Adobe Encore. Adobe er þannig alls staðar í ferlinu.




Premiere Pro eða Final Cut Pro 7:

http://www.adobe.com/products/premiere/switch.html
http://philipbloom.net/2012/09/30/cs6/

Mikilvægi Premiere Pro fyrir gerð kvikmynda og sjónvarpsþátta hefur aukizt með viðbótarforritum frá Adobe. Meðal þeirra eru Adobe Encore, Adobe Prelude, sem kemur í stað OnLocation, Adobe SpeedGrade. Og svo auðvitað Adobe After Effects.

Encore er orðið 64 bita forrit með 8 bita lit og hentar atvinnumönnum. Það tekur myndskeið með mynd og hljóði og framleiðir úr þeim DVD myndskeið, sem hægt er að setja í DVD spilara. Síðan eru DVD diskarnir fluttir í fjöldaframleiðslu.

Encore skilar mynd frá sér í MPEG-2 formi og hljóði í Dolby Digital. Einnig framleiðir forritið matseðla í DVD diskinum. Encore notar ekki Blue-ray tæknina. Ekki selt sérstaklega, en fylgir með í Premiere Pro í forritapökkum Adobe Creative.

Prelude er ekki heldur selt sérstaklega og fylgir með í Adobe Creative forritapökkum. Notað til að “review, import, log, select, and export tapeless media”. Fagmenn nota það til að búa til frumgerðir myndskeiða til frekari meðferðar í Premiere Pro.

SpeedGrade sér um litaleiðréttingar og ýmsa aðra filtrun myndskeiða, annað hvort í RAW formati eða í myndskeiðum, sem koma úr Premiere Pro. Forritið er einkum notað í nákvæmri kvik–myndagerð. Sumir kvikmyndagerðarmenn þurfa það ekki.

SpeedGrade er fyrst og fremst aðferð Adobe til að ná til atvinnumanna, sem hingað til hafa talið sig þurfa á Avid Media Composer að halda. Þegar SpeedGrade var sérstakt fyrirtæki, var forritið selt á $20.000, sem sýnir, hve rosalega prísarnir hafa fallið.

After Effects er forrit, sem snýst um ýmis brögð við kvikmyndagerð. Mest notað við búa til hreyfanlegar fígúrur í tvívídd og þrívídd. Það felur í sér margvíslega, sniðuga tækni, breytir til dæmis sjónarhorni áhorfandans.

After Effects gefur kost á viðbótum frá þriðja aðila. Þekkt er stæling á snjókomu, rigningu og eldi, sem virkar mjög líkt veruleikanum. Líka er viðbót, sem breytir myndskeiðum í teiknimyndaskeið og ótal aðrar viðbætur, sem beita myndskeið ýmsum brögðum.

Þrívídd er orðinn stór þáttur í After Effects. Þrívíðir hlutir varpa þar skugga á réttan hátt. Með þrívíddinni er forritið farið að keppa við forrit, sem eingöngu snúast um gerð þrívíddar. Vektora-teikning (Create Shapes From Vector Layer) er líka orðin þáttur í forritinu.

After Effects býr líka yfir Warp Stabilizer, sem eyðir titringi, sem stafar af myndavélum, sem haldið er á við töku. Þetta er orðið mikilvægt síðan DSLR myndavélar voru teknar í notkun í stað fastra myndavéla við gerð kvikmynda og sjónvarpsþátta.

Segja má, að After Effects gegni mikilvægu hlutverki í flutningi kvikmyndagerðar frá föstum kvikmyndavélum á braut, sem eru rándýrar, yfir í notkun þægilegra og ódýrari DSLR myndavéla á borð við Canon EOS 5D Mark III og Blackmagic Cinema Camera.

Þannig vinna ný tæki og nýr hugbúnaður úr ýmsum áttum að yfirfærslu margmiðlunar úr ákaflega dýrum farvegi, eins og hann var fyrir tíu árum, yfir í tiltölulega ódýran farveg, sem opnar bransann fyrir einstæðinga í samkeppni við gömlu stórfyrirtækin.

Í næsta fyrirlestri ætla ég að ljúka umfjöllun um margmiðlunarpakka Adobe með því að ræða einkum vefhönnunarforritið Dreamwiever. Síðan ætla ég að yfirgefa Adobe og fjalla um vefhönnunarforritð WordPress, sem hefur sigrað heiminn.